Mengunarhætta vegna olíuflutninga

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:46:41 (3903)

1996-03-13 14:46:41# 120. lþ. 106.6 fundur 353. mál: #A mengunarhætta vegna olíuflutninga# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. umhvrh. um mengunarhættu af völdum olíuflutninga er svohljóðandi í þremur tölusettum liðum:

1. Hvaða viðbúnaður er hérlendis til að bregðast við stórfelldri olíumengun við strendur landsins, t.d. hliðstæðri og ítrekað hefur orðið af skipströndum við Bretlandseyjar?

2. Hvaða aðili samræmir aðgerðir til að draga úr líkum á slíkri vá og hver annast yfirstjórn aðgerða ef slys ber að höndum?

3. Til hvaða fyrirbyggjandi aðgerða er brýnast að grípa af Íslendinga hálfu, einna og í samvinnu við útlendinga, til varnar mengun vegna olíuflutninga við strendur landsins?

Ástæðan þess að fyrirspurnin kemur fram nú er að þessi mál minna óþyrmilega á sig með ítrekuðum stórfelldum slysum þó ekki sé hér við land í þeim mæli sem við þekkjum erlendis frá, síðast fyrir ströndum Wales í Bretlandi þar sem olíuskipið Sea Empress strandaði með óheillavænlegum afleiðingum. Óhapp þetta varð á einhverju viðkvæmasta strandsvæði Bretlandseyja, náttúruverndarsvæði á evrópskan mælikvarða. Afleiðingarnar eru auðvitað þær sem fylgja slíkum slysum þó ekki sé allt komið í ljós því þær geta verið alllangvinnar. Það tekur tíma að olía leysist upp af náttúrulegum ástæðum og mengun getur því tekið yfir alllangan tíma. Ég spyr um viðbúnað hérlendis til að bregðast við þessu. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra dragi fram aðalatriði þess máls.

Í öðru lagi var spurning um það hver samræmir aðgerðir til að draga úr líkum á slíkri vá og um yfirstjórn slíkra aðgerða. Menn heyrðu í hæstv. samgrh. hér áðan og það er áhyggjuefni ef það er svo að togstreita ríkir á milli ráðuneyta um valdsvið og ekki síður og kannski enn frekar ef ekki er um nauðsynlega samræmingu að ræða á milli þeirra sem þurfa að koma við sögu, þ.e. hæstv. samgrh. og hæstv. umhvrh. og e.t.v. félmrh., sem ráðherra sveitarstjórna í landinu og um fyrirbyggjandi aðgerðir bæði á okkar eigin valdsviði eða aðgerðir til að breyta alþjóðlegum samþykktum sem hér er spurt um. Þar kemur margt til greina sem ég vænti að hæstv. ráðherra reki hér að því er varðar hugmyndir hans þar að lútandi.