Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 12:01:32 (3938)

1996-03-14 12:01:32# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[12:01]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Þetta frv. sem upphaflega var samkomulag að sögn við kennara og fleiri hefur átt sér mikla hrakfallasögu í þessum sal. Það hefur verið reynt aftur og aftur að koma þessu máli til meðferðar en það hefur ekki verið hægt. Ástæðan var í fyrsta lagi sú að þegar það samkomulag sem hér átti að fara að ræða lá fyrir, kom fram í dagsljósið annað frv. sem ríkisstjórnin eða fjmrn. var með uppi í erminni og menn voru greinilega tilbúnir til að leggja fram hér í þessari stofnun. Það var svo lagt fram með allt öðrum efnisatriðum en eru í þessu frv. Þetta á ekki bara við um frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna heldur á þetta líka við frumvarpsdrögin um breytingu á Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna sem liggja fyrir og eru til út um allt þjóðfélagið og ég hef t.d. lesið. Þar er um að ræða verulega skerðingu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Ég verð að taka undir það með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að þetta eru auðvitað alveg ótrúleg vinnubrögð miðað við aðdragandann að málinu. Hver var hann? Hann var sá að grunnskólafrumvarpsbreytingin var í uppnámi í þessari stofnun og það átti að fara að ljúka þingi. Það var ekkert samkomulag um málið hér og það var augljóst mál að stjórnarandstaðan gat þá, ef hún vildi, stöðvað málið vegna þess að það var svo skammur tími eftir til þingloka. Hvað gerðist þá? Þá var gengið í það að reyna að ná samkomulagi um þetta mál og fyrir því beitti sér hæstv. forsrh. Þess vegna er mjög mikilvægt að hann er núna staddur hér við framhald þessarar umræðu.

Niðurstaðan af þeim málaleitunum varð sú að á þskj. 927 birtist framhaldsnefndarálit um frv. til laga um grunnskóla sem var undirritað af okkur öllum sem þá sátu í hv. menntmn., fyrirvaralaust. En þar segir m.a. eins og hér kom fram áðan. Þar er byrjað á því að vitna í og birta yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Það er texti sem unninn var af hæstv. forsrh. auðvitað í samkomulagi við hinn stjórnarflokkinn og við menntmrh. og fjmrh. Þar segir í fyrstu línu, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin telur mikilvægt að víðtæk sátt takist um flutning grunnskólans milli hlutaðeigandi aðila, ríkis, sveitarfélaga og samtaka kennara.``

Ég segi það, hæstv. forseti, ef ekki hefði verið gengið frá þessu samkomulagi þá hefði flutningur grunnskólans ekki farið í gegnum þingið með þeim hætti sem gerðist á síðasta vori og raun varð á. Þá hefði ríkisstjórnin orðið að taka það mál upp á nýju þingi. Sú sáttagjörð sem varð til á milli flokkanna í febrúar 1995 varð því forsenda flutningsins, forsenda allrar vinnunnar sem síðan hefur farið fram og hún var gerð í sátt við fleiri. Hún var gerð í sátt við kennarasamtökin. Hún var gerð í sátt við Samband sveitarfélaga á þeim tíma. Þess vegna eru vinnubrögð fjmrn. í þessu máli bersýnilega á skjön við þann sáttaanda sem málið var rekið í og verður að fylgja málinu eftir í.

Ég vil segja það líka að ég hef grun um það að hæstv. menntmrh. hafi ekki varað sig á vinnubrögðum fjmrn. í þessu máli. Ég veit ekki um það. En ég trúi því ekki að hæstv. menntmrh. hafi gengið frá samkomulagi við kennarana sem undirritað var í verkefnisstjórninni 1. febrúar sl. varðandi þessi mál, m.a. lífeyrismálin og hann hafi þá vitað um að það var verið að semja annað frv. sem birtist þessu sama fólki 12. febrúar. Hvað eiga svona vinnubrögð að þýða? Ég segi það eins og er og endurtek: Ég trúi því varla að hæstv. menntmrh. hafi vitað um þessi vinnubrögð. Og ég trúi því enn síður að hæstv. forsrh. hafi haft hugmynd um þessi vinnubrögð vegna þess að hann átti úrslitaaðild að því að samkomulag náðist um flutning grunnskólans 25. febrúar 1995.

