Skipasmíðaiðnaðurinn

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:38:27 (3899)

1996-03-13 14:38:27# 120. lþ. 106.5 fundur 349. mál: #A skipasmíðaiðnaðurinn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:38]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu hvort að ríkið eigi að styrkja skipasmíðaiðnaðinn frekar en gert hefur verið. Ég bendi aðeins á eitt atriði sem ég tel að þurfi að koma fram þegar verið er að tala um frekari styrkveitingar til skipaiðnaðarins að opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög hafa á síðustu 15 árum styrkt upptökumannvirki slippstöðva og skipasmíðastöðva um landið um 1 milljarð króna. Þetta hefur leitt til þess að það er mikið umframframboð af möguleikum fyrir skipaiðnaðinn þannig að nýting upptökumannvirkja í dag er ekki nema 30%. Ef ekki hefði komið til þessara styrkveitinga hefði nýtingin getað orðið um 50%. Ég tel að þetta sé ein ástæðan fyrir því hversu erfiðlega hefur gengið fyrir skipaiðnaðinn að koma undir sig fótunum og því setur maður mikið spurningarmerki við það hvers vegna ríki og sveitarfélög hafa séð ástæðu til þess að skipta sér svo mjög af uppbyggingu skipasmíðaiðnaðarins yfirleitt. Ég bendi sérstaklega í þessu sambandi á skipasmíðastöðvar eins og Skipasmíðastöð Njarðvíkur og Skipasmíðastöð Daníels sem eru einu innlendu skipasmíðastöðvarnar sem eiga sín eigin upptökumannvirki og eru í einkaeigu. Þau hafa greinilega orðið fyrir mikilli samkeppnismismunum sem hefur leitt til þess að þau hafa átt erfiðara uppdráttar og í raun erfiðara fyrir iðnaðinn í heild sinni að koma undir sig fótunum.