Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 15:37:46 (3977)

1996-03-14 15:37:46# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:37]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja um þetta sem fram kom að í grunnskólalögunum er tekið skýrt fram að einkaskólar eigi ekki kröfu til styrks af almannafé. Þeir búa ekki við sömu skilyrði og skólar sem reknir yrðu samkvæmt nýju breytingunni af sveitarfélögum. Við sjáum það t.d. í Mývatnssveit. Sveitarstjórnin getur, samkvæmt núgildandi lögum og reglum um úthlutun almannafjár sem rennur til hennar til að halda uppi grunnskólakennslu, stöðvað það flæði og meinað fólki eða tiltekinni sveit, hvort sem það er suðurhluti Mývatnssveitar eða einhver önnur sveit á landinu, að taka við skólanum. Af hverju mega foreldrarnir ekki taka við skólanum ef sú staða er uppi sem þarna er og víðar á eftir að verða í framhaldi af þeirri vitlausu lagabreytingu að sveitarstjórnin neitar fólkinu um að hafa skólann á sínu svæði áfram? Menn verða að hafa eitthvert lágmark í því að foreldrar eða fólk í dreifðum byggðum geti brugðist við ósanngjörnum ákvörðunum sveitarstjórna, sem er auðvitað alltaf hætta á þegar menn færa málin á svona þröngan vettvang. Núgildandi lög eru allt of þröng og ég veit að það munu koma upp vandamál mjög fljótlega í framhaldi af þessari breytingu.

Því spyr ég: Þar sem slíkt verður, getur það þá ekki verið partur af því að halda friðinn eða finna lausn á málum að foreldrar geti á sína ábyrgð og með eðlilegum stuðningi rekið sinn skóla? Þarf endilega að einskorða hlutina við eitthvert sveitarstjórnarstig frekar en ríkið eða eitthvað annað?