Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 12:32:58 (3944)

1996-03-14 12:32:58# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[12:32]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að frv. um réttindi og skyldur eigi að fá eðlilega meðferð í þinginu og framgang. Ég er ekki sammála hv. þm. um það hvaða skilning ber að leggja í dóm héraðsdóms varðandi biðlaunin, alls ekki, vegna þess að héraðsdómur byggði þar ekki á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Hann byggði hins vegar á jafnræðisreglu og ég tel að það séu allt, allt aðrar forsendur í málinu heldur en hv. þm. gaf til kynna. Ég tel reyndar að eftir að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hafa verið samþykkt í þeirri mynd sem ríkisstjórnin hefur lagt fram eða með þeim breytingum sem þingið telur nauðsynlegt að gera, þá verði þessi jafnræðisregla uppfyllt og þá verði það vandamál sem dómarinn stóð frammi fyrir að hans mati ekki til staðar.

Ég skal ekki segja um það hvernig þetta mál kynni að fara fyrir Hæstarétti. Ég hef ekki trú á því að ríkið muni tapa því fyrir Hæstarétti en það verða menn að sjá þegar málið kemur þangað. En það er ekki heldur ástæða til þess að bíða í sjálfu sér eftir því, því að það er sjálfsagt að setja undir leka af þessu tagi því að það hefur aldrei verið vilji löggjafans að menn sætu uppi með raunverulega tvöfaldan biðlaunarétt. Það hefur aldrei staðið til. Að mati þess dómara sem var einn í dómum sínum var hins vegar þetta vandamál sem sneri að jafnræðisreglunni en ekki að eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Hann hafnaði því, þessi dómari.