Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 18:45:05 (4021)

1996-03-18 18:45:05# 120. lþ. 109.9 fundur 388. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., 199. mál: #A læknalög# (samþykki sjúklings til aðgerðar) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:45]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þetta síðasta sem hv. formaður heilbr.- og trn. spurði um áðan um matið, ef sjúklingur er meðvitundarlaus og getur ekki sjálfur kveðið upp úr með það hvort hann vilji þiggja meðferð eður ei þá er það læknirinn sem ákveður hvort um verður að ræða áframhaldandi meðferð.

Um sjúku börnin og 27. gr. vil ég geta þess að það er útilokað annað en að bæta aðstöðuna á Barnaspítala Hringsins varðandi langsjúku börnin og það kostar peninga.

Varðandi umboðsmann sjúklinga vil ég láta þess getið að í Danmörku var ákveðið fyrir nokkrum árum að þetta embætti var sett á laggirnar en þeir hafa gefist upp á því í dag. Kvörtunarnefndin sem var til umræðu áðan er hlutlaus aðili. Í nefndinni eiga sæti einn fulltrúi frá Hæstarétti sem er lögfræðingur, einn læknir sem er ekki að vinna í heilbrigðisþjónustu og einn hjúkrunarfræðingur sem er ekki heldur að vinna í heilbrigðisþjónustu. Ég held að þessum atriðum sé mjög vel fyrir komið varðandi kvörtunarnefndina.