Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 16:12:56 (3998)

1996-03-18 16:12:56# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:12]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og þegar hefur komið fram, er verið að bíða eftir því að finna þá leið sem við getum sæst á og orðið sammála um að sé rétta leiðin. Í greinargerð með þessu frv. á bls. 2, eru talin upp mjög mörg atriði sem hv. allshn. telur að þurfi að skoða nánar til þess að um heildstæðar tillögur geti verið að ræða til breytinga á lögunum.

Ég er sammála hv. þm. um að það er óverjandi að fólk fái langt í frá fullar bætur miðað við tjón sem það verður fyrir og þess vegna er það sem við teljum ekki stætt á því að bíða með það að koma fram með tillögur sem bæti verulega úr. 33% hækkun á stuðlinum hlýtur að geta talist veruleg bót fyrir þá einstaklinga.

Ég vil kannski bæta því við að Gestur Jónsson og Gunnlaugur Claessen telja að ýmislegt sem komið hefur fram sem rök gegn þeirra tillögum sé málefnalegt og ástæða sé til að skoða það frekar, þótt ég vilji alls ekki gera lítið úr tillögum þeirra og þeirri vinnu sem þeir hafa lagt á sig fyrir hv. allshn. í þessum efnum.