Ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 13:55:00 (3959)

1996-03-14 13:55:00# 120. lþ. 108.91 fundur 224#B ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[13:55]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og hæstv. forsrh. fyrir svörin. Ég verð þó að segja að svör hans ollu mér töluverðum vonbrigðum. Hugsanlega hafði hann ekki tíma til þess að svara spurningum mínum, en hann gerði í raun og veru lítið annað en að upplýsa hvernig breytingarnar á hegningarlögunum komu til árið 1992. Einnig nefndi hann að nokkrir ráðuneytisstjórar hefðu þekkt til tilvika um kynferðislega áreitni og slíkt kemur sannarlega ekki á óvart.

Ástæða þess að ég kýs að spyrja hæstv. forsrh. um hvort hann hyggist setja í gang vinnu á þessu sviði --- annars vegar innan framkvæmdarvaldsins með því að setja í gang ákveðnar nefndir sem koma almennilegri skikkan um þessi mál innan hverrar einustu ríkisstofnunar og hins vegar hvort hann ætli sér að undirbúa lagasetningu af þessu tagi --- ástæðan er að því miður er reyndin sú að stjórnarandstöðumál komast oft ekki í gegnum þingið. Vissulega erum við kvennalistakonur tilbúnar nú þegar með þingsályktun í þessa veru og við erum einnig að undirbúa víðtækar lagabreytingar á þessu sviði. Mig langar aðeins að telja upp hvernig svona löggjöf þyrfti að vera.

Í fyrsta lagi þyrfti lagasetningin að skapa vinnuumhverfi sem dregur úr líkum á að fólk verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað. Hún þarf að koma á fót ódýru og skilvirku fræðslukerfi fyrir atvinnurekendur og forsvarsmenn stofnana. Í þriðja lagi þurfa lög og starfsreglur stofnana að gera fólk meðvitað um rétt sinn og hverng ber að bregðast við kynferðislegri áreitni, komi hún upp á vinnustað. Síðast en ekki síst þurfa lög á þessu sviði að hafa fyrirbyggjandi tilgang. Það þarf sem sagt að okkar mati mun víðtækari löggjöf á þessu sviði svo og upplýstari lögfræðinga og dómara en fyrirfinnast á Íslandi ef marka má undirtektir lagadeildar til að taka upp námskeið af þessu tagi.

Ég vona að þessi umræða verði til þess að kynferðisleg áreitni komi almennt upp á yfirborðið, að hún verði tekin föstum tökum því að þetta fyrirbæri er einn fylgifiskur samskipta kynjanna og þeirrar staðreyndar að bæði kynin eru á vinnumarkaðnum. Mikilvægt er að virkja þann kraft sem oft skapast í samskiptum kynjanna á uppbyggilegan hátt fyrir einstaklinga og stofnanir í stað þess að leyfa slíkum krafti að fara í niðurbrjótandi farvegi. Er það von mín að þessi umræða verði liður í slíku starfi.