Þegar þetta frv. er lagt fyrir sem hér er til umræðu annars vegar og svo hins vegar það að önnur frv. fara að koma inn, þá segir Kennarasambandið af eðlilegum ástæðum: Undirskrift okkar á yfirlýsingu verkefnisstjórnarinnar 1. febrúar sl. er dregin til baka. Það er eðlilegt. Nú stendur þetta mál þannig að sveitarstjórnirnar hafa fyrir sitt leyti samþykkt yfirfærsluna. Ég tel að það vanti mjög lítið á það. En staðan er engu að síður sú í augnablikinu að Kennarasamband Íslands er mjög ósátt við stöðu málsins. Ég vil segja það við hæstv. ráðherra, bæði hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh., að það verður að ganga í það núna að leysa þá samskiptahnökra sem eru uppi milli fjmrn. og kennarasamtakanna. Og ég spyr hæstv. forsrh.: Hvað mun hann gera til þess að beita sér fyrir því að þessi hnútar verði leystir? Það er alveg augljóst mál að það er óþolandi fyrir kennarasamtökin og grunnskólann og börnin sem eru í skólunum að flytja skólann yfir í fullri ósátt við kennarasamtökin í landinu. Það gengur ekki.

Þessa spurningu vil ég leggja fram til hæstv. forsrh. með hliðsjón af því samkomulagi sem við gengum frá aðfararnótt 25. febrúar 1995 og innsiglað var í menntmn. á þskj. 927 þar sem segir svo m.a., með leyfi forseta, mjög merkilegt og sjaldgæft orðalag hér í þessari stofnun:

,,Stjórnmálaflokkarnir munu beita sér fyrir því meginmarkmiði að kennarar fái jafngild kjör og réttindi eftir að yfirfærslu er lokið.``

Af hverju var þetta orðað svona? Það var orðað svona vegna þess að við gerðum okkur öll grein fyrir því að það var hugsanlegt að sú ríkisstjórn sem þá var til yrði jafnvel ekki til eftir kosningar og að eitthvað af þeim flokkum sem þá voru í stjórnarandstöðunni yrðu kannski í ríkisstjórn sem og varð eins og gengur. Og þess vegna var þetta óvenjulega orðalag sett þarna inn í góðri trú. Ég vil segja fyrir mitt leyti af því ég átti aðild að þessu sem menntamálanefndarmaður fyrir hönd Alþb. að ég stóð að þessu samkomulagi í góðri trú. Þeim mun verra finnst mér það að menn skuli koma þannig aftan að manni, liggur mér við að segja, í vinnubrögðum sínum eins og ég tel að fjmrn. hafi gert og bítur svo höfuðið af skömminni með því að fjmrh. sjálfur hleypur í frí til útlanda sömu daga og á að ræða þetta í þessari stofnun. En það er innanhússvandamál í ríkisstjórninni sem ég skipti mér ekki af.

