Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 15:43:47 (3991)

1996-03-18 15:43:47# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[15:43]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ræðuna. Hún er greinilega vel að sér í þessum málum enda hygg ég að við séum sammála um að hér sé um flókið og vandmeðfarið mál að ræða, eitt flóknasta svið lögræðinnar. Ég ætla þó að koma að örfáum athugasemdum strax í andsvari.

Í 3. gr. frv. segir, með leyfi virðulegs forseta: ,,Sérstaklega skal hugað að skaðabótum fyrir líkamstjón, meðal annars með hliðsjón af þeim tillögum sem allsherjarnefnd lét vinna fyrir sig á 120. löggjafarþingi og þeim athugasemdum sem fram hafa komið í nefndinni.``

Hér er einfaldlega verið að undirstrika að öll þau gögn sem allshn. hefur viðað að sér í sambandi við þetta mál, sem eru mjög miklir og merkilegir pappírar, muni liggja fyrir þessari nefnd til skoðunar. Ég held að ég hafi örugglega svarað því í minni framsögu fyrir hönd nefndarinnar hvers vegna ekki er farið eftir þessum nýju tillögum frá Gesti og Gunnlaugi að þessu sinni heldur farinn ákveðinn millivegur en hef bent á að það eru mjög margar spurningar sem vöknuðu í sambandi við þessar tillögur í vinnu nefndarinnar. Ég vil hins vegar undirstrika það að Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður hefur unnið mjög náið með allshn. í þessu máli.

[15:45]

Ég vil líka árétta það út af orðum hv. þm. að verklagsreglur tryggingafélaganna koma ekki inn á borð löggjafans. Enn fremur varðandi gildistökuna var ég búin að skýra frá því áður, virðulegi forseti, í framsögu minni ef ég fæ að ítreka það, þá segi ég: Frv. þetta gerir ráð fyrir að breytingarnar taki gildi um mitt þetta ár. Tryggingafélögin lögðu áherslu á að þar sem vátryggingariðgjöld væru yfirleitt greidd fyrir fram væri nauðsynlegt að hafa árs fyrirvara á lagabreytingum sem leiddu til hækkunar bóta. Á móti kemur að með hliðsjón af breyttri viðmiðun og frambúðarávöxtun er orðið knýjandi að hækka margföldunarstuðulinn sem fyrst. Nefndin telur rétt að fara bil beggja í þessu efni og leggur því til að gildistakan miðist við 1. júlí nk. Um þetta var nefndin sammála þó að ég geti hins vegar tekið undir skoðun hv. þm. í því að það sem snýr fyrst og fremst að löggjafarvaldinu er að setja sanngjarnar reglur um skaðabótarétt.