Aukastörf dómara

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 15:50:50 (3920)

1996-03-13 15:50:50# 120. lþ. 107.91 fundur 222#B aukastörf dómara# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur

[15:50]

Lúðvík Bergvinsson:

Herra forseti. Það væri gaman ef hæstv. dómsmrh. upplýsti hversu margir dómarar sitja í réttarfarsnefnd sem nú á að endurskoða dómstólalögin. Hugmyndin um þrískiptingu ríkisvalds byggir á þeirri hugsun að hið sameinaða þjóðfélagsvald sé þríþætt og skiptist í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Með skiptingu ríkisvaldsins í þrjá þætti á að vera tryggt að enginn einn þáttur þess verði svo sterkur að hann geti svipt þegnana frelsi með ofríki og að eigin geðþótta.

Lögin frá 1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, byggja á þessari hugsun þrátt fyrir að í því tilviki líkt og fleirum er varða réttarfarsbreytingar hafi vegsemd okkar komi að utan eftir að einstaklingar höfðu dregin ríkið nauðugt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og fengið þar réttláta niðurstöðu, niðurstöðu, sem samræmist ákvæðum hinna ýmsu mannréttindasáttmála, niðurstöðu sem þeir höfðu ekki fengið hér á landi. Það er því ekki óeðlilegt að gera þá kröfu að skörp skil skuli vera milli dómara sem fara með dómsvaldið og handhafa framkvæmdarvalds enda fá dómarar oft og iðulega réttarágreining til meðferðar þar sem takast á annars vegar einstaklingar og hins vegar ríkisvaldið sem framkvæmdarvaldið fer með fyrirsvar fyrir. Því getur nefndaseta dómara í einstaka tilvikum leitt til þess að raunveruleg hætta sé á hagsmunaárekstrum. Í ljósi reynslunnar er frekari málflutningur fyrir Mannréttindadómstólnum lítt eftirsóknarverður fyrir ríkið. Í raun er engin þörf á því að hafa dómara í nefndum á vegum framkvæmdarvaldsins, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að starfandi dómarar í landinu eru 47, þar með taldir 9 hæstaréttardómarar. Ég kannaði það að gamni mínu í dag að undanfarin 40 ár eða allt frá árinu 1956 hafa verið útskrifaðir frá lagadeild Háskóla Íslands um það bil 1.000 lögfræðingar. Ég á bágt með að trúa því að í þeim hópi megi ekki finna fólk sem geti setið í nefndum án þess að yfirvofandi hætta sé á því að unnin verði veruleg réttarspjöll fyrir þjóðina.

Í skriflegu svari dómsmrh. vegna fyrirspurnar hv. málshefjanda sitja 12 dómarar í stjórnsýslunefndum sem falið er úrskurðarvald. Í ljósi þess fjölda lögfræðinga sem hafa verið útskrifaðir undanfarin 40 ár fæ ég ekki séð að það séu nokkur rök að vísa til hagkvæmni í þessu sambandi. Sennilega er leitun að þjóð sem er jafn vel mönnuð af lögfræðingum og sú íslenska.

Mig langaði að lokum að gera orð Morgunblaðsins í dag í forustugrein að mínum: ,,Stjórnvöldum ber að fylgja fast fram meginmarkmiði réttarfarsbótanna sem enn er að festa rætur og tryggir almenningi réttaröryggi sem lengi hefur verið beðið eftir.``