Aukastörf dómara

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 15:45:27 (3919)

1996-03-13 15:45:27# 120. lþ. 107.91 fundur 222#B aukastörf dómara# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur

[15:45]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda gilda um aukastörf dómara sömu reglur og gagnvart öðrum opinberum starfsmönnum. En samkvæmt gildandi lögum er heimilt að fela starfsmanni að vinna fyrir sanngjarnt endurgjald aukastörf í þágu ríkisins enda valdi það ekki vanrækslu á þeim störfum er stöðu hans fylgja. Samkvæmt gildandi reglum er ekki skylt að leita eftir samþykki stjórnvalds til að fela mönnum aukastörf í þágu ríkisins. Það er á hinn bóginn skylt ef um er að ræða störf í annarra þágu.

Að því er varðar þá dómara sem eiga hlut að máli hefur ekki verið leitað eftir samþykki dómsmrh. til skipunar þeirra í nefndir nema í þeim tilvikum sem leiðir af eðli máls að sjútvrh. og dómsmrh. hafa á undanförnum fimm árum skipað menn í nefndir.

Að því er varðar það álitaefni sem hv. fyrirspyrjandi vék að um Kjaradóm er það að segja að samkvæmt lögum um Kjaradóm og kjaranefnd er hlutverk Kjaradóms að úrskurða um hvaða aukastörf tilheyri aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega. Kjaradómur ákvarðar þannig hvaða aukastörf dómara tilheyra aðalstarfi en það er ekki hlutverk Kjaradóms að taka afstöðu til þess hvort eða hvaða aukastörfum dómarar mega sinna. Ef aukastarf er launað sérstaklega er það ekki hlutverk Kjaradóms að ákvarða þóknun fyrir það. Um ákvörðun þóknunar fyrir aukastörf dómara gilda sömu reglur og fyrir aukastörf annarra opinberra starfsmanna.

Að því er varðar þá spurningu hvort nauðsynlegt sé að setja reglur til að taka af vafa í þessum efnum er það svo að um þetta gilda almennar reglur og þær sömu fyrir dómara og aðra þannig að í sjálfu sér hafa ekki komið upp vafatilvik að þessu leyti svo mér sé kunnugt um. En auðvitað getur verið álitaefni hvort tiltekin störf samrýmist starfi dómara.

Ég fól réttarfarsnefnd að semja ný lög fyrir dómstólana, ný dómstólalög, og þess er að vænta að á næsta hausti verði tillögum skilað um þau efni. Það er eitt af viðfangsefnum nefndarinnar að taka afstöðu til þess hvort nauðsynlegt sé að setja sérstakar reglur fyrir dómara varðandi aukastörf og verður þá á því tekið í áliti réttarfarsnefndar þegar tillögur að dómstólalögum koma síðar á þessu ári.

Alls staðar á Norðurlöndunum þar sem aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds fór fram löngu á undan því sem gerðist hjá okkur eru dómarar í nefndastörfum, einkanlega þegar um er að ræða störf sem lúta að samningu lagafrumvarpa. Ýmist sitja þeir í slíkum nefndum og í nokkrum tilvikum hafa dómarar verið fengnir til þess að semja lagafrumvörp upp á eigin spýtur. Ég tel þetta vera eðlilega skipan og hún raskar ekki á nokkrun hátt réttaröryggi eða hæfi dómenda til þess að fjalla um dómsmál. Væri vissulega mikill skaði skeður ef dómarar gætu til að mynda ekki komið að undirbúningi lagafrumvarpa um réttarfarsmálefni. Í öllum tilvikum taka þau stjórnvöld sem bera fram frumvörpin hinar pólitísku ákvarðanir um þær tillögur sem lagðar eru fyrir Alþingi og Alþingi setur sjálft lögin. Því er það svo að í þeim tilvikum er ekki á nokkurn hátt að mínu mati skert réttaröryggi manna í landinu. En því eru eðli máls samkvæmt sett þröng mörk hvaða störf geta talist samrýmanleg dómarastörfum og ég tel það vera fyllilega eðlilegt álitaefni að setja um það skýrar reglur og það er hlutverk réttarfarsnefndar sem vinnur nú að nýjum dómstólalögum.