Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 15:59:12 (3981)

1996-03-14 15:59:12# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:59]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin við fyrirspurn minni. Hann hefur gefið þau svör sem hann getur best á þessari stundu. En ég vek athygli á því að svörin leiða fram eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er ósamið. Þetta er ófrágengið mál milli ríkisins, sveitarfélaga og stéttarfélaganna.

Í öðru lagi tel ég rétt að árétta kjarnann í þessu máli sem er þessi: Það er verið að leggja niður störf á fræðsluskrifstofum ríkisins. Þau störf eru lögð niður. Samkvæmt lögum öðlast þeir starfsmenn því rétt til biðlauna hjá ríkinu. Síðan verða stofnaðar aðrar skrifstofur hjá öðrum aðila sem heitir sveitarfélög. Spurningin er: Býðst sá aðili til að ráða þá í vinnu sem missa starf sitt hjá ríkinu gegn því að viðkomandi persóna afsali sér réttindum hjá ríkinu? Um þetta snýst málið. Ég veit ekki, virðulegi forseti, hvort ríki og sveitarfélög geti samið um þetta sín í milli. Eins og ég skil þessi biðlaunaréttindi þó að ég sé á engan hátt að segja að ég sé sammála því hvernig þau eru, þá eru þetta réttindi sem menn öðlast við tilteknar aðstæður sem eru uppi og hver persóna á. Ef þetta er réttur skilningur minn er ekki hægt að gera kröfu til þess af hálfu annars aðila, þ.e. sveitarfélags, að viðkomandi persóna afsali sér réttindum hjá ríkinu til að fá starf hjá sveitarfélögunum.