Aukastörf dómara

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 16:05:32 (3925)

1996-03-13 16:05:32# 120. lþ. 107.91 fundur 222#B aukastörf dómara# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur

[16:05]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hæstv. dómsmrh. að það leiðir ekki af sjálfu sér til vanhæfis að dómararnir komi að samningu lagafrumvarpa. Það sem er verið að ræða um er einmitt það að þetta ógnar þeirri skiptingu sem við búum við í dag. Enn og aftur hef ég ekki heyrt skýringar hæstv. ráðherra á því af hverju í ósköpunum framkvæmdarvaldið þarf að leita í þessa smiðju þegar verið er að undirbúa einhver mál. Af hverju er ekki hægt að leita eitthvert annað en yfir í þennan anga ríkisvaldsins sem er beinlínis ætlast til í stjórnskipuninni okkar að séu skil á milli? Það er til nóg af öðru fólki til að vinna þessi verk.

Það kom einmitt fram í máli hæstv. ráðherra að ekkert væri því til fyrirstöðu að þingmenn gætu síðar orðið dómarar. Það er alveg rétt. Hins vegar er ekki eðlilegt að t.d. ég sem þingmaður taki að mér í aukastörfum að dæma í málum og það lýsir kannski hverju er verið að ógna þarna. Þó þetta sé ekki fyllilega sambærilegt þá er verið að ógna ákveðinni skiptingu sem við viljum búa við. Það er ekki eðlilegt þó að það sé rétt sem hæstv. ráðherra bendir á að það eru ekki klárar og skýrar hæfisreglur dómara en ég tel fyllilega réttlætanlegt að taka þetta mál upp til athugunar og ég skora á hæstv. ráðherra að gera það og íhuga alvarlega hvort ekki sé ástæða til þess að endurskoða þessi vinnubrögð.