Ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 13:45:50 (3955)

1996-03-14 13:45:50# 120. lþ. 108.91 fundur 224#B ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[13:45]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég tel að umræða um þessi mál sé brýn og nauðsynleg. Þá á ég við almenna umræðu til þess að taka þau efni sem hafa legið í láginni, jafnvel flokkast undir skúmaskot, upp á yfirborðið, um þau fjallað með eðlilegum hætti og þeim fundinn farvegur í samfélaginu til lausnar. Almenn fræðsla sem m.a. hlýst af opinni umræðu er þýðingarmikill þáttur við lausn málsins og að almennt verði skilningur í samfélaginu við hvað er átt, hvað felst í svonefndri kynferðislegri áreitni og menn rugli því ekki saman við eðlileg samskipti kynja þar sem báðir aðilar eru þátttakendur með frjálsum hætti.

Hér hafa þessi mál vissulega komið á dagskrá áður eins og minnt hefur verið á og við höfum fengið ákvæði inn í hegningarlög fyrir einum fjórum árum sem er mikilvægt atriði og til þess er vísað í nýlega uppkveðnum dómi af héraðsdómi Norðurl. e. Við höfum líka í 6. gr. jafnréttislaga ákvæði sem nota mætti í þessu samhengi. Ef litið er til nágrannalanda er þessu misjafnlega fyrir komið. Í sænskri löggjöf frá 1991 eru sett inn bein ákvæði í jafnréttislöggjöfina varðandi kynferðislega áreitni. Í norskum lögum er þetta hins vegar tekið undir vinnuvernd. Það sýnir að það er nauðsynlegt fyrir okkur að fara yfir þessi efni, þ.e. hvernig við komum því best fyrir í lögum og fyrirmælum frá Alþingi hvernig á þessum málum verður best tekið. Ég hvet eindregið til þess að um það verði fjallað. Þetta fellur að því er mér virðist einkum undir verkefni félmrn. og dómsmrn. En það er einnig eðlilegt að þingið og nefndir þess sem við eiga komi að málinu. Það er afar nauðsynlegt að finna þessum málum farveg út frá almennum sjónarmiðum og í ljósi niðurstöðu af könnunum. Ein slík stendur nú yfir og þarf að taka mið af slíku og taka þessi mál upp feimulaust til umræðu og úrlausnar.