Framtíðarsamvinna Íslands og Vestur-Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 15:14:18 (3911)

1996-03-13 15:14:18# 120. lþ. 106.7 fundur 375. mál: #A framtíðarsamvinna Íslands og Vestur-Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[15:14]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans og hv. þm. fyrir þátttöku í umræðunni. Ég er alveg sammála því sem komið hefur fram að þetta mál er ekki einfalt og það þarf að sjálfsögðu mikinn undirbúning bak við tjöldin eins og maður segir þannig að slík ætlan eins og mér finnst að við eigum að stefna að, að gerast fullgildir aðilar, nái fram að ganga. Þess vegna held ég að því sé fyrst og fremst beint til fulltrúa viðkomandi þjóðþinga á fundum Vestur-Evrópusambandsins að þeir reyni að liðka þannig til innan þingsins að þjóðir gerist fullgildir aðilar og breytingarnar komi með þeim hætti og boðið komi frá þinginu. Þess vegna held ég einmitt að fulltrúi Norðmanna, Vidar Bjørnstad, hafi borið það upp á þinginu að reglum yrði breytt þannig að Noregur gæti fengið fulla aðild.

Ég sagði ekki í ræðu minni að það væri opinber stefna Norðmanna að verða fullgildir aðilar að VES en aftur á móti er Vidar Bjørnstad fulltrúi Verkamannaflokksins á þinginu í VES og ég tel þá í beinum tengslum við ríkisstjórn Noregs. Ég geri því ráð fyrir að þetta sé í fullu samráði að Norðmenn eru að vinna í þessu máli innan Vestur-Evrópusambandsins fyrir opnum tjöldum. Ég held að það sé því ekki alveg rétt í þessari skýrslu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vitnaði í að enginn Norðurlandaþjóðanna hefði áhuga á að ganga inn í VES sem fulltrúi með full réttindi. Mér sýnist alla vega að Norðmenn hafi áhuga.

Ég þakka fyrir þessa umræðu.