Aukastörf dómara

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 15:53:48 (3921)

1996-03-13 15:53:48# 120. lþ. 107.91 fundur 222#B aukastörf dómara# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur

[15:53]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Hér er hreyft máli sem snertir sjálfar rætur þess þjóðskipulags sem við búum við eins og komið hefur fram sem er byggt á þrískiptingu ríkisvaldsins í löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald. Grunnhugsunin að baki þessari skiptingu er sú að með því að þrískipta ríkisvaldinu sé minni hætta á ofríki ríkisvaldsins gagnvart þegnunum og misbeitingu valds af hálfu ríkisins. Við Íslendingar höfum haft þessa skiptingu í stjórnarskrá okkar um langt skeið en eins og öllum er kunnugt og hér hefur komið fram líka í umræðunni þurfti utanaðkomandi þrýsting til þess að raunverulegri skiptingu, eins og okkur var sagt þá, yrði komið á milli framkvæmdarvalds og dómsvalds. Það er ekki gert fyrr en fyrir nokkrum árum síðan.

Eins og málshefjandi benti á má draga í efa að eiginleg skil hafi orðið þarna á milli og bendir svarið við fyrirspurn hennar um störf dómara á vegum framkvæmdarvaldsins eindregið til þess. Mér finnst með ólíkindum að heyra hæstv. dómsmrh. segja að það sé eðlileg skipan að dómarar semji frumvörp sem þeir eiga síðan að dæma eftir í ókominni framtíð og túlka. Þeir semja þá væntanlega greinargerðirnar sem eru síðan notaðar sem lögskýringargögn þegar málin koma fyrir þá sjálfa einhvern tíma síðar meir. Það má vel nýta reynslu dómara og þekkingu á t.d. sviði réttarfarsmálefna eins og hæstv. dómsmrh. inn á áðan á annan hátt en þann að setja þá í nefndir og í störf á vegum ríkisins. Það má gera það með því að senda t.d. frumvarpsdrög sem eru samin af einhverjum af þeim þúsund lögfræðingum sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson benti á áðan að væru til. Það má senda slík drög eða frv. til umsagnar til Dómarafélagsins. Þetta er gert um aðrar stéttir sem búa yfir einhverri sérþekkingu og ég er alveg undrandi á því að það skuli vera litið svo á að það sé það mikill hörgull á lögfræðingum hér í þessi störf að það þurfi að leita í smiðju dómara og vera þannig að stefna í hættu hlutleysi þeirra þegar til þess kemur að mál koma fyrir dóminn síðar meir á ferlinum. Mér finnst þessi skipan engan veginn sæmandi og ég er undrandi á því að hæstv. dómsmrh. skuli telja þetta vera eðlilega skipan og mér finnst ekki hafa komið fram í svari hans af hverju er nauðsynlegt að leita til dómaranna og af hverju störf þeirra þurfa að vera með þessum hætti. Af hverju er ekki hægt að bregðast við þessu með því að leita umsagnar t.d. hjá Dómarafélagi Íslands eins og gjarnan er gert í slíkum tilvikum?