Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 13:55:45 (4035)

1996-03-19 13:55:45# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[13:55]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegur forseti. Ég leyfi mér hér að mæla fyrir 372. máli þingsins sem er á þskj. 650. Ég mun fyrst í inngangi mínum fjalla um aðdraganda þessa máls og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um ríkisrekstur og starfsmannamál og síðan ræða efnisatriði frv. og tengsl þess við önnur frv. sem liggja fyrir þinginu eða eru væntanleg.

Íslenskt efnahagslíf er smám saman að komast upp úr djúpri efnahagslægð sem stuðlað hefur að því að lífskjör hér hafa versnað í samanburði við önnur Evrópuríki. Til að lífskjör hér verði með því besta sem gerist í heiminum verðum við Íslendingar að setja okkur markmið um bætt lífskjör og meiri hagvöxt. Ekki nægir að tryggja jafna samkeppnisstöðu gagnvart öðrum því að íslenskt atvinnulíf þarf að ná forskoti á aðrar þjóðir hvað samkeppnisstöðu snertir. Þótt pólitískt dægurþras virðist alloft skyggja á umræðu um stefnumörkun til lengri tíma skynja sem betur fer stöðugt fleiri mikilvægi þess að við setjum okkur markmið um bætta samkeppnisstöðu Íslands og vinnum að því á hverjum einasta degi að færa okkur nær því markmiði.

Íslenskt þjóðfélag þarf að leita allra leiða til að auka verðmætasköpun og bæta lífskjörin. Öll viljum við bætt lífskjör, öruggari sjúkraþjónustu, betri skóla, hreinna umhverfi, stærri bókasöfn, fleiri listasöfn o.s.frv. Betri lífskjör og sífellt meiri hagsæld eru hins vegar ekki sjálfsagðir hlutir sem ganga í erfðir. Þau má þvert á móti rekja til þess að atvinnulífið er stöðugt, að ný störf eru sköpuð og framleiðni er aukin, bæði heima fyrir og erlendis. Þau þjóðfélög sem búa fyrirtækjum og fólki ákjósanlegt umhverfi standa betur að vígi í samkeppninni. Til að ná þeim árangri þarf margháttaðar breytingar, m.a. umbætur sem felast í nýskipan í ríkisrekstri.

Í nær öllum aðildarríkjum efnahags- og framfarastofnunar OECD hefur umræða um að færa ríkisreksturinn í nútímalegra horf verið mjög fyrirferðarmikil. Kröfur til ríkisins um þjónustu hafa aukist á undanförnum árum og umsvifin að sama skapi. Halli á ríkissjóði flestra aðildarlanda OECD er viðvarandi og vaxandi verði ekkert að gert. Útgjaldabyrðar og reyndar skattbyrðar einnig eru því fluttar yfir á komandi kynslóðir. Á næstu árum munu kröfurnar aukast enn frekar m.a. með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Ef við ætlum að veita almenningi áfram góða þjónustu og tryggja undirstöður velferðarþjóðfélagsins verðum við að leita nýrra leiða í ríkisrekstrinum. Það er hlutverk stjórnmálamanna að leita leiða til að gera ríkisreksturinn skilvirkari og koma á jafnvægi milli gjalda og tekna í ríkisrekstri án þess að vegið sé að undirstöðum velferðarþjóðfélagsins. Til þess að ná þessu markmiði þarf ríkisreksturinn að vera í stöðugri endurskoðun, hætta þarf þjónustu sem er óþörf eða einkaaðilar geta alfarið séð um en finna hentugar lausnir á þeim sviðum þar sem markaðurinn mun ekki veita borgurunum nægilega örugga þjónustu.

Ríkisstjórnin samþykkti fyrir áramót stefnu um nýskipan í ríkisrekstri. Þar segir m.a. að þunglamalegur ríkisrekstur stuðli að auknum álögum á fólk og fyrirtæki, dragi úr athafnaþrótti og minnki lífsgæði. Þess vegna hafa augu skattgreiðenda í auknum mæli beinst að ríkisrekstrinum og leiðum til þess að gera hann hagkvæmari, draga úr umfangi og kostnaði. Um leið eru gerðar sífellt auknar kröfur til ríkisins um þjónustu við borgarana. Megininntak stefnunnar um nýskipan í ríkisrekstri er að einfaldari ríkisrekstur þar sem ríkið er fyrst og fremst kaupandi þjónustunnar en ekki veitandi hennar sé farsælasta leiðin til að auka hagkvæmni í ríkisrekstri og bæta þjónustuna.

[14:00]

Með nýskipan í ríkisrekstri er þess freistað að ná sem mestri hagkvæmni í meðferð skattfjár og um leið að bæta þjónustu við almenning í þeirri starfsemi sem ríkisvaldið hefur alfarið með höndum þar sem hægt er að beita stjórnunaraðferðum sem tíðkast í rekstri fyrirtækja. Til þess að svo megi verða þarf umhverfi ríkisstofnana að verða sem líkast því sem gerist í einkarekstri og þar hljóta starfsmannamálin að skipa veglegan sess.

Ljóst er að umbætur í ríkisrekstri verða ávallt mjög takmarkaðar nema tekið verði á starfsmannamálum ríkisins. Starfsmenn ríkisins eru nú um 25 þúsund talsins og þeir starfa hjá embættum, stofnunum og fyrirtækjum sem eru mjög ólík að innri gerð. Sem dæmi um það hversu fjölbreyttur hópur það er sem starfar hjá ríkinu má nefna að sem stendur greiðir ríkið laun samkvæmt 140 kjarasamningum til einstaklinga í 175 mismunandi stéttarfélögum. Áætlað er að ríkið hafi greitt í laun um 39,5 milljarða árið 1995. Þetta þýðir að það verkefni að endurskoða starfsmannastefnu ríkisins er mjög viðamikið að sjálfsögðu.

Á síðustu árum hafa ýmsar ríkisstofnanir komið fram með nýjungar í rekstri sínum sem miða að bættri þjónustu eða betri meðferð opinbers fjár. Í forustu fyrir þessum breytingum hafa verið stjórnendur og starfsmenn þessara stofnana sem hafa bæði þekkingu og áhuga á því að gera reksturinn skilvirkari og koