Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 15:16:45 (3974)

1996-03-14 15:16:45# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:16]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Mér þótti nokkuð sérkennilegt að hlusta á þann ræðumann sem talaði á undan mér þegar hann var að tala um sérskólana og fleiri málefni þeim tengd. Að sjálfsögðu hefur mikil umræða átt sér stað um þessi málefni. Það var mikið um þetta rætt meðan grunnskólafrv. var í vinnslu á hinu háa Alþingi. Síðan þá höfum við, a.m.k þingmenn Reykjavíkur og m.a. þingkonur Kvennalistans verið að fylgjast með því hvernig þessum málum vindur fram hjá Reykjavíkurborg. Ég get upplýst og glatt þingmanninn með því að það er mjög mikill vilji hjá Reykjavíkurborg til að taka vel á þessum málum og náttúrlega stendur alls ekki til að útiloka nokkurt einasta barn frá þjónustu sem það hefur notið hingað til. Hins vegar er þetta spurningin um það hvort sveitarfélögin sem hafa notið þjónustu sérskólanna gera eitthvert samkomulag sín á milli. Það er auðvitað það sem er inni í umræðunni, að þau verði í samvinnu eða peningar fylgi barni sem fengi pláss í viðkomandi skóla. Tökum t.d. Heyrnleysingjaskólann, reyndar hefur nemendum fækkað mjög þar en hann mun væntanlega starfa fram. Auðvitað eru sveitarfélögin að reyna að vinna að þessum málum með eins farsælum hætti og hægt er. En það breytir ekki því að hér er verið að gera grundvallarbreytingar á skólakerfinu með mjög stuttum fyrirvara. Ég held að við hljótum að vera sammála um að það er mjög stuttur fyrirvari sem sveitarfélögin hafa til þess að koma öllum þessum breytingum í kring.

Það fór reyndar eins og við spáðum, minni hlutinn í menntmn. sl. vetur þegar málið var til afgreiðslu, að ýmislegt mundi koma upp úr dúrnum eins og t.d. það hvað einsetning skólanna yrði sveitarfélögunum kostnaðarsöm og þá ekki síst þeim stærstu þar sem skólarnir eru hvað þéttsetnastir. Eins minnast þingmenn þess eflaust að hér varð mjög mikil rimma ekki síst vegna réttinda kennara. Það var reynt að girða fyrir réttindamissi og fyrirvaralausar breytingar með þeim fyrirvara sem settur var inn í lögin um að viðeigandi frv. yrðu komin fram áður en af breytingunni yrði.

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Ríkisstjórnin ætlar sér að hægja á í þeim breytingum sem hún hefur boðað á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna með því að setja lífeyrismálin í einhvers konar starfshóp eða nefnd þar sem opinberir starfsmenn komi að. Menn ætla sem sagt að athuga málið betur og ég hygg að m.a. þeir útreikningar sem hafa verið lagðir fram varðandi skerðingu á lífeyri opinberra starfsmanna hafi kannski valdið þar einhverju um og þau miklu og sterku mótmæli sem opinberir starfsmenn hafa haft í frammi. Þó að þetta sé fram komið, þá stöndum við eftir sem áður frammi fyrir því að það er búið að leggja fram á Alþingi nýtt frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem í allmörgum atriðum ber ekki saman við þau lög sem hér á að fara að lögfesta um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda. Við hljótum að ítreka þá spurningu sem ég reyndar kom með í upphafi þessarar umræðu hvort það sé skynsamlegt og eðlilegt að mismunandi reglur ríki innan stéttarfélaga og á milli ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar. Þessi atriði eru ákaflega misveigamikil. Ég ætla að koma að örfáum hér á eftir.

Það sem menn eru að gera er að færa það ástand sem nú ríkir frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna óháð öðrum breytingum sem er verið að gera eða íhuga á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna. Og skal ég enn taka það fram að það er langt í frá að ég sé andvíg þeim breytingum. Þar horfir margt til bóta. En þar eru vissulega atriði sem þarf að skoða mjög gaumgæfilega og snerta einfaldlega kjör ríkisstarfsmanna. Mér finnst þetta vera spurning hvort það eigi að gera þetta svona. Þ.e. ef ég gef mér að frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nái fram að ganga með hugsanlega einhverjum breytingum, þá er svona atriði sem ég vil benda hæstv. menntmrh. á. Í frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er t.d. gert ráð fyrir því að það verði breyting á launagreiðslum, það verði farið að greiða laun eftir á. Ég verð að viðurkenna að ég skil alls ekki rök ríkisins fyrir því að breyta þessu. Það er rökstutt með því að þetta sé til samræmis því sem gildir á almennum vinnumarkaði. En í þessu frv. um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnanda er gert ráð fyrir því að laun verði áfram greidd fyrir fram. Þetta er kannski ekkert atriði sem skiptir neinu stóru máli en spurningin er sú hvort það eigi ekki að vera svona gildandi og bara einfaldast og best að það sé nokkurn veginn sama kerfi ríkjandi.

Vinnubrögðin í sambandi við allt þetta mál sem er hugsanlega að leysast. Ég fæ ekki betur séð en það stefni í það að flutningur grunnskólans sé að komast í höfn. Það er greinilegt að það hefur náðst samkomulag milli ríkisins og sveitarfélaganna eða sem stefnir í að þetta leysist allt saman varðandi fjármögnun grunnskólans. Viðurkenning ríkisins liggur fyrir varðandi þann kostnað sem mun lenda á sveitarfélögunum. Ef lífeyrismálin verða tekin til alvarlegrar skoðunar af ríkisstjórninni og stéttarfélögunum, þá er það langsamlega stærsta málið á ferðinni. Ef tekst að leysa það á næstu vikum þá hygg ég að þessi flutningur geti átt sér stað nokkuð átakalaust.

Þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar hafa verið afar sérkennileg, samanber það að leggja fram þetta frv. þar sem nánast engu er breytt frá því sem nú er í gildi, reyndar eins og hafði verið gert samkomulag um við kennarana, en að vera svo að hinu leytinu að gera þessar töluvert miklu breytingar á ríkiskerfinu. Ég er þeirrar skoðunar að þær breytingar sem hugsanlega verða gerðar hjá ríkinu muni flytjast yfir til sveitarfélaganna. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt. Það verður mjög erfitt fyrir stéttarfélög að vera með hópa innan sinna vébanda sem eru að vinna sömu störfin en hafa mismunandi réttindi.

Það virðist stefna í það að samstarf sveitarfélaganna um rekstur grunnskólans verði sums staðar ekki eins mikið og maður hefði óskað eftir. Samkvæmt fréttum eða því sem formaður Sambands ísl. sveitarfélaga sagði frá á fundi sem sambandið hélt um helgina, þá stefnir í að það verði 20 skólaskrifstofur á landinu, þ.e. skrifstofur sem yfirtaka verkefni fræðsluskrifstofanna. Það er mín ósk í þessu samhengi að sveitarfélögin hefðu komið sér betur saman um þennan rekstur og nýttu betur sameiginlega reynslu og krafta. Sannleikurinn er sá, hæstv. forseti, eins og kom vel fram í heimsókn hv. félmn. til Akureyrar nú á dögunum, að okkur er sem betur fer fleirum og fleirum að verða ljóst hvað fjöldi og smæð sveitarfélaganna er í raun og veru mikill þröskuldur fyrir eðlilegu samstarfi og eðlilegri þróun. Þetta er að koma upp í hverju málinu á fætur öðru þegar það gerist að verkefni eru flutt í æ ríkari mæli yfir til sveitarfélaganna. Þar má t.d. nefna skólamál og málefni fatlaðra sem auðvitað snerta skólamálin líka o.fl. o.fl. Ég held því að þessar breytingar sem verið er að gera knýi á um það að samvinna og samruni sveitarfélaganna verði meiri en orðið er.

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma inn á örfá atriði í sjálfu frv. Eins og ég segi, það er eins og þeir hjá ríkinu hafi ekki fylgst með því sem verið var að gera á öðrum stöðum. Ég hefði gjarnan viljað sjá einstakar breytingar sem verið er að gera á lögunum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna í þessum lögum. Ég vil þar nefna t.d. eitt atriði sem snertir 7. gr., um það hvað geti orðið til þess að starfsmanni sé vikið úr starfi eða fái lausn frá stöðu. Í 7. gr., með leyfi forseta, er nefnd vankunnátta eða óvandvirkni í starfi. Ég hygg að þetta sé dæmt upp úr gildandi lögum. En í nýja frv. er tekið svolítið öðruvísi á þessu. Það tengist þeirri stefnu sem er að finna í grunnskólalögunum um að það eigi að fara fram innra mat í skólunum á því sem þar er verið að gera og reyndar mat eftirlitsaðila á því hvernig skólinn stendur sig. Ég held og ætla að beina því til nefndarinnar að bera saman þessar greinar. Spurningin er hvort það eigi að kveða fastar að orði varðandi það að fólk standi sig vel í starfi og standist það mat og þær kröfur sem gerðar eru til kennara. Þetta tengist hugmyndum um gæðastjórnun og fleira slíkt.

Annað atriði sem ég vil velta upp og vekja athygli á er varðandi 13. gr. þar sem er fjallað um það að starfsmanni skuli veitt lausn þegar hann er fullra 70 ára að aldri. Síðan koma aðrar reglur sem tengjast 95 ára reglunni eða öðrum réttindum sem fólk hefur áunnið sér.

[15:30]

Ég velti því mikið fyrir mér hvort þessi starfsmannastefna ríkisins, að binda starfslok við 70 ára aldur, sé rétt, sérstaklega þar sem ég veit að kennsla er ákaflega krefjandi starf. Ég hefði talið að það hefði þurft miklu meiri sveigjanleika varðandi það að kennarar geti hætt störfum. Ég vil setja spurningarmerki við þessa starfsmannastefnu. Ég held að það þurfi að viðurkenna það, eins og reyndar er gert varðandi ýmsar stéttir, að starf þeirra sé með þeim hætti að það sé ekki verjandi að menn sinni því mjög lengi. Þar má nefna t.d. flugumferðarstjóra og fleiri stéttir sem gerðar eru miklar kröfur til. Ég velti því fyrir mér hvort það þyrfti ekki að vera meiri sveigjanleiki varðandi starfslok kennara.

Í 14. gr. er komið inn á það atriði sem hv. síðasti ræðumaður nefndi áðan og snerti skólaskrifstofurnar, þ.e. hvort fólki fengi þar störf áfram. Reyndar fæ ég ekki séð annað en að allar þessar nýju skólaskrifstofur sem verða stofnaðar muni kalla á aukinn starfskraft og verður fróðlegt að sjá hvernig þeim tekst að sinna þeim kröfum og veita þá þjónustu sem skólaskrifstofum er ætlað að sinna. (Forseti hringir). Svona líður tíminn hratt, hæstv. forseti. Hann er bara búinn.

Ég verð að láta hér staðar numið en vil þó biðja forseta leyfis um að mega svara því sem ég ætlaði reyndar að koma inn á og varðar það síðasta sem fram kom í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, þ.e. að menntun fari alla leið til foreldranna. Það er mál sem ég hefði viljað ræða af mikilli alvöru við þingmanninn og mun kannski gera síðar í þessari umræðu.