Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 15:46:38 (3992)

1996-03-18 15:46:38# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[15:46]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að verklagsreglur tryggingafélaganna komu ekki inn á borð löggjafans og ég var einmitt að lýsa furðu minni á því í ræðu minni áðan að félög eins og tryggingafélögin geti sett sér reglur sem eru hreint og beint í andstöðu við gildandi lagareglur þó að þær hafi verið óskráðar. Það er einmitt það sem ég hef verið að reyna að draga fram.

En varðandi 2. málsl. í bráðabirgðaákvæði 3. gr. veltir maður því fyrir sér hvers vegna er verið að draga þetta á langinn. Úr því að ekki er hægt að fara að þessum tillögum núna, úr því að þær eru ekki nógu góðar, út af hverju á þá ekki að láta nýja nefnd hafa fullkomlega frjálsar hendur um það? Á að leita að öðrum sérfræðingum sem hafa aðrar skoðanir en eiga samt sem áður að taka eitthvert tillit til þeirra tillagna sem hafa komið fram í áliti Geirs og Gunnlaugs? Ég hefði talið eðlilegra að sleppa þeim málslið sem snýr að því hvernig þessar tillögur eigi að vera. Ég hefði sjálf getað fallist á það að þær hefðu verið lagðar fram hér og nú en úr því að það er ekki hægt sé ég ekki rökin fyrir því að fara þá leið sem farin hefur verið í bráðabirgðaákvæðinu og þá sé eðlilegra að ný nefnd hafi óbundnar hendur.