Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 11:01:36 (3931)

1996-03-14 11:01:36# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[11:01]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að hæstv. ráðherrar hafa nú loksins gefið sér tíma til þess að vera viðstaddir umræðu um þetta viðkvæma mál. En eins og við vitum hefur málið frestast nú um nokkurn tíma vegna þess að ráðherrar hafa ekki haft tíma til að sitja hér og hlusta á umræðuna eða taka þátt í henni.

Það er nú loksins að koma í ljós sem margan hefur grunað nokkuð lengi. Flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna sem á að verða að veruleika 1. ágúst nk. er í algeru uppnámi vegna klaufalegrar framkomu ríkisstjórnarinnar við samtök launafólks. Mánuð eftir mánuð beið fólk með óþreyju eftir niðurstöðum þeirra nefndar sem falið var að gera tillögur að fyrirkomulagi mála við flutninginn. Ef ég man rétt var þeim ætlað að skila af sér í október sl. En nefndarstarfið dróst á langinn enda langt í frá einfalt mál að standa að flutningi grunnskólans þannig að réttindamálum starfsmanna sé borgið. Þegar nefndirnar loksins skiluðu verki sínu sem átti að fela í sér samráð við samtök opinberra starfsmanna leið ekki á löngu þar til í ljós kom að hið meinta samráð virtist aðeins hafa verið til málamynda. Það hefur ekki nokkurt samráð verið haft heldur hafa samtök opinberra starfsmanna verið höfð með við tæknilegar útfærslur á hugmyndum ríkisstjórnarinnar um flutninginn.

Það voru starfandi þrjár nefndir í tengslum við sjálf grunnskólalögin, ein verkefnisstjórn, ein réttindanefnd og ein kostnaðarnefnd, en að auki var á sama tíma starfandi nefnd um samskiptareglur á vinnumarkaði sem samkvæmt orðanna hljóðan átti að skoða mögulegar breytingar á samskiptareglum aðila vinnumarkaðarins. Henni var hins vegar aldrei ætlað að endurskoða sjálfa vinnulöggjöfina nema í þeim mæli sem það teldist nauðsynlegt af þeim sem að nefndarstarfinu kæmu. En samráðið sem þarna átti sér stað breyttist skyndilega í frv. til breytinga á lögum þrátt fyrir andstöðu við þá málsmeðferð í nefndinni. Eins og fulltrúar samtaka launafólks í nefndinni hafa bent á, þá leggja þeir áherslu á að aðilar vinnumarkaðarins semji um samskipti sín sjálfir. Ríkisstjórnin velur hins vegar með stuðningi atvinnurekendasamtakanna að beita lögþvingunum sem nú liggja fyrir í frumvarpsdrögum. Hún velur ekki eiginlegt samráð við samtök launafólks. Hún velur ekki friðsamlegar breytingar á reglum um fyrirkomulag á vinnumarkaði. Hún ætlar sér að breyta reglum um þessa hluti með eða án vilja launafólks og samtaka þess. Það kemur fram í málsmeðferðinni í tengslum við flutning grunnskólans og birtist þar á sama hátt og í nefndarstarfinu um samskiptareglur á vinnumarkaði.

Við höfum fleiri dæmi um aðför ríkisstjórnarinnar að réttindum launafólks, þ.e. frv. til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og enn meira mun vera í farvatninu. Ríkisstjórnin er síðan undrandi á öllu fjaðrafokinu sem vinnubrögð hennar hafa valdið. Skyldi það vera tilviljun að samtök opinberra starfsmanna sem og samtök á almennum vinnumarkaði hafa lýst yfir hörðum mótmælum við meðferð ríkisstjórnarinnar á hinu meinta samráði í tengslum við löggjöf á vinnumarkaði á sama tíma og kennarasamtökin í landinu lýsa yfir trúnaðarbresti við ríkisstjórnina í tengslum við samráð vegna flutnings grunnskólans. Nei. Þetta er engin tilviljun. Þetta er enginn misskilningur heldur þótt fjmrh. hafi gefið út opinbert plagg um að forsvarsmenn ríkisstarfsmanna fari með rangt mál. Ríkisstjórnin hefur brugðist því trausti sem þessi samtök hafa sýnt henni í þessum efnum með því að sýna þeim fullkomna lítilsvirðingu að hinu svokallaða samráði loknu.

