Mengunarhætta vegna olíuflutninga

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:58:23 (3906)

1996-03-13 14:58:23# 120. lþ. 106.6 fundur 353. mál: #A mengunarhætta vegna olíuflutninga# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:58]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt rétt sem fram kemur hjá hv. 4. þm. Austurl. að aðstæður geta verið mjög mismunandi og magn olíu þarf auðvitað ekki að segja til um það tjón sem hún getur valdið. Það er þó staðreynd að þessi gríðarlega stóru olíuskip eru ekki að sigla hér alveg við strendur okkar og fyrst og fremst eru olíuflutningarnir sem hingað koma olía sem við erum að nota sjálf því að við erum ekki með olíuhreinsunarstöðvar af því tagi eins og verið er að flytja olíu til og á milli staða í nágrannalöndum okkar. Þetta er því fyrst og fremst sú olía sem við notum sjálf og farmarnir þess vegna minni. En það er auðvitað rétt að það þarf að hafa þetta allt í huga og mengunarvarnabúnaðurinn og viðbrögðin þurfa að taka mið af því. Ég tek þetta þess vegna ekki síður sem ábendingu frá hv. þm. en það að hann sé beinlínis að krefjast annarra svara af minni hálfu á þessu stigi í sambandi við þá hættu sem kann að vera af minna magni af olíu.

Hitt vil ég svo segja um samræminguna og samstarfið að er það auðvitað svo að við skiptum nú nokkuð með okkur valdsviðum í stjórnskipun okkar og einstakir þættir heyra undir þetta ráuneyti og aðrir undir hitt og eðlilegt að svo sé. En líka mjög brýnt og nauðsynlegt að gott samstarf sé milli ráðuneytanna og milli ráðherra á þeim málaflokkum sem kunna að skarast og kunna að varða málin af beggja hálfu. Þótt ég kynni að hafa einhverjar sérstakar skoðanir á búnaði skipa leiði ég hjá mér í augnablikinu að svara hv. fyrirspyrjanda vegna þess að ég hef ekki skoðað það mál svo til hlítar að svar mitt væri vel undirbyggt. En um hafsvæðin vil ég hins vegar segja að það tel ég að sé miklu nær því að falla undir starfssvið umhvrn. og nefni það þá aftur sem kom fram í lokamáli mínu í svarinu áðan að þegar er unnið að því að reyna að ná samkomulagi um siglingaleiðir olíuskipa hér við land og að hluta til gæti það fallið undir það hvaða hafsvæði á að verja og hvar á að leyfa slíkar siglingar.