Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 15:41:32 (3979)

1996-03-14 15:41:32# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:41]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Frv. var samið með samþykki fulltrúa kennarasamtakanna sem síðar hafa lýst sig óbundna af samkomulaginu vegna fyrirhugaðra frumvarpa ríkisstjórnarinnar. Sum þeirra hafa þegar verið lögð fram um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, um lífeyrisréttindi og frv. um samskiptareglur á vinnumarkaði.

Það kom fram í fyrri hluta þessarar umræðu sl. mánudag að hæstv. menntmrh. viðurkenndi það sjónarmið að ef réttindi kennara verði skert, verði að greiða þeim fyrir slíka skerðingu, eins og kennarar hafa reyndar sjálfir haldið fram. Kennarar, eins og aðrir opinberir starfsmenn, telja sig verr launaða en almenna launþega vegna þess að réttindi þeirra séu betri en gerist og gengur á almennum markaði. Því vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Telur hann að þetta frv. leiði til þess að það komi í hlut sveitarfélaganna að greiða kennurum fyrir þau skertu kjör sem væntanlega koma til ef frv. um réttindi og skyldur nær fram að ganga?

Þótt hæstv. forsrh. hafi í morgun gefið yfirlýsingu um að breytingar á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins verði ekki þvingaðar fram á þessu þingi, frestast það varla lengur en fram á næsta haust og þá hugsanlega með einhverjum breytingum. Því finnst mér málið enn þá í óvissu nema til komi skýr yfirlýsing frá ríkisvaldinu um að það muni greiða kennurum fyrir það réttindatap sem umdeild frumvörp ríkisstjórnarinnar hafa í för með sér, hvenær sem þau verða samþykkt. Er hæstv. menntmrh. samþykkur þessum skilningi mínum eða telur hann óeðlilegt að ríkið greiði fyrir þessi skertu kjör?

Ég hef fullan skilning á afstöðu kennarasamtakanna um að þau geri kröfu til þess að réttindamál sín séu alveg á hreinu við flutninginn yfir til sveitarfélaganna, enda var það gert að skilyrði þegar grunnskólalögin voru samþykkt og flutningurinn yfir til sveitarfélaganna.

[15:45]

Eitt það réttindamál sem nú er mikið í umræðunni eru fyrirhugaðar breytingar á barnsburðarleyfi fyrir opinbera starfsmenn og þar með fyrir kennara, en reglugerð um barnsburðarorlof er einmitt prentuð sem fskj. með þessu frv. Þar sem ég hef ekki átt aðgang að nefnd sem vinnur að endurskoðun á reglum sem gilda um fæðingarorlof, þá hef ég heyrt mjög mikið að yfirvofandi sé skerðing á þessum rétti. Já, skerðing en ekki umbætur eins og ætla mætti að þjóðarsamstaða væri um. Því vil ég enn og aftur spyrja hæstv. menntmrh. hvort hugsanlegar breytingar á fæðingarorlofi, þá til skerðingar ef til kæmu, verði einnig hluti af því sem ríkið ætlar að borga fyrir eða láta sveitarfélögin borga fyrir.

Að lokum vil ég ítreka að það eru auðvitað fleiri sem eiga hagsmuna að gæta en kennarar í þessu máli. Þar á ég ekki síst við öll grunnskólabörn landsins, foreldra þeirra og sveitarfélögin. Ég er sjálf sannfærð um að það mun leiða til góðs að flytja grunnskólann yfir til sveitarfélaganna og vona svo sannarlega að sá flutningur verði að veruleika og frestist ekki. En hitt er alveg ljóst að þessi flutningur getur ekki og má ekki eiga sér stað nema í fullri sátt við kennara og samtök þeirra.

Að lokum vil ég aðeins geta þess að það væri mun skemmtilegra ef hægt væri að ræða þessi mál út frá framtíðarsýn um uppbyggingu grunnskólans, hvernig við viljum sjá grunnskólann í framtíðinni frá uppeldisfræðilegu sjónarhorni heldur en þurfa að vera í þessu karpi um réttindamál sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa því miður neytt okkur til.