Hérna liggur fyrir frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Við lestur þess virtist það ekki fela í sér mikla hættur. Í frv. er greint frá því að frumforsenda flutnings grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga sé sú að sættir takist með öllum aðilum um framkvæmd flutningsins og fyrirkomulag ráðningarréttinda kennara og skólastjóra hjá hinum nýja vinnuveitanda í framtíðinni. Þar segir einnig að frv. sé byggt á því samkomulagi sem náðist milli tilheyrandi aðila og birtist í skýrslu nefndar sem var ætlað að fjalla um málið. Þetta hljómar svo að allt sé í bestu sátt og miklu samlyndi við samtök kennara. En nú hefur heldur betur annar sannleikur komið á daginn og enn eina ferðina lítur út fyrir að meint samráð við samtök launafólks sé hreinlega misnotað til þess að fá stimpil á stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum launafólks.

Samtök opinberra starfsmanna hafa séð ástæðu til að gefa út sérstakt rit um stöðvun leiftursóknarinnar, um stöðvun árása ríkisstjórnarinnar á réttindi og kjör launafólks. Bent er á í riti þessu að frumvarpsdrög ríkisstjórnarinnar um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og um sáttastörf í vinnudeilum fela í sér grófa árás á starfskjör og réttindi launafólks verði þau að lögum. En þessi frumvarpsdrög hefur ríkisstjórnin verið að dunda við að smíða á sama tíma og samráðið mikla hefur átt sér stað um réttindi og skyldur kennara. Þetta kalla ég ekki heilindi, herra forseti. Þetta kalla ég heldur ekki samráð við samtök launafólks. Það er kominn tími til að hæstv. ríkisstjórn svipti nú hulunni af heildarmyndinni í málefnum launafólks og samtaka þeirra.

Frumvörpin öll sem ríkisstjórnin fyrirhugaði að leggja fram og hafa veruleg áhrif á réttindi launafólks þarf að skoða í heild í stað þess að tína púsluspilin eitt af öðru inn í heildarmyndina. Heildarmyndin hefur svo sem verið að koma í ljós smám saman. En það er eins og ríkisstjórnin þori ekki að birta fyrirætlanir sínar hreint út fyrir fólki enda er hætta á að þá hefði ekki orðið mikið um samráð. Ríkisstjórnin skuldar fólki skýra stefnu í þessum viðkvæmu málum því lengra verður ekki gengið á þessari braut.

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. gerði grein fyrir því í upphafi umræðunnar um daginn að kennarar hafi látið aðra þætti en þá sem snerta flutning grunnskólans og efni frv. sem hér er til umræðu glepja sig og þar með dregið til baka undirskrift sína á efni frv. Ég undrast að hæstv. ráðherra skuli láta sér koma þetta á óvart. Ég undrast að hæstv. ráðherra skuli láta sér detta í hug að kennarar sætti sig við það að á meðan þeir skrifa upp á óskert réttindi sín í nefndunum um flutning grunnskólans, er ríkisstjórnin með hinni hendinni að semja frv. sem skerðir þessi sömu réttindi. Og það kemur ekki á óvart að opinberir starfsmenn hafa lýst því yfir að sú atlaga sem kemur fram í frumvörpunum sem nú liggja fyrir þýði það, ef þau verða að lögum, að forsendur fyrir kjarasamningum þeirra séu brostnar. Ríkisstjórnin er hreinlega að ögra friði á vinnumarkaði með framkomu sinni og hún verður að taka afleiðingunum af því. Það er nefnilega nauðsynlegt að skoða þessi mál í samhengi og hæstv. ráðherra hlýtur að vita að það er ekki hægt að taka einn hluta kjaramála opinberra starfsmanna og kippa honum úr sambandi án þess að það hafi áhrif á kjarasamningana.

