Framtíðarsamvinna Íslands og Vestur-Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 15:10:45 (3909)

1996-03-13 15:10:45# 120. lþ. 106.7 fundur 375. mál: #A framtíðarsamvinna Íslands og Vestur-Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SF
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[15:10]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Það er rétt sem hér kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að mörg öfl vilja að VES verði innlimað í Evrópusambandið. Hins vegar vil ég benda á að í nýlegri úttekt sem prófessor Nikolaj Petersen við Árósarháskóla tók saman fyrir Norðurlandaráð segir hann um öryggisþáttinn vegna ríkjaráðstefnunnar að þegar öryggismál séu skoðuð þá sé ljóst að ekkert norrænna landa vill á þessum tímapunkti fulla aðild að VES og ekki megi búast við að nokkurt norrænt land mundi styðja tillögu um að VES yrði innlimað í Evrópusambandið. En það eru sum önnur lönd sem vilja það. Samkvæmt upplýsingum mínum hefur enginn norskur ráðherra sett fram þá kröfu að Noregur gerist fullgildur aðili að VES enda eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra þá sækja lönd ekki um aðild heldur er þeim boðin innganga. Það er því ekki opinber stefna Norðmanna að mínu viti. Það er líka spurning ef Ísland og Noregur fengju að gerast fullgildir aðilar að VES hvað yrði þá um Tyrkland. Þeir eru í sömu aðstöðu og við, þeir eru í NATO og aukaaðilar að VES. Hvað mundu Grikkir segja ef Tyrkir fengju að ganga þar inn? Mér finnst þetta mun flóknara en svo að við getum á þessum tímapunkti krafist fullrar aðildar að VES eins og hér kom fram.