Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 18:26:53 (4017)

1996-03-18 18:26:53# 120. lþ. 109.9 fundur 388. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., 199. mál: #A læknalög# (samþykki sjúklings til aðgerðar) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir gerði því skóna að e.t.v. væri kerfið komið í ógöngur þegar framkvæmd lagabálka væri með þeim hætti að það þyrfti í einni grein eftir aðra að setja upp sérstaka talsmenn eða umboðsmenn þeirra sem notfæra sér viðkomandi kerfi. Ég er ekki sammála því. Ég held að t.d. heilbrigðiskerfið og lagabálkar og reglugerðir sem því tengjast séu svo flókin að jafnvel hver sem er eigi erfitt með að fóta sig í þeim. Ég minnist þess að þegar umræðan um umboðsmenn sjúklinga kom fyrst upp á Norðurlöndunum á síðasta áratug voru menn að ræða um að það væri einkum nauðsynlegt fyrir þá sem ættu erfitt uppdráttar, lítilmagnann í þjóðfélaginu, til þess að ná rétti sínum. Nú eru menn almennt orðnir þeirrar skoðunar að það sé hverjum og einum mjög þarft að eiga innhlaup hjá einhverjum sem getur skýrt þetta flókna kerfi út. Við sjáum það t.d. á Íslandi því að tölur frá landlæknisembættinu sýna að þetta er mikill vandi. Árið 1993 bárust embættinu 252 kvartanir vegna samskipta við sjúkrastofnanir, 275 árið 1994. Það er ljóst að kvörtunum og athugasemdum við þjónustu sem sjúklingar fá fjölgar. Ég held því að það sé nauðsynlegt að setja upp svona embætti með einhverjum hætti og ég held að það sé ekkert skrýtið. Ég held að þetta kerfi sé orðið svo flókið að jafnvel þeir sem hafa nasasjón af því eiga í erfiðleikum með að rata rétta leið innan þess.