Endurskoðun íþróttalaga

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:12:25 (3889)

1996-03-13 14:12:25# 120. lþ. 106.3 fundur 347. mál: #A endurskoðun íþróttalaga# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:12]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Fyrst er spurt hvenær megi vænta þess að ríkisstjórnin leggi fram frv. til nýrra íþróttalaga. Drög að frv. til nýrra íþróttalaga hafa verið til athugunar á vegum menntmrn. að undanförnu og eru nú til umfjöllunar í ráðuneytinu og er stefnt að því leggja frv. fyrir Alþingi næsta haust.

Enn er spurt: Hefur átt sér stað frekari endurskoðun á meginstefnu stjórnvalda um þróun íþróttastarfs í landinu en fyrir lá í áliti nefndar um ný íþróttalög í janúar 1993? Vinna að stefnumörkun á þessu sviði hefur m.a. tengst umfjöllun þeirra frumvarpsdraga sem íþróttalaganefndin skilaði og vikið var að í svari við fyrri spurningunni. Í því starfi hefur m.a. verið haft samráð við íþróttanefnd, Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands. Í verkefnaáætlun menntmrn. sem hv. fyrirspyrjandi nefndi og kynnt var nú í febrúar og dreift hefur verið á þingi er sérstakur kafli um íþróttir og æskulýðsmál. Þar er lögð áhersla á eflingu almennra íþrótta og mikilvægi þess að skapa aðstæður til að fjölskyldan geti sameinast í leik og starfi. Einnig er bent á mikilvægi íþróttakennslu í skólum með hliðsjón af breytingum í skólahaldi með einsetnum skólum og heilsdagsskóla og þar með lengri skóladegi. Rétt er í þessu sambandi að benda einnig á gagnmerka könnun sem Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála gerði að frumkvæði menntmrn. en niðurstöður hennar birtust haustið 1994 í skýrslu sem ber heitið: Um gildi íþrótta fyrir íslensk ungmenni. Niðurstöður þessarar rannsóknar hafa vakið mikla athygli og hljóta að hafa áhrif á stefnumótun stjórnvalda og jákvæðari afstöðu almennings til íþrótta því að niðurstöðurnar sýna að íþróttaiðkun í skólum leiðir almennt til betri námsárangurs og heilbrigðara lífs þeirra sem íþróttirnar stunda.