Ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 13:52:31 (3958)

1996-03-14 13:52:31# 120. lþ. 108.91 fundur 224#B ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[13:52]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Kynferðisleg áreitni felst í orðum eða athöfnum af kynferðislegum toga sem þeim er fyrir verður líkar ekki. Ég ætla að fullyrða það hér að nánast hver einasta kona í okkar samfélagi hafi orðið fyrir einhverju sem flokka má sem kynferðislega áreitni, misalvarlegri þó. Inn á borð okkar kvennalistakvenna hafa komið dæmi um konur sem hrakist hafa úr vinnu vegna kynferðislegrar áreitni og undanfarnar vikur hafa margar konur sagt okkur frá reynslu sinni af kynferðislegri áreitni sem þær hafa orðið fyrir en hafa aldrei sagt frá, hvað þá kært.

Víða erlendis er umræðan um kynferðislega áreitni mun lengra komin en hér enda dæmin mörg. Í Bandaríkjunum hafa t.d. nánast allar stofnanir og skólar sett sér reglur um kynferðislega áreitni og hvernig ber að taka á slíkum málum jafnframt því að lög hafa verið sett.

Haustið 1994 féll dómur í Kaliforníu vegna ákæru um kynferðislega áreitni yfirmanns í risastóru lögfræðifyrirtæki, en hann hafði áreitt undirmann sinn um nokkurt skeið. Kviðdómurinn komst að þeirri niðurstöðu að þarna væri um svo alvarlegt mál að ræða að til þess að dómurinn hefði fordæmisgildi yrði hann að vera þungur. Fyrirtækið var dæmt í 7 millj. dollara sekt eða 450 millj. íslenskra króna.

Annað mjög þekkt dæmi frá Bandaríkjunum snertir skipan hæstaréttardómarans Clarence Thomas sem sakaður var um kynferðislega áreitni sem átt hafði sér stað mörgum árum áður en þótti snerta hæfni hans sem æðsta dómara.

Hæstv. forseti. Hér á landi þarf málefnaleg umræða um kynferðislega áreitni að eiga sér stað vegna þess að þar er um að ræða hegðun sem særir og eyðileggur og á ekki að hafa í flimtingum. Hér þarf að setja reglur og mun skýrari lög þannig að skólar, stofnanir og fyrirtæki geti tekið á málum sem upp koma og að þeir sem brotið er á geti leitað réttar síns án þess að eiga æru- eða atvinnumissi á hættu. Þau mál sem hér hafa verið til umræðu að undanförnu hafa sýnt það og sannað að kynferðisleg áreitni er mál sem nauðsynlega þarf að taka á í okkar samfélagi.