Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 15:35:09 (3976)

1996-03-14 15:35:09# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:35]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilur í Mývatnssveit, en ég hygg að sveitarstjórnarmenn þar hafi kannski aðra sögu að segja en hv. þm. eins og hann túlkaði þau mál. Við verðum auðvitað að hafa í huga að við höfum takmarkaða peninga, við höfum takmörkuð fjárráð og það verður litlum sveitarfélögum erfitt að reka fleiri en einn grunnskóla. En ég vil minna á að það er ekkert í grunnskólalögunum sem bannar að stofna einkaskóla og þeir verða auðvitað að standast ákveðnar kröfur. Ég vil minna á að ég tók undir að slíkt yrði leyft því að ég vil eiga minn rétt til að stofna kvennaskóla og held því til haga þegar þar að kemur. En það sem mig langaði að segja við hv. þm. er að þessi hugmynd um að menntunin fari til foreldra hefur verið reynd, m.a. í Bandaríkjunum. Svona hugmyndir hafa verið uppi í kennslufræðum, en þar eru það fyrst og fremst sértrúarhópar sem hafa rekið þessa stefnu og hafa verið með hugmyndir þess eðlis að hvert foreldri fengi bara senda einhvers konar tilvísun eða tékka frá ríkinu og gæti síðan valið skóla fyrir barnið sitt sem kenni nógu kristilega og sé ekki að halda fram þróunarkenningunni og ýmsu sem þessum hópum er í nöp við. En flest hefur þetta dottið upp fyrir vegna þess að þeir skólar, sem hafa verið reknir á þessum forsendum, standast ekki þær kröfur sem bandarísk lög gera til skólastarfs.

Ég vil líka í þessu samhengi nefna að einn helsti kostur okkar norræna módels, sem á sér auðvitað áratuga og reyndar meira en aldarlanga sögu, gengur út á að hafa kerfi sem þjónar öllum, þar sem allir eiga kost á því að mennta sig. Það er meira en hægt er að segja um flest önnur þjóðfélög og ég held að það sé nokkuð sem við eigum að halda í. Þetta er dýrmætur kostur, en hvort það er ríkið eða sveitarfélögin er ekki stóra málið að mínum dómi, sérstaklega ef við göngum lengra í því að sameina sveitarfélögin.