Skaðabótalög

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 13:44:13 (4032)

1996-03-19 13:44:13# 120. lþ. 110.1 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, VS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[13:44]

Valgerður Sverrisdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég held að við ættum nú að hætta þessari umræðu og greiða atkvæði um það að málinu verði vísað til nefndar eins og hér hefur komið fram tillaga um. Ég styð það vegna þess að hér hafa komið fram brtt. og það er allt í lagi að tala um þær í nefnd þó ég telji að þetta mál hafi fengið alveg einstaklega vandaða umfjöllun í nefnd.

Fyrst að hér var rætt um breytingar sem gerðar voru á þingsköpum Alþingis 1991 þá var það nú ein grundvallarhugsunin í þeirri breytingu að auka starf í nefndum þannig að umræður gætu orðið minni í þinginu sem reyndar hefur nú orðið raunin. Það er þannig með þetta mál að það hefur verið fjallað mjög mikið og oft um það í nefnd og nákvæmlega og þingflokkar, alla vega minn flokkur hefur fengið að fylgjast með umfjöllun málsins. Ég veit ekki hvort þetta er eitthvert vandamál innan þingflokks Alþb. og óháðra en staðreyndin er sú að sá hv. þm. sem situr í nefndinni er hinn óháði í þeim þingflokki. Hvort það er eitthvert sambandsleysi þar á milli veit ég ekki. En það virðist vera að hv. þm. Svavar Gestsson hafi ekki fengið tækifæri til að fylgjast með málinu.

(Forseti (ÓE): Forseti vill spyrja hvort ekki séu komin nægileg rök með eða á móti þannig að hægt sé að ganga til atkvæða.)