Ég held reyndar að hæstv. menntmrh. og ríkisstjórnin öll misskilji þetta allt saman. Hvað segir í svokölluðu upplýsingabréfi fjmrh. sem gefið er út nú nýlega? Þar segir að þau frv. sem hér eru til umræðu skerði á engan hátt réttindi sem bundin eru í kjarasamningum. En þessir hlutir eru ekki svo einfaldir. Ef við tökum almenna vinnumarkaðinn, þá er það svo að flest réttindi eru þar bundin í kjarasamningum. Kjarasamningarnir eru grundvöllurinn að réttindaumhverfi launafólks á almennum vinnumarkaði. Þeir eru langveigamesta heimildin sem launafólk byggir rétt sinn á. Lög kveða að litlu leyti á um þetta og ráðningarsamningar kveða aðeins á um nánari útfærslu réttindanna sem bundin eru í kjarasamningum, enda er ekki einu sinni áskilið á almenna vinnumarkaðinum að þeir séu skriflegir.

Á opinbera markaðnum, þ.e. á því sviði sem hér er til umfjöllunar, er þessu bara allt öðruvísi farið. Þar eru lög mun þýðingarmeiri og kjarasamningar eru aðeins lítill hluti af réttindaumhverfinu. Ég get nefnt að þess eru engin dæmi eftir því sem ég næst fæ komist að kjarasamningar opinberra starfsmanna kveði á um uppsagnarfrest starfsmanna eins og undantekningarlaust er hins vegar gert í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Hér er um að ræða mjög veigamikinn þátt í réttindum starfsmanna, uppsagnarfrestinn. Hjá opinberum starfsmönnum er uppsagnarfresturinn byggður á lögum og ráðningarsamningum því í lögum nr. 97/1974 er það lögbundin skylda að þegar opinber starfsmaður er ráðinn til starfa skal það gert með skriflegum ráðningarsamningi. Og þar er einnig kveðið á um uppsagnarfresti, hvernig þeir eiga að vera ef ekki er sérstaklega kveðið á um þá í kjarasamningi. Það er því ljóst að mjög stór hluti og mikilvægur hluti réttinda á opinbera markaðnum er bundinn í lögum eða í ráðningarsamningum. Og það er ljóst að ef þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin hyggst nú taka upp gagnvart opinberum starfsmönnum eru talin eðlileg, þá er allt réttindakerfi opinberra starfsmanna í fullkominni upplausn því að að sjálfsögðu eru kjarasamningarnir byggðir á því lagaumhverfi sem þeir eru gerðir í. Það verður að skoða þá í samhengi við það.

Ríkisstjórnin hefur vísað til þess að hún sé að jafna aðstöðuna á milli starfsmanna á almenna markaðnum annars vegar og hinum opinbera hins vegar. Samtök opinberra starfsmanna hafa í þessu samhengi bent á að félagsmenn þeirra séu verr launaðir en almennir launþegar vegna þess að réttindi þeirra, eins og t.d. æviráðningin, hafi í raun verið keypt dýru verði. Það sem er grundvallaratriði í þessum málum er að ríkisstjórnin sýni skilning á því laga- og réttindaumhverfi sem launafólk starfar í. Þar er ekki hægt að taka einhvern einn þátt út og líta á hann algerlega einangrað. Það verður að horfa á þessi mál í samhengi. Réttindaumhverfi opinberra starfsmanna verður ekki tekið til baka eins og hæstv. ríkisstjórn hyggst nú gera. Slík framkoma er algerlega óásættanleg og ríkisstjórninni til lítils sóma.