Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 14:40:33 (3968)

1996-03-14 14:40:33# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[14:40]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram um frv. til breyttra laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda hefur verið að mörgu leyti mjög gagnleg. Hér hefur það gerst í umræðunni að það liggur nú fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar, mælt fram af munni ekki ómerkari manns en hæstv. forsrh., að frv. um breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna verður ekki lagt fram á þessum vetri eins og málum er nú háttað. Þetta tel ég vera gríðarlega mikinn áfanga í að reyna að lægja þær öldur sem hæstv. menntmrh. með dyggum stuðningi hæstv. fjmrh. hefur vakið í þessu máli.

Herra forseti. Það er samt sem áður nauðsynlegt að fara yfir nokkur atriði til viðbótar í málinu. Þetta mál er þannig vaxið að hæstv. menntmrh. gaf kennurum og skólastjórnendum mjög skýr loforð. Þessi loforð voru þannig að með engu móti yrði horfið frá þeirri réttarstöðu sem er að finna í lögunum frá 1954, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þessu lýsti hann margsinnis yfir. Það kemur hins vegar fram, herra forseti, bæði í máli hans í morgun og í greinargerðinni að við vissar kringumstæður getur hann hugsað sér að stuðla að því að þetta loforð verði brotið. Það er af þessum ástæðum sem kennarar og skólastjórnendur hafa dregið sig til baka úr því undirbúningsstarfi sem var í gangi um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og það var af nákvæmlega sömu orsökum sem hæstv. forsrh. kom hér til að reyna að lægja öldurnar sem búið var að vekja í kringum þetta mál.

Staðreyndin er sú svo að maður tali tæpitungulaust, herra forseti, að það sem gerðist í málinu var það auðvitað að hæstv. menntmrh. hafði góðan vilja en hæstv. fjmrh. kom í bakið á honum og lagði fram hugmyndir að breyttum lögum um lífeyrisrétt sem voru algerlega í blóra við þær yfirlýsingar sem búið var að gefa kennurum og skólastjórnendum og reyndar opinberum starfsmönnum um samráð í þessu máli. Það er það sem hefur verið deilt á. Hæstv. forsrh. segir hins vegar að nú verði lífeyrisfrv. ekki lagt fram. Hann sagði líka annað sem var talsvert mikilvægt, að ekki yrði gengið á þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa áunnið sér til þessa.

Því er nauðsynlegt, herra forseti, að geta þess að það er ýmislegt fleira sem tengist þessu og það er frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og tengingin við kennarana. Það er nefnilega ýmislegt sem kennarar hafa gert ráð fyrir að verði óbreytt og geta auðvitað stutt sig við loforð hæstv. menntmrh. í þeim efnum. En hæstv. forsrh. gat þess hins vegar í morgun að hann hygðist eigi að síður beita sér fyrir því að á þessu þingi yrði samþykkt frv. sem við hefjum umræðu um næsta þriðjudag og felur í sér verulega breytingu á réttindum og skyldum starfsmanna ríkisins. Sumt af þessu er jákvætt. Sumt af því get ég stutt. Annað er þess eðlis að það þarf að skoða betur. En hvaða skoðun sem við kunnum að hafa á því frv., herra forseti, verður samt sem áður að ganga eftir því að hæstv. menntmrh. standi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við þau loforð sem búið var að gefa áður. Og loforðin voru þau að réttindin mundu ekki hnikast til í kjölfar flutningsins yfir til sveitarfélaganna. En það er samt sem áður svo, herra forseti, að það er fjöldi atriða í frv. sem verður rætt í næstu viku sem tengist einmitt framtíðarréttindum kennara.

Ég nefni það, herra forseti, að um er að ræða afnám samningsréttar hjá tiltölulega stórum hópi innan BSRB. Það eru ýmsir starfsmenn ráðuneyta, starfsmenn dómstóla, sýslumannsembætta, lögreglu- og tollstjóraembætta, starfsmenn hjá Almannavörnum ríkisins, Fangelsismálastofnun og Landhelgisgæslunni sem munu eftir þetta búa við mjög skertan samningsrétt. Sömuleiðis er alveg ljóst að verkfallsréttur verður ekki hinn sami og áður. En það sem skiptir e.t.v. líka mestu máli í þessu er tvennt. Það er annars vegar það sem menn hafa nefnt ráðningarfestu opinberra starfsmanna og hins vegar biðlaunarétturinn. Það er alveg ljóst að biðlaunarétturinn er mál sem menn eru ekki búnir að skoða nægilega vel. Ég bendi til að mynda á, herra forseti, að það eru greinilega uppi mismunandi viðhorf innan ríkisstjórnarinnar á því hvers eðlis biðlaunarétturinn er. Ég vísa þá til viðhorfa hæstv. viðskrh. sem fram hafa komið opinberlega til biðlaunaréttarins annars vegar og hins vegar þeirra skoðana sem hæstv. samgrh. hefur sett fram í frv. sínu um Póst og síma sem nýlega hefur verið rætt. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvers eðlis biðlaunarétturinn er og hvers vegna hann var í upphafi settur á.

