Framtíðarsamvinna Íslands og Vestur-Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 15:01:28 (3907)

1996-03-13 15:01:28# 120. lþ. 106.7 fundur 375. mál: #A framtíðarsamvinna Íslands og Vestur-Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KPál (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[15:01]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir skjót viðbrögð við þessari fyrirspurn sem var lögð fram á fimmtudaginn í síðustu viku.

Ríkjaráðstefna Evrópusambandsríkja, einn mesti pólitíski viðburður í Evrópu á síðari árum, er að hefjast innan skamms. Sú ráðstefna mun m.a. fjalla um varnar- og öryggismál Evrópu og hlutverk Vestur-Evrópusambandsins, VES, í því.

Eins og flestir vita sem fylgst hafa með þessum málum er stefnt að því í Maastricht-sáttmálanum að VES verði Evrópustöð Evrópusambandsins í NATO og skuli því sameinuð Evrópusambandinu. Um þetta eru mjög skiptar skoðanir innan Evrópu og hefur hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, m.a. lýst sig mótfallinn þeirri breytingu. Það var þó almennt álitið allt fram á aukaþing VES í London í síðasta mánuði að Maastricht-sáttmálinn yrði virtur og VES sameinað Evrópusambandinu. Með ræðu forsætisráðherra Bretlands, John Majors, á þessu þingi tel ég að orðið hafi mikill vendipunktur í þessu máli. Þar sagði hann að það yrði ekki í hans stjórnartíð né í næstu stjórn hver sem væri við stjórnvölinn í Bretlandi, Íhaldsflokkurinn eða Verkamannaflokkurinn, að aðrir en breska þingið eða ríkisstjórn Bretlands gætu sent breska hermenn í stríð. Það yrði þeirra eigin ákvörðun. Því kæmi aldrei til greina að breskar hersveitir yrðu sameinaðar undir yfirráð Evrópusambandins né annarra þjóða. Hann taldi sameiningu VES við Evrópusambandið ekki koma til greina af þessari meginforsendu. Þessi eindregna afstaða Breta endurspeglaðist síðan í umræðunum í þinginu á eftir um framtíðarhlutverk Vestur-Evrópusambandsins, m.a. í íslensku sendinefndinni, en hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði fyrir hennar hönd í því máli. Ég tel því að þær umræður sem fram fara á ríkjaráðstefnunni á næstu mánuðum um öryggis- og varnarmál muni snúast um hvernig starfsemi VES verði styrkt og hvaða ríki verði þar sem fullgildir aðilar. Sem ein af þjóðum Evrópu hef ég alltaf álitið að Ísland ætti að hafa sem nánust tengsl við Evrópuþjóðir innan NATO og í Evrópusambandinu við framtíðarþróun Íslands á sviði öryggismála og á sviði verslunar og viðskipta. Ég tel því að Íslendingar eigi að sækja um fulla aðild að Vestur-Evrópusambandinu. Það tel ég gerast best með þeim þjóðum sem eru aukaaðilar, ,,associate members``, eins og Noregur og Tyrkland. Fulltúar þessara beggja þjóða hafa óskað eftir því á tveimur síðustu þingum VES að reglum samtakanna yrði breytt í þá veru að þær gætu gerst fullgildir aðilar. Ég tel að við Íslendingar eigum að stilla okkur upp með þessum þjóðum hvað þetta varðar enda eru þær með okkur í NATO.

Það hefur komið fram á þingum VES, m.a. hjá Finsberg lávarði, formanni bresku sendinefndarinnar, að meiri hluti sé fyrir því að breyta reglum VES í þá veru að Evrópuríki NATO yrðu fullgildir aðilar. En þetta sagði hann eftir ræðu norska fulltrúans Vidars Bjørnstad þar sem hann var að mæla fyrir fullri aðild Noregs að VES á þinginu í París í desember sl.

Virðulegi forseti. Ég tel að í þessu máli þurfi afstaða Íslands að vera skýr, ákveðin og opinber, hvert við stefnum í þessu máli. Þess vegna er sú spurning sem hér er til umræðu lögð fram, virðulegi forseti:

Hvernig telur ráðherra að framtíðarsamvinnu Íslands og Vestur-Evrópusambandsins verði best háttað?