Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 11:31:55 (3933)

1996-03-14 11:31:55# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[11:31]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég get endurtekið allt það sem ég sagði í upphafi þessarar umræðu og m.a. þetta, með leyfi herra forseta:

,,Grunnurinn að þessu frv. er að það náðist samkomulag í viðræðum á milli fulltrúa kennara og fulltrúa sveitarfélaganna um þá skipan mála sem hér er um að ræða.

Það er allsendis órökrétt að álykta sem svo að í framhaldi af því að slíkt samkomulag sé lögfest muni þriðji aðili, sem hefur tekið að sér að framfylgja þessum málum með þeim hætti sem við erum að gera hér með því að leggja þetta frv. fram, rjúfa það samkomulag upp á sitt eindæmi. Þarna þarf því að hafa ákveðið jafnvægi í huga og þannig ber að skýra lokamálsgreinina í greinargerðinni. En ég vil einnig vekja athygli á því að formaður Sambands ísl. sveitarfélaga hefur sagt að hann líti á þessa lokamálsgrein sem einskis virði í sjálfu sér. Að sjálfsögðu verður að ganga þannig fram í þessu máli að um jafnvægi sé milli samningsaðilanna að ræða sem eru kennarar og sveitarfélögin. Menn mega ekki gleyma því þegar þeir eru að ræða þessi mál og blanda hinum þremur málunum inn í að það er verið að tala um að kennarar hætti að vera starfsmenn ríkisvaldsins og verði starfsmenn sveitarfélaganna. Breytingar á lögum sem varða starfsmenn ríkisins ná því að sjálfsögðu ekki til kennara eftir að þeir eru orðnir starfsmenn sveitarfélaga. Þar er um réttarsamband að ræða á milli sveitarfélaganna og kennara sem við erum að lögfesta með þessum hætti og það væri fráleitt að gera því skóna að menn ætluðu að raska því einhliða.``

Þetta er yfirlýsing sem ég gaf í umræðum hér á dögunum þann 7. mars. Ég get endurtekið hana. Hún er alveg skýr og ég held að menn þurfi ekki að draga í efa vilja minn til þess að standa að því að þessi mál nái fram að ganga á þeim forsendum sem ég hef sjálfur tekið þátt í að móta og liggja skýrar fyrir í þessu frv.