Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 15:09:41 (3971)

1996-03-14 15:09:41# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:09]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi síðara atriðið um starfsmenn fræðsluskrifstofanna. Þau svör sem við fengum í morgun frá fulltrúum fjmrn. og félmrh. voru þannig: Þeim mun standa til boða að fá vinnu á nýju skrifstofunum ef þeir afsala sér biðlaunaréttinum. Ég spyr hæstv. menntmrh.: Er þetta rétt? Stendur núverandi starfsmönnum fræðsluskrifstofanna því aðeins til boða nýtt starf að þeir afsali sér réttindum?

Í öðru lagi: Ef svo er, er það ríkið sem setur þetta skilyrði eða eru það sveitarfélögin?

Þá kom fram í svari hæstv. ráðherra að ekki er ekki ljóst hver tekur við sérskólunum. Hann sagði einfaldlega: Þeir eiga lögheimili í Reykjavík nema sveitarfélögin kæmu sér saman um annað. Með öðrum orðum staðfestir það þau svör sem við fengum í morgun hjá fulltrúum þeirra tveggja ráðuneyta sem ég nefndi. Þetta er ekki ljóst enn þá. Með allri virðingu fyrir starfsmönnum Reykjavíkurborgar, sem auðvitað eru alls góðs maklegir, er einfaldlega ekki rétt að stofnun sem á að þjóna landinu öllu lúti húsbóndavaldi yfirmanna sem hafa þrengri sjóndeildarhring eðli málsins samkvæmt þar sem verkefni þeirra er sveitarfélag en ekki landið allt. Það er ekki réttur vettvangur og staðfestir einfaldlega að þetta verkefni geta sveitarfélögin ekki tekið að sér.

Ég er á þeirri skoðun og tel eðlilegast að sérskólarnir verði áfram á höndum ríkisins eða annars aðila sem hefur landið allt sem viðfangsefni og getur horft á málefnin og getur leyst út frá þeim sjónarhóli, en ekki með þrengri sjónarmið í huga.