[14:45]

Menn greinir á um það hvort hann sé til þess að gefa mönnum ákveðið svigrúm meðan þeir eru að leita sér að starfi annars staðar eftir að búið er að leggja niður þeirra starf eða hvort hann er skaðabætur fyrir áunnin réttindi. Og sú staðreynd, herra forseti, að biðlaunarétturinn er mismunandi eftir því hversu lengi menn hafa verið í starfi hjá hinu opinbera og þar með áunnið sér mismunandi sterk réttindi, þykir mér benda til þess að þegar þetta ákvæði var sett upphaflega í lögin frá 1954, þá hafi menn hugsað sem svo að það bæri að líta á þetta öðrum þræði sem skaðabætur fyrir að tapa áunnum réttindum og líka fyrir það að tapa möguleikanum til að vinna sér inn frekari réttindi innan þess kerfis sem menn voru í.

Í annan stað, herra forseti, er það alveg ljóst að ráðningarfesta opinberra starfsmanna verður allt önnur og lakari. Auðvitað hljóta kennarar og skólastjórnendur að horfa til þess. Þeir hafa ekki síður en aðrir opinberir starfsmenn gert sér grein fyrir því að ráðningarfestan er eitt af því sem gerir það eftirsóknarvert að vera ríkisstarfsmaður. Þeir hafa ekki síður en aðrir sem hafa verið í starfi hjá hinu opinbera stundum gert sér að góðu lægri laun en gengur og gerist annars staðar vegna þess að þeir eiga þó vinnuna vísa. Þetta skiptir máli, herra forseti. En í ýmsum greinum skerðir frv. þessi ráðningarskilyrði opinberra starfsmanna.

Ég bendi t.d. á það, herra forseti, að samkvæmt þeim frv. sem verða lögð fram, mun starfsmönnum sem til að mynda lenda í útistöðum við yfirmenn og verður jafnvel sagt upp starfi, ekki kleift að skjóta máli sínu til úrskurðar hjá æðra stjórnvaldi. Það er auðvitað veruleg breyting á því umhverfi sem viðkomandi starfsmenn hafa hrærst í.

Það má auðvitað nefna fleira sem e.t.v. er ekki jafnsterkt og þessi atriði. Herra forseti. Ég tel að það hafi verið afskaplega viturleg ákvörðun hjá hæstv. forsrh. að gefa þá yfirlýsingu sem gekk af hans munni í morgun. Hann sagði það skýrt og skorinort að ríkisstjórnin mundi ekki freista þess að knýja fram frv. um breytingar á lífeyrisréttindum vegna þeirrar miklu andstöðu sem hefur sprottið fram við það. En staðreyndin er sú, herra forseti, að bæði í þessum sölum og eins í röðum opinberra starfsmanna er talsverð andstaða líka við annan þátt þessarar frumvarparaðar ríkisstjórnarinnar og það er auðvitað frv. sem felur m.a. í sér breytingar á biðlaunaréttinum. Og ég held, herra forseti, að það væri viturlegt af hæstv. menntmrh. að hlutast til um það að menn mundu nú hægja skriðinn í þessu máli og freista þess að ná samræðu við samtök opinberra starfsmanna til þess að reyna að lægja þær öldur sem þetta hefur einnig skapað. Það held ég að sé besta starfsaðferðin til þess að það megi skapa nægilega kyrrð í málinu til að flutningur grunnskólans yfir til sveitarfélaganna megi ganga eftir eins og til var stofnað.

Herra forseti. Ég vil að endingu ítreka það, að þetta mál snýst í sjálfu sér ekki um það hvaða skoðanir einstakir þingmenn í þessum sölum kunna að hafa á fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um breytingar á einstökum ákvæðum gildandi laga um réttindi opinberra starfsmanna. Þetta snýst ekki um það. Við getum verið með því eða á móti því. Það sem þetta varðar er einungis eitt: Hversu dýr eru orð ráðherra í ríkisstjórn Íslands?

Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hefur verið gefin út yfirlýsing um að kjör kennara og skólastjórnenda munu ekki breytast við það að skólinn verði fluttur yfir til sveitarfélaganna og það verður að ganga eftir. Herra forseti. Í máli tveggja ráðherra í dag hafa ekki komið fram nægilega skýrar yfirlýsingar sem tryggja það. Þess vegna, herra forseti, er við því að búast að áfram spinnist ófriður í kringum þetta mál. Ég skora því á hæstv. menntmrh. að beita sér fyrir því að ná samræðu um málin og reyna að leysa þetta í friði alveg eins og þegar honum var í morgun kippt upp úr díkinu af hæstv. forsrh. sem lýsti því yfir, a.m.k. hvað varðaði lífeyrisréttindin, þá verði reynt að leysa það í sæmilegum friði og sátt við opinbera starfsmenn.