Framtíðarsamvinna Íslands og Vestur-Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 15:04:48 (3908)

1996-03-13 15:04:48# 120. lþ. 106.7 fundur 375. mál: #A framtíðarsamvinna Íslands og Vestur-Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[15:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson spyr um framtíðarsamvinnu Íslands og Vestur-Evrópusambandsins, hvernig þessari samvinnu verði best háttað. Eins og fram kom í máli hans er rétt að taka fram að Ísland er fullgildur aukaaðili að VES og það þarf því í sjálfu sér ekki að ræða um sérstaka samvinnu. Hins vegar er eðlilegt að tala um það hvernig við viljum að VES þróist og hvar við getum komið að þeirri þróun. Rúmlega þrjú ár eru liðin síðan Ísland ásamt Noregi og Tyrklandi undirritaði skjal um aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu. En aukaaðildin felur ekki í sér réttindi og skyldur samkvæmt stofnsamningi VES enda sá samningur ekki undirritaður af okkar hálfu.

Í stuttu máli geta aukaaðilar tekið fullan þátt í ráði og nefndum VES. Þau geta hins vegar ekki hindrað ákvarðanir sem ríki með fulla aðild hafa náð samstarfi um. Á sama hátt geta aukaaðilar tengst ákvörðunum VES. Í dag eru einungis þau ríki sem bæði eru í NATO og ESB fullir aðilar að VES að Danmörku undanskilinni. Fram hefur komið áhugi, einkum meðal þingmanna og nú í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar, að við sækjum um fulla aðild að VES. Stofnsáttmáli VES kveður skýrt á um að það verður að koma boð frá aðildarríkjunum sem er einróma samþykkt af þeim, þ.e. boð frá VES ef til slíks á að koma og er rétt að taka fram að það getur orðið harðsótt. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að gagnkvæmar varnarskuldbindingar VES eru mun meira afgerandi en hjá NATO. Tvær meginástæður eru fyrir aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu. Í fyrsta lagi að tryggja aðgang Íslands að vettvangi þar sem teknar eru ákvarðanir um evrópsk öryggismál sem kunna að hafa þýðingu fyrir öryggi Íslands. Í öðru lagi að styrkja svonefnda Evrópustoð innan Atlantshafsbandalagsins og þá um leið áfram öflug tengsl um Atlantshaf.

Íslendingar eiga mikið í húfi að geta beitt áhrifum sínum í umræðum um öryggismál Evrópu vegna hinna hröðu samrunaþróunar innan Evrópusambandsins og vaxandi áherslu á sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu þess. Þá er í samræmi við ákvörðun Maastricht-fundarins stefnt að því að VES annist varnarmál ESB þegar sameiginleg varnarstefna verður að veruleika.

Síðari þátturinn, að styrkja Evrópustöð Atlantshafsbandalagsins og varðveita haldföst tengsl um Atlantshaf, er enn í fullu gildi. Afstöðubreyting Bandaríkjanna að styðja af einlægni þróun sjálfstæðrar öryggisímyndar Evrópu í formi Vestur-Evrópusambandsins og styrkari Evrópustoð NATO hefur gert þessa málefnabaráttu auðveldari. Einnig er mikilvægt að hafa í huga breytingu á afstöðu Frakklands til varnarsamstarfsins innan Atlantshafsbandalagsins.

Eins og hv. þm. kom inn á er fram undan ríkjaráðstefna ESB. Þar mun koma til umræðu hvernig stofnanalegum tengslum þess við VES verður háttað. Engin samstaða er um þessi mál eins og kom fram í máli hans. Bretland eitt í minni hluta stutt af Íslandi og Noregi innan VES leggur áherslu á stofnanalegt sjálfstæði VES. Önnur ESB-ríki aðhyllast samruna VES við ESB þó áherslumunur séu á hver hraði samrunans skuli vera. Það verður því afar mikilvægt fyrir Ísland að fylgjast mjög náið með umfjöllun um þetta mál sérstaklega og sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu almennt á þessari nefndu ríkjaráðstefnu.

Ekki þarf að fjölyrða um það að Ísland mun eftir sem áður leggja áherslu á stofnanalegt sjálfstæði VES þar sem við getum komið þeirri skoðun á framfæri. Ljóst er þó að umræðan um stofnanaþáttinn mun á næstunni fyrst og fremst fara fram innan ESB og á ríkjaráðstefnunni.

Hvað er þá með innra skipulag VES? Í formennskutíð sinni hefur Bretland lagt áherslu á að byggja upp starfsgetu VES svo sem áætlanagerð og upplýsingaöflun. Með aukinni áherslu Frakklands á samstarfi innan Atlantshafsbandalagsins er líklegt að auðveldara verði fyrir VES að sinna minni verkefnum þeim sem kennd eru við Petersberg þar sem um er að ræða að beita VES til neyðaraðgerða á sviði mannúðaraðstoðar og björgunar, friðargæslu og að tryggja frið á hættutímum og það á svæðum utan landsvæðis aðildarríkjanna. Lykilatriði hvað þetta varðar felst í að tengsl VES og NATO styrkist og að samkomulag takist um aðgang og notkun VES á herstjórnarkerfi NATO. Eftir kyrrstöðu virðist samkomulag vera í augsýn sérstaklega eftir að Frakkar boðuðu aukið samstarf í NATO.

Til að styrkja stöðu Íslands og efla framlag til VES kann að vera áhugavert að skoða möguleika þess að taka þátt í ofangreindum verkefnum þar sem þau mundu að öllu jöfnu ekki varða meiri háttar átök. Það er ekki óraunhæft að Ísland geti orðið virkur þátttakandi í skilgreindum afmörkuðum verkefnum VES þó megináhersla verði sem fyrr á að gæta öryggishagsmuna Íslands og tryggja öfluga Evrópustoð Atlantshafsbandalagsins og Atlantshafssamstarf.