Í bréfi verkefnisstjórnarinnar um flutning grunnskólans til menntmrh. frá 1. febrúar 1996 segir svo, með leyfi forseta:

,,Við umfjöllun þessa máls innan verkefnisstjórnarinnar hefur verið sérstakur gaumur gefinn að því með hvaða hætti skuli tryggja við flutninginn óskert lífeyrissjóðsréttindi þeirra starfsmanna sem átt hafa aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.``

Ég endurtek að það hefur sérstakur gaumur verið gefinn að því að óskert réttindi þessa fólks við flutninginn verði tryggð. Og síðan segir hér áfram, með leyfi forseta:

,,Það er skilningur verkefnisstjórnarinnar að við flutning grunnskólans til sveitarfélaga sé ekki ætlunin að skerða lífeyrisréttindi kennara og skólastjórnenda.``

Og enn fremur segir hér, með leyfi forseta:

,,Verkefnisstjórnin hefur orðið ásátt um að undirbúningur að gerð lagaákvæða þessa efnis skuli fara fram í tengslum við gerð tillagna að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.``

Með öðrum orðum, það stendur hér í þessu skjali að til að tryggja lífeyrissréttindi kennaranna verði frv. um Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna breytt í tengslum við vinnuna við þetta mál. Og hverjir skrifa undir þetta, hæstv. forseti? Hverjir skrifa undir þetta? Það er Hrólfur Kjartansson, fyrir hönd menntmrh., það er Steingrímur Ari Arason, aðstoðarmaður fjmrh., það er Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, það er Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands. Og það er Húnbogi Þorsteinsson, fyrir hönd félmrh. Með öðrum orðum, allir þessir fimm aðilar skrifa undir það að lífeyrisréttindi verði óskert og það verði tryggt í nýjum lögum eða lagafrv. að þau verði það. Hvað gerist svo? Örfáum dögum síðar eða 12. febrúar, tólf sólarhringum síðar, birtist frv., fullbúið frv., fullbúinn frumvarpstexti, frv. til laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem hefur að vísu ekki verið dreift í þessari stofnun en er til í fjölriti út um allt þjóðfélagið. Og hvað stendur þar? Þar stendur allt annað en í grg. frv. og í yfirlýsingu verkefnisstjórnarinnar, allt, allt annað. Og þess vegna endurtek ég það sem ég sagði áðan. Ég trúi því ekki að hæstv. menntmrh. hafi vitað af því að það var verið að vinna þessa hluti þvert á það sem menn lofuðu þegar þeir undirrituðu yfirlýsingu verkefnisstjórnarinnar. (Gripið fram í: Af hverju trúirðu því ekki?) Vegna þess að ég trúi því ekki upp á nokkurn mann að hann komi svona fram við stéttarsamtök í landinu, ekki nokkurn mann.

Í grg. þessara frumvarpsdraga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins segir t.d. svo, með leyfi forseta:

,,Í lagafrumvarpi þessu, sem samið er að ákvörðun fjmrh., eru lagðar til verulegar breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.``

Þar segir að breyta verði svokallaðri eftirmannsreglu sem er ein undirstöðureglan í Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna vegna þess að hún er erfið eða illframkvæmanleg.

Þar segir að í raun og veru sé verið að taka í grundvallaratriðum upp allt annað kerfi heldur en er hjá Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna og þar er rakið mjög rækilega að hérna sé um að ræða feikilega miklar breytingar. Og það hefur verið framkvæmd á þessu tryggingafræðileg úttekt. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og fleiri aðilar hafa látið fara fram tryggingafræðilega úttekt á þessu frumvarpsdrögum. Niðurstöður hennar eru t.d. þær að ef sjóðfélagi hefur starf 20 ára og hættir 60 ára þá munu réttindi hans skerðast mjög verulega eða um 8,5%. Fleiri tölur liggja fyrir í þessu skjali þar sem um er að ræða verulega mikla skerðingu sums staðar en auðvitað annars staðar minni eins og gengur. Þegar aðstoðarmaður fjmrh. var spurður í sjónvarpinu um daginn: Er þetta réttur útreikningur? þá sagði aðstoðarmaður fjmrh.: Það getur vel verið. Hann viðurkenndi að það gæti verið að menn væru að skerða þetta. Auðvitað er það ljóst að menn eru að því. En þetta er sami aðstoðarmaður fjmrh. og sat í nefndinni sem ég var að lesa upp eftir áðan.

