Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 15:07:24 (3970)

1996-03-14 15:07:24# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:07]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það voru tvö atriði í ræðu hv. þm. sem ég vildi gera að umtalsefni. Annars vegar að því er varðar sérskólana er alrangt að halda því fram að þar séu einhver vafaatriði. Að því máli hefur verið unnið mjög skipulega á undanförnum mánuðum. Reglugerð liggur fyrir um það hvernig sérkennslu verður háttað og um það náðist samkomulag á vettvangi verkefnisstjórnarinnar og einnig á milli ríkisins og sveitarfélaganna hvernig að þessum málum yrði staðið og hvaða fjármunir þyrftu að flytjast frá ríkinu til sveitarfélaganna til þess að unnt yrði að sinna þeim verkefnum sem sérskólarnir sinna. Í raun er um það að ræða að auknu fjármagni verður veitt til sérkennslu og betur að henni búið að ýmsu leyti eftir að hún flyst til sveitarfélaganna en gert hafði verið hjá ríkinu.

Um það hver ber ábyrgð á sérskólunum þá eru þeir í Reykjavík og það er Reykjavíkurborg sem tæki við þeim nema sveitarfélögin kæmu sér saman um annað. Þetta er á valdsviði sveitarfélaganna. Sérskólarnir flytjast með grunnskólunum til sveitarfélaganna og Reykjavíkurborg er heimilisfesti stærstu sérskólanna eins og við vitum. Ef sveitarfélögin kjósa annan hátt en að fela Reykjavíkurborg reksturinn er það á þeirra valdi hvernig að því verður staðið en í reglugerðinni sem samin hefur verið er gripið á þeim vanda hvernig tekið verður á greiðslu kostnaðar vegna sérskólanna þannig að ég held að þetta sé ekki mál sem vefjist fyrir þeim sem að þessu verki vinna. Ef hv. þm. eru að kalla á menn sér til fræðslu um þetta mál þá bendi ég á formann verkefnisstjórnarinnar og einnig fulltrúa sveitarfélaganna og ég held að það sé mjög brýnt að ræða við alla aðila málsins til þess að fá svör við þeim spurningum sem upp koma og einnig varðandi starfsmenn fræðsluskrifstofanna. Frá þeirra málum er verið að ganga og ég veit ekki til annars en það sé gert í góðri sátt við starfsmennina og að skipulagið í þeim efnum liggi ljóst fyrir.