Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 12:59:30 (3951)

1996-03-14 12:59:30# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[12:59]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. umhyggju hans fyrir mér og stöðunni gagnvart hæstv. fjmrh. Ég hef enga þörf fyrir stuðning hans í þessu máli því að það er alveg ljóst að ég hef ekki verið plataður neitt í málinu og enginn aðili þessa máls hefur verið plataður. (SvG: Víst.) Það liggur alveg ljóst fyrir og eins og fram hefur komið í umræðunum að í greinargerðinni með frv. sem við erum að fjalla um kemur fram að menn vissu að það stæði fyrir dyrum að endurskoða lögin frá 1954. Bréf þess efnis var sent t.d. kennarasamtökunum 12. des. 1995. Það lá því alveg ljóst fyrir að þessi vinna var farin af stað. Einnig varðandi réttindi kennara að því er varðar æviráðningu og annað slíkt lá það einnig fyrir og hefur legið fyrir frá 1994 í frv. til laga um framhaldsskólann. Við þurfum því ekki að taka þessar umræður upp aftur.

Umræðurnar hafa verið mjög gagnlegar í dag því að með fyrirspurn hv. þm. til forsrh. og svari hæstv. forsrh. hefur komið fram að ríkisstjórnin er reiðubúin til þess að ganga til viðræðna við kennarasamtökin og aðra um það mál sem deilan hefur einkum snúist um eins og þeir sjá sem kynna sér umræðurnar á síðustu sólarhringum, þ.e. lífeyrissjóðsmálið. Ég tel að þessar umræður, fyrirspurnir hv. þm. og svör hæstv. forsrh., hafi leitt málið inn á nýtt stig, viðræður okkar við kennarana og sveitarfélögin um yfirfærslur grunnskólans. Ég er tilbúinn eins og hv. þm. og aðrir að taka síðan þátt í umræðum um frv. til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það er annað mál sem við þurfum að ræða hér og verður til umræðu á þriðjudaginn kemur eins og hv. þm. hefur margsinnis vakið máls á.