Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 18:38:20 (4020)

1996-03-18 18:38:20# 120. lþ. 109.9 fundur 388. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., 199. mál: #A læknalög# (samþykki sjúklings til aðgerðar) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svör sem að flestu leyti voru fullnægjandi og skýr. Það eru þó nokkur atriði sem mig langar að hnykkja á. Það er í fyrsta lagi varðandi 27. gr. þar sem rætt er um sjúk börn á skólaskyldualdri. Þar er það göfuga markmið sett fram í frv. að þau skuli hafa aðgang að kennslu sem hæfi þeirra aldri og ástandi. Ég tel þetta afar mikilvægt og efast ekki andartak um vilja hæstv. heilbrrh. til þess að gera þetta ákvæði virkt. Ég hjó eftir því að í svari sínu gat ráðherrann þess að í dag væru ekki fullnægjandi aðstæður fyrir hendi á þeim barnadeildum sem við búum við núna. Gott og vel. Hér er hæstv. ráðherra að gera það sem hún getur til þess að breyta þessu ástandi. En eins og jafnan er við ramman reip að draga þar sem er hæstv. fjmrh. Það er dálítið dapurlegt að þegar svona lofsvert ákvæði er sett fram af hálfu ríkisstjórnarinnar með annarri hendinni, er það nánast ómerkt með hinni, því fjmrn. segir að það sé ekki gert ráð fyrir því að kostnaður aukist við þetta. Eina skýringin á því gæti auðvitað verið sú að það sé gert ráð fyrir því að sveitarfélögin taki alfarið við kostnaðinum sem af þessu hlýst án þess að fá nokkurt fjármagn á móti frá hinu opinbera. Ég held að þetta sé atriði sem þarf að skoðast mjög rækilega í tengslum við flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaganna. Þetta gæti orðið talsvert kostnaðarsamt í sumum tilvikum og alveg nauðsynlegt að hnýta alla hnúta í þessum efnum þannig að ekki komi upp einhver ágreiningur síðar milli sveitarfélaganna og ríkisins um vanefndir sem kynnu að leiða til þess að þeir sem síst skyldi, börnin, gjaldi fyrir með því að fá ekki þá kennslu sem hér er gert ráð fyrir.

Mig langar jafnframt, herra forseti, að drepa betur á umboðsmann sjúklinga og viðhorf hæstv. ráðherra til þeirrar hugmyndar sem ég reifaði hérna og Alþfl. hefur fyrr á þessu þingi flutt og hv. fyrrv. þm. Kvennalistans, Anna Ólafsdóttir Björnsson, flutti á fyrri kjörtímabilum. Ég held að það sé tæpast ásættanlegt í dag að reyna að reisa kerfi sem byggist á því að landlæknir verði umboðsmaður sjúklinga. Í dag er alltaf verið að hnýta landlæknisembættið traustari böndum við heilbrrn. og sú staða kann að koma upp að þeim sem sækir undir væng landlæknisembættisins þegar upp koma erfið mál finnist að hann njóti ekki fyllsta hlutleysis. Ég held að þar þurfi alveg óháða stofnun eða óháðan umboðsmann. Ég bendi á að núna er í heilbr.- og trn. gersamlega óskylt frv. sem varðar sóttvarnir þar sem verið er að tengja heilbrrn., ráðuneytið sjálft, enn sterkari böndum við landlæknisembættið. Ég tel því að þetta sé ekki nægilega gott kerfi sem hér er verið að setja upp þrátt fyrir þriggja manna kvörtunarnefnd. Á meðan hún er á vegum landlæknisembættisins get ég ekki talið hana fullkomlega óháða heilbrrn. Það sem við erum einmitt að gera svo víða í dag er að koma í veg fyrir að sá sem hefur framkvæmd með höndum hafi eftirlit með sjálfum sér. Á þessu sviði sýnist mér að það sé verið að setja upp kerfi þar sem landlækni, sem er hluti heilbrrn., er ætlað að hafa eftirlit með öðrum hlutum heilbrrn. Það er ekki ásættanlegt í nútímaþjóðfélagi, herra forseti.

Að því er 24. gr. varðar varpaði ég nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra um það sem mér fannst hún ekki svara nægilega skýrt. Eins og ég hef sagt styð ég það sem segir í þessu ákvæði. Það var alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, sjúklingur á að hafa rétt til þess að hafna meðferð og hann á að fá að deyja á meðan hann getur með reisn. En sú staða kann að koma upp að sjúklingurinn sé ekki í ástandi til þess að taka á móti upplýsingum frá hjúkrunarfólki og læknum um eigin stöðu og hann geti einfaldlega ekki metið eigin lífslíkur. Hver á þá að gera það fyrir hann? Það kemur hvorki fram í greininni sjálfri né greinargerð með frv. hvort fjölskyldu sjúklingsins eigi að vera leyfilegt að taka þessa ákvörðun í slíkum tilvikum. Á það að vera hjúkrunarfólk og læknar? Út af fyrir sig er hægt að leggja ýmsar tillögur til lausnar á þessu, en í dag er ekki gert ráð fyrir því. Og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki nauðsynlegt að það sé með einhverjum hætti gert ráð fyrir því að aðstandendur dauðvona sjúklings, sem ekki hefur lengur tök á að meta það sjálfur hvort hann eigi að hafna meðferð, geti tekið slíka ákvörðun fyrir hann.