Síðan hafa opinberir starfsmenn tekið saman mjög ítarlegt yfirlit um breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins samkvæmt þeim frv. sem hér liggja fyrir. Í Morgunblaðinu í dag er mjög glöggt yfirlit yfir helstu breytingarnar sem verið er að gera, þ.e. frá gildandi lögum um réttindi og skyldur og yfir til frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem verður rætt hér væntanlega á næstunni. Það eru tólf mjög veigamikil efnisatriði sem eru talin upp í þessu opnuyfirliti í Morgunblaðinu. Ef kennararnir verða fluttir yfir til sveitarfélaganna og verða starfsmenn þeirra þá liggur það náttúrlega í augum uppi að þeir munu ekki búa við betri réttindi, eða hvað, en allir aðrir opinberir starfsmenn þannig að afgreiðslan á þessu frv. sem hér er til umræðu á sama tíma og hitt frv. liggur þarna frammi og bíður umræðu er markleysa. Þess vegna er alveg óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin taki af skarið í þessum efnum og nái samkomulagi um það við kennarana og aðra hvernig með þessi mál verður farið. Það að ætla sér að hreinsa þessi mál út í uppnámi er algjörlega fráleitt.

[12:15]

Varðandi opinbera starfsmenn og stöðu þeirra geta menn sagt ýmislegt og það er alveg ljóst að það er verulegur munur á réttarstöðu og kjarastöðu þeirra annars vegar og á hinum almenna vinnumarkaði hins vegar. Það er mál sem hefur oft verið rætt. Veruleikinn er hins vegar sá að ríkisstarfsmenn hafa viðurkennt þetta sjálfir í því að þeir hafa oft og tíðum fallist á aðeins minni hækkanir á töxtum og minni breytingar á kjörum en þeir hefðu ella talið sér fært að knýja fram. Þannig telja þeir að þeir séu með aðeins lakari kjörum að mörgu leyti að gefa fyrir þau réttindi sem um er að ræða. Út af fyrir sig þarf ekki að vera sérkennilegt þó að viðsemjandinn vilji á einhvern hátt breyta þessum réttindum. Það eru engin tíðindi. Það hefur oft áður komið til tals en þá þarf það að gerast í samkomulagi og þá þarf ríkisstjórnin að beita sér fyrir því við þær aðstæður sem eru uppi t.d. núna að farið verði í viðræður við aðilana um að semja um það hvernig haldið verði á þessum málum.

Ég á aðallega það erindi í ræðustól, hæstv. forseti, að knýja á um það að fá afdráttarlaus svör um það hvað ríkisstjórnin ætlar að gera núna til að tryggja það að kennararnir geti staðið eðlilega að flutningi grunnskólans yfir til sveitarfélaganna af því að allir aðilar málsins vilja að það gerist í sátt úr því að það gerist á annað borð. Ég tel að það sé engin lausn á málinu að flytja yfirlýsingar eins og fjmrn. gerir í þeim áróðursbæklingi sem er dreift á kostnað skattborgaranna inn á hvert heimili í landinu en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu eru engin réttindi skert sem samið hefur verið um í kjarasamningum.``

Staðreyndin er auðvitað sú að hér er verið að skerða alvarlega veruleg réttindi sem samið hefur verið um í kjarasamningum og það eru mannasiðir í þessu þjóðfélagi að menn reyni að semja sig út úr vanda en beiti ekki valdi til þess með þeim hætti sem mér sýnist að fjmrn. ætli að gera. Þess vegna ítreka ég spurningu mína: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í málinu hér og nú til að tryggja aðkomu kennara að þessu máli aftur á nýjan leik? Hvernig hyggst forsrh. og hvernig hyggst menntmrh. beita sér í þeim efnum og hefur hann ekki áhyggjur af því að flytja grunnskólann yfir til sveitarfélaganna í ósátt við kennarana eins og margt bendir til í dag?