Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 16:08:46 (3996)

1996-03-18 16:08:46# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:08]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má kannski segja að það séu líka til sérfræðingar í hv. allshn. Eftir að hafa hlýtt á mjög marga aðila og fengið mörg gögn í hendur er það mat nefndarinnar að það sé ekki ástæða og ekki óhætt að stíga stærra skref á þessu stigi málsins en gert er í þessu frv.

Mig langar aðeins að koma inn á mál sem varðar önnur bótaúrræði sem eru í gildi samkvæmt lögum í dag. Eitt af því sem nefndin mun eflaust fjalla um er staðlaður bótaréttur. Við skulum hugsa okkur að það verði umferðarslys og hinn slasaði gæti átt rétt á bótum eftir a.m.k. fjórum nánast lögbundnum leiðum sem einstaklingum og fyrirtækjum er gert að standa undir með einum eða öðrum hætti. Það fyrsta er ábyrgðartrygging, annað lífeyrissjóður, þriðja slysatrygging launþega og fjórða almannatryggingakerfið og Tryggingastofnun ríkisins. Mér finnst því augljóst að það sé eitt af því sem þarf að skoða í þeirri nefnd sem skipuð verður, hvort rétt sé að hverfa frá þeim reglum sem í gildi eru með staðlaða bótaréttinn.

Mér finnst að hv. þm. geri ekkert með það að um ofbætur geti verið að ræða. Hver er það sem borgar ofbætur? Það eru neytendur. Það eru hinir. Og það er eiginlega ekki hægt að hugsa sér að fólk eigi að geta grætt stórkostlega á því að meiða sig, þótt það sé kannski ljótt að taka þannig til orða. En það er m.a. það sem málið snýst um.