Upplýsingalög

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 16:28:11 (3985)

1996-03-14 16:28:11# 120. lþ. 108.14 fundur 361. mál: #A upplýsingalög# frv. 50/1996, ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:28]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil fagna framlagningu þessa máls. Ég tel að það sé vel úr garði gert og að í frv. sé gætt nokkuð góðs innra jafnvægis. Mér finnst þetta frv. einnig rökrétt framhald af samþykkt stjórnsýslulaga sem samþykkt voru á síðasta kjörtímabili og komi til með að fylla vel út í þá lagabálka sem fjalla um réttindi einstaklinga gagnvart stjórnkerfinu.

Hins vegar er það svo að það eru oft mál eins og þessi sem varða grundvallarréttindi einstaklinganna í þjóðfélaginu sem ekki fá eins mikla umræðu og dægurmálin. Það sést m.a. á því hve fáir þingmenn eru viðstaddir í dag og finnst mér það afar miður. Ég vona hins vegar að það muni frekar leiða til þess að þingmenn starfi betur að þessu máli í nefnd, það fái góðan og skilvirkan framgang í þinginu og verði til eins mikils framdráttar fyrir einstaklinginn gagnvart hinu opinbera og mér sýnist að stjórnsýslulögin hafi verið.