Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 16:10:48 (3997)

1996-03-18 16:10:48# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:10]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki tilgangur minn að gera lítið úr störfum hv. allshn., langt í frá. Og allra síst vil ég gera lítið úr þeirri staðreynd að mögulega sé um ofbætur að ræða í einhverjum tilvikum. Ég er einungis að vekja athygli á því að eins og staðan er í dag og hefur verið hingað til, hefur fólk ekki fengið bætt það tjón sem það átti að fá. Mér finnst þolanlegra ástand að einhverjir fái ofbætur heldur en að vita að margir fá ekki bætt að fullu það tjón sem þeir eiga að fá. Mér finnst það skipta öllu máli að tjónþolar fái það tjón sem þeir eiga að fá bætt.

Ég er á engan hátt að gera lítið úr því að mögulega kunni að eiga sér stað einhver misnotkun á þessu bótakerfi eins og við vitum að viðgengst stundum á slíkum kerfum, því miður. En ég sé bara ekki að lausnin fáist með því að bíða lengur og fá nýjar tillögur og nýja sérfræðinga. Við vitum að staðreyndin er sú að þarna er um að ræða málamiðlun í allshn. Þar er um að ræða málamiðlun á milli mjög ólíkra sjónarmiða og við eigum að viðurkenna að svona er þetta, það er ekki svo margt sem á eftir að kanna. Það er búið að reikna þessa hluti fram og til baka. Það er hins vegar ekki hægt að komast lengra að sinni, m.a. vegna þrýstings frá tryggingafélögunum og hótana um það að þá verði iðgjöldin hækkuð. Ég sé ekki annað en það séu helstu rökin í málinu en þetta er þó spor í rétta átt. Ég mun leggja til að það verði gerðar tilteknar breytingar á þessu frv. eins og það liggur fyrir miðað við þá gagnrýni sem ég hef látið koma fram, en að öðru leyti tel ég þær vera spor í rétta átt.

Mér finnst nauðsynlegt að fólk skoði það og takist á um það hér eftir hverju verið er að bíða.