Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 11:34:38 (3935)

1996-03-14 11:34:38# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[11:34]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Eins og tekið er fram í greinargerðinni hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að hún muni ekki beita sér fyrir breytingum á þessu frv. eða ef það verður að lögum nema með sérstökum hætti, þ.e. að annaðhvort komi ósk frá sveitarfélögunum, kennarasamtökunum eða báðum. Síðan hef ég gefið þá skýringu að hérna er um samkomulag kennara og sveitarfélaganna að ræða sem að sjálfsögðu verður ekki rift einhliða af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er að sjálfsögðu eins og ég hef líka margtekið fram ekki unnt að binda hendur alþingismanna samkvæmt stjórnarskránni. Þeir hafa fullan rétt til að gera tillögur um breytingar á lögum. En ég mun ekki beita mér fyrir því. Ég tel að hér sé um skynsamlega leið að ræða og hef beitt mér fyrir þessu samkomulagi. Og að sjálfsögðu mun ég ekkert gera eða hafa frumkvæði að neinu því sem mun rifta eða raska þessu samkomulagi og þeirri tryggingu sem kennarar og sveitarfélögin hafa fengið með samkomulaginu.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að síðan við ræddum þessi mál 7. mars hefur verið gengið frá samkomulagi á milli ríkisins og sveitarfélaganna um kostnaðarþáttinn. Þetta mál lá fyrir á þeim fundi sem fulltrúaráð sveitarfélaganna efndi til í Borgarnesi í síðustu viku og fjallaði um málið. Þar kom ekkert fram um það að menn vantreystu ríkisvaldinu að standa að þessum málum með þeim hætti að tengsl kennara og sveitarfélaganna yrðu þannig að þau gætu komist að niðurstöðu um framtíðarsamskipti sín. Þvert á móti fagna menn á þeim vettvangi þessu samkomulagi og þessari niðurstöðu sem liggur fyrir í frv. og er forsenda þess að málið nái fram að ganga í þeirri fullu sátt sem alla tíð hefur verið að stefnt.