Ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 13:33:15 (3953)

1996-03-14 13:33:15# 120. lþ. 108.91 fundur 224#B ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum# (umræður utan dagskrár), GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[13:33]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hugtakið kynferðisleg áreitni hefur varla farið fram hjá nokkrum Íslendingi á liðnum vikum vegna þess erfiða máls sem nú skiptir þjóðinni og þjóðkirkjunni upp í fylkingar. Á sl. hausti urðu einnig blaðaskrif vegna ásakana stúdenta við Háskóla Íslands um kynferðislega áreitni. Þau komu mér ekki á óvart þar sem ég hafði heyrt um slík tilvik sem háskólakennari á annan áratug.

Þessi tvö dæmi sýna að umræðan um kynferðislega áreitni er loksins komin upp á yfirborðið hér á landi en slík mál hafa lengi verið í opinberri umræðu í velflestum nágrannalanda okkar. Fyrstu viðbrögð eru svipuð og þegar umræðan um konur og heimilisofbeldi var að öðlast viðurkenningu eða umræðan um sifjaspell. Þá var spurt hvort það væri ekki einkamál hvað gerist á milli hjóna innan veggja heimilisins og hvort feður mættu ekki lengur sýna dætrum sínum hlýju. Nú er spurt hvort ekki sé lengur leyfilegt að leggja höndina á öxl nemanda og hvort banna skuli daður á vinnustað.

Þessar spurningar og viðbrögð eru skýr merki um vanþekkingu á efninu og sýna betur en margt annað þörfina á að unnið verði markvisst fyrirbyggjandi starf á þessu sviði. Gera verður skýran greinarmun á snertingu umhyggjusams kennara og kynferðislegu áreiti, daðri og áreiti, ástarleikjum og nauðgun. Annars vegar er umhyggja og gagnkvæm ánægja, hins vegar misbeiting á valdi sem er aldrei á jafnréttisgrundvelli, óvelkomin endurtekin kynferðisleg hegðun sem skortir alla gagnkvæmni.

Í framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um jafnrétti kynjanna frá árinu 1993 er gert ráð fyrir því að í vinnuverndartilgangi verði staðið að könnun á kynferðislegu áreiti á vinnustöðum á Íslandi og umfangi hennar. Á grundvelli könnunarinnar og þeirrar þekkingar sem liggur fyrir hjá öðrum þjóðum verði unnið markvisst að því að sporna gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Nú árið 1996 er þessi könnun fyrst að fara í gang sem er vissulega fagnaðarefni en vegna hægagangs stjórnvalda hefur enn lítið verið hirt um að vinna markvisst gegn kynferðislegri áreitni í opinberum stofnunum. Þó ber að vekja athygli á nýlegum bæklingi Jafnréttisráðs um kynferðislega áreitni.

Samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins 7. mars eru bresku lögfræðingasamtökin nú að setja reglur um hvernig bregðast eigi við ásökunum um kynferðislega áreitni. Skilgreining á breska lögfræðingahugtakinu er talin geta skapað fordæmi fyrir lagatúlkun yfirleitt. Þar er lagt til að kynferðisleg áreitni verði skilgreind sem óæskileg framkoma af kynferðislegum toga sem hefur skaðleg áhrif á vinnustað eða á trúnaðarsamband, veldur þolanda vanlíðan og er að öðru leyti vinnustað til vansæmdar. Undir þessa skilgreiningu á kynferðislegri áreitni heyra klámbrandarar, óviðeigandi tilmæli um náin samskipti utan vinnustaðar, óvelkomnir kossar og þukl svo og þvingun til samræðis. Þessi skilgreining er í samræmi við reglur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Hvergi í íslenskum lögum er að finna skilgreiningu á því hvað sé kynferðisleg áreitni en slíkar skilgreiningar er að finna bæði í sænsku og dönsku jafnréttislögunum.

Það sem áðurnefnd mál hafa leitt vel í ljós er hve vanmáttugar viðkomandi stofnanir hafa reynst við að taka á málunum. Þó að kæran í háskólanum hafi fengið föst efnistök í viðkomandi deild koma fæst mál innan háskólans upp á yfirborðið. Ástæðan er ekki síst sú að mínu mati að skort hefur skýran farveg og reglur fyrir svona mál þó að slíkt sé vel þekkt í erlendum háskólum.

Vanmáttur kirkjunnar til að taka á máli málanna þessa dagana hefur verið átakanlegur. Í fyrsta lagi stöðvaðist alvarlegasta málið hjá sóknarprestum sem virtust ekki finna því viðeigandi farveg. Í öðru lagi var málið fyrnt að lögum og ríkissaksóknari taldi sig ekkert geta aðhafst. Í þriðja lagi gat siðanefnd kirkjunnar ekkert gert vegna þess að reglur hennar kveða á um að aðeins sé fjallað um mál sem eru yngri en eins árs og aðrar stofnanir kirkjunnar hafa ekki heldur reynst megnugar til að taka á þessum málum. Í fjórða lagi taldi kirkjumálaráðherra ekki rétt að taka á málinu. Afleiðingin er sú að hvorki verður sannað sakleysi biskups né sekt og viðkomandi konur sitja uppi með áburð frá próföstum um að þær fari með rangt mál. Þessi staða er fullkomlega óviðunandi fyrir viðkomandi konur, fyrir biskupinn, fyrir þjóðkirkjuna og fyrir þjóðina alla. Þess vegna tel ég brýnt að bæði löggjafinn eða Alþingi Íslendinga og framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin og forsvarsmenn allra opinberra stofnana taki þetta alvarlega og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að fyrirbyggja að svona mál geti komið upp aftur. Því vil ég spyrja hæstv. forsrh. eftirfarandi spurninga:

1. Er forsrh. kunnugt um hvort einhver opinber stofnun hefur komið sér upp farvegi fyrir mál sem snerta kynferðislega áreitni?

2. Hyggst forsrh. beita sér fyrir því að starfsmenn og trúnaðarmenn opinberra stofnana eigi kost á fræðslu á þessu sviði?

3. Hyggst forsrh. sem yfirmaður framkvæmdarvaldsins í landinu beita sér fyrir því að í sérhverri opinberri stofnun, m.a. í Stjórnarráðinu, kirkjunni og í fræðslukerfinu, verði komið á fót trúnaðarnefndum eða einhvers konar farvegi sem þeir er verða varir við kynferðislega áreitni geta snúið sér til í þeim tilgangi að stöðva fyrirbærið án þess að fara í dómsmál?

4. Telur forsrh. að með ákvæðinu í 198. gr. hegningarlaganna sé lagalegri hlið þessara mála nægilega sinnt? Er hann sammála okkur kvennalistakonum um að æskilegt væri að fá skýr ákvæði um þessi mál inn í fræðslulöggjöfina fyrir öll skólastig, inn í jafnréttislögin og vinnulöggjöfina? Ef svo er, hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir slíkum lagabreytingum?