Skipasmíðaiðnaðurinn

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:33:38 (3898)

1996-03-13 14:33:38# 120. lþ. 106.5 fundur 349. mál: #A skipasmíðaiðnaðurinn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:33]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr á þskj. 607: Mun ráðherra beita sér fyrir því að skipasmíðaiðnaðurinn hér á landi njóti stuðnings eins og í öðrum EES-ríkjum samkvæmt 7. skipasmíðatilskipun Evrópusambandsins? Í svari mínu áðan við hliðstæðri fsp. á þskj. 606 lýsti ég viðhorfum ríkisstjórnarinnar, viðhorfum mínum, gagnvart stuðningsaðgerðum við atvinnulífið og ætla ekki að endurtaka það. Þá er það mat mitt að aðstæður séu nú slíkar bæði gagnvart erlendri samkeppni svo og með hliðsjón af verkefnastöðu skipasmíðaiðnðarins að ekki sé þörf á beinum ríkisstyrkjum til skipasmíðaiðnaðarins á þessu ári enda er ekki gert ráð fyrir því í fjárlögum. Ég rökstyð niðurstöðu mína nánar með upplýsingum um það hvað gert hefur verið og hver staðan er núna.

Í fyrsta lagi. Árin 1994 og 1995 var veitt jöfnunaraðstoð. Það er ekki alveg hárrétt hjá hv. þm. að ekkert hafi verið gert árið 1995 en þá var veitt jöfnunaraðstoð í skipasmíðaiðnaði. Tilgangur hennar var að jafna þá samkeppnismismunun sem greinist vegna erlendra ríkisstyrkja. Jöfnunaraðstoðin árið 1994 var um 13% af tilteknum verkum í skipasmíðaiðnaði og viðgerðum og var varið 60 millj. kr. það ár til þessara verkefna. Árið 1995 var veitt jöfnunaraðstoð í skipasmíðaiðnaði á grundvelli 7. tilskipunar ESB um styrki til skipasmíða sem var hluti af EES-samningnum það ár. Nam aðstoðin 4,5% af skilgreindum verkefnum í skipaviðgerðum í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Heimilt var að veita 25 millj. kr. til þess verks. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við var ekki gert ráð fyrir þessum 25 millj. kr. á fjárlögum þessa árs. Því kom það inn í fjáraukalagafrumvarpið síðari hluta árs 1995 að þessar 25 millj. kr. voru settar inn. Reynslan er hins vegar sú að fyrirtækin hafa ekki nýtt sér þetta fé heldur aðeins 17 millj. kr. af 25 og það eru vísbendingar um það að þörfin fyrir styrki sé ekki eins rík eins og menn vilja halda fram. Því var ákveðið að á fjárlögum ársins 1996 yrði ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum til styrkja í skipasmíðaiðnaðinum fyrir það ár. Það var samkomulag innan Evrópusambandsins að þessum styrkjum yrði hætt um áramótin 1995/1996. Því var síðan frestað á grundvelli þess að 7. tilskipunin hafði þá hjá OECD ekki náð fram að ganga. Eins og kom fram hjá hv. þm. er gert ráð fyrir því að hún taki gildi 1. okt. á þessu ári.

Í árslok 1995 lét ráðuneytið kanna það hver afkoman væri í skipasmíðaiðnaðinum. Afkoma, verkefnastaða, fyrirsjáanleg verkefnastaða og atvinnuástand var nær undantekningalaust betri á árinu 1995 en 1994 og bjartara yfir árið 1996 en árið 1995. Öll fyrirtækin að einu undanskildu í skipasmíðaiðnaðinum eru rekin með hagnaði árið 1995 og það er auðvitað besta dæmið um að þessi atvinnugrein er sem betur fer mjög að rétta úr kútnum. Fyrir utan það gekkst iðnrn. fyrir því í árslok 1995 að ráðist var í sérstakt átak sem við höfum kallað nýsköpun í mjöl- og málmiðnaði. Tilgangur verkefnisins var að auka samkeppnishæfni í fiskimjölsiðnaði og tækniþróun í málmiðnaði, þar með talið í skipasmíðaiðnaði. Meðal annars var atvinnuástandið hjá málmiðnaðarmönnum áhyggjuefni á sínum tíma og það veit ég að hv. þm. man eftir sem formaður iðnn. Á sameiginlegum blaðamannafundi sem iðnrn. átti með Samiðn lýsti formaður Samiðnaðar því yfir í árslok 1995 að atvinnuleysinu væri lokið hjá málmiðnaðarmönnum. Síðan þá hefur það gerst að menn hafa ákveðið að ráðast í stækkun álversins í Straumsvík sem mun kalla á verulegan fjölda málmiðnaðarmanna til starfa. Sem betur fer er ástandið í þessari iðngrein miklu betra en nokkru sinni fyrr, í langan tíma að minnsta kosti.