Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 15:32:48 (3975)

1996-03-14 15:32:48# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:32]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ljúft að verða við því að gefa þingmanninum tækifæri til að ræða það mál með því að opna andsvaraumræðu. Ef menn eru á þeirri skoðun að ríkið sé ekki lengur sá aðili sem best er fær um að veita grunnmenntun í landinu heldur annar aðili sem eðli máls samkvæmt byggir á þrengra viðhorfi, þ.e. sveitarfélagastigið, verðum við að skoða málið í heild. Það kunna að vera fleiri fletir á því sem eru þá kannski jafnáhugaverðir eða jafngildir og eiga sín rök fyrir því að menn ræði þá til fullnustu líka.

Ég nefndi í lok ræðu minnar áðan að ég teldi að menn ættu að skoða af fullri alvöru að gefa mönnum kost á að flytja skólann alla leið til foreldranna. Ég sé ekki að foreldrarnir séu verri aðili til að reka skóla en sveitarstjórnir, jafnvel ekki verri en ríkið. Ég minni á dæmi sem við höfum fyrir framan okkur um örðugleika í sveitarfélagi, þ.e. þvergirðingshátt meiri hluta sveitarstjórnar í Mývatnssveit sem nýtir afl sitt byggt á ýsmum staðarsjónarmiðum til að níðast á foreldrum í tilteknum hluta sveitarfélagsins. Ég tel að löggjafinn verði að hafa svigrúm fyrir foreldra til að taka málið úr höndum sveitarstjórna þegar allt stefnir í óefni. Hvers vegna ættum við að vatntreysta þeim til að reka skólann með venjulegum stuðningi ríkisins eins og sveitarfélögin munu fá í gegnum jöfnunarsjóð og tekjustofna? Ég sé ekki að það sé neitt verra. Þvert á móti, það gæti opnað nýjar leiðir í þessari flóru.