Ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 13:39:33 (3954)

1996-03-14 13:39:33# 120. lþ. 108.91 fundur 224#B ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[13:39]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég hafði skilið beiðni um umræðu þessa þannig að hér mundu menn ræða almennt um málið sem tekið var á dagskrá en ekki vikið sérstaklega að einstökum málum sem kunna að vera til umræðu í þjóðfélaginu. Þar sem það er ekki fært að mínu viti mun ég halda mig við það að ræða málið á almennum nótum.

Ég vil fyrst víkja að nokkrum lagtímasjónarmiðum sem gilda um þessi efni og sérstaklega um kynferðislegt áreiti á vinnustað en með samþykkt laga nr. 40/1992 tókst eftir fjórar tilraunir að setja ný ákvæði í hegningarlög um kynferðisbrot. Það er ekki vafi á því að allshn. þingsins hafði þar góða forgöngu í málinu undir forustu formanns nefndarinnar.

Samkvæmt 198. gr. hegningarlaganna er sá verknaður refsiverður að maður misnoti sér aðstöðu sína ef annar er honum háður í atvinnu sinni til að áreita hann kynferðislega, atvinnukúgun, og geti það varðað allt að tveggja ára fangelsi. Slík verknaðarlýsing hafði ekki áður verið í lögum en áður hafði verið notast við ákvæði 209. gr. hegningarlaga um brot gegn blygðunarsemi með lostugu athæfi. Það má almennt segja um breytingarnar frá 1992 að þær hafi þyngt refsimörk og viðurlög við kynferðisbrotum allverulega og munu þau refsimörk nú vera þau þyngstu á Norðurlöndum.

Varðandi almenn ákvæði um kynferðislega áreitni var ákvarðað af allshn. að taka ekki upp almenn ákvæði af því tagi á því stigi málsins heldur eingöngu ákvæði sem ég gat um áðan þegar um er að ræða það að aðili er háður aðila fjárhagslega eða í atvinnu sinni eða sem skjólstæðingur hans í trúnaðarsambandi. Það er rétt að menn átti sig á varðandi þá þætti sem snúa að kynferðislegri áreitni að sönnunarstaðan í slíkum málum hlýtur yfirleitt að vera mjög erfið og mjög tengd huglægri aðstöðu og afstöðu þolandans. Það rekast gjarnan á miklir hagsmunir brotaþolans og hins vegar hinir hagsmunirnar að saklaus maður verði ekki sakfelldur sem er meginregla sem ég hygg að menn vilji ekki hverfa frá. Það hefur aðeins borið á því í umræðu að menn vilji snúa sönnunarbyrðinni við þannig að ásökun ein dugi. Sanni menn ekki sakleysi sitt gagnvart slíkum ásökunum skuli þeir dæmdir. Slíkar reglur hafa ekki verið teknar upp síðan spánski rannsóknarrétturinn leið undir lok og ég mundi ekki fyrir mitt leyti vera fylgjandi því að slík breyting yrði gerð.

Varðandi ákvörðun í þinginu þegar þetta mál var ákvarðað 1992 er rétt að minna á að þegar formaður allshn. mælti fyrir nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar tók hún fram að rétt þætti að halda í ákvæðinu að gerandinn í málinu misnoti sér freklega aðstöðu sína til að koma í veg fyrir misnotkun ákvæðisins. Jafnframt tók hún fram varðandi nýmælið um trúnaðarsambandið gagnvart skjólstæðingi að með trúnaðarsambandi við skjólstæðing væri m.a. átt við ef læknir eða heilbrigðisstéttir eða sálfræðingar misnoti samband sitt við sjúkling, prestur við syrgjanda, kennarar við nemendur, yfirmenn gagnvart undirmanni o.s.frv. Það hefur komið fram vilji til þess að kanna þessi mál sérstaklega eins og hv. þm. nefndi og hefur tölvunefnd nú veitt heimild sína til þess að könnun á grundvelli jafnréttisáætlunar frá 1993 eigi sér stað.

Ég óskaði eftir því sérstaklega vegna þess tilefnis sem hér var gefið að ráðuneytisstjórar upplýstu mig um það hvort mál af þessu tagi hefðu komið fram innan ráðuneytanna. Enginn ráðuneytisstjóri kannaðist við að slík mál hefðu komið upp varðandi kynferðislega áreitni eða væri til meðferðar í ráðuneytinu. Á hinn bóginn hefðu ráðuneytin í nokkrum tilvikum verið upplýst um mál af þessu tagi eða frétt um mál af þessu tagi sem hefðu komið upp í einstökum stofnunum. Slík mál hefðu verið útkljáð án atbeina ráðuneytis, stundum með því að þeir sem ásakaðir voru um kynferðislega áreitni hættu þar störfum. Ég tel ekki ástæðu að fara að fjalla sérstaklega um þær stofnanir sem í hlut áttu.

[13:45]

Ég get ekki tímans vegna svarað öllum þeim spurningum sem fram voru bornar. Ég vil eingöngu segja það að ég tel rétt að þingið og ríkisvaldið taki þátt í því að leitast við að marka skýrar og glöggar reglur sem um þetta megi gilda því að það er ekki vafi á því að málum af þessu tagi hefur of lengi ekki verið sýndur nægjanlegur skilningur. En um leið verður að ganga fram af varfærni og ofstækislaust svo að ekki fari verr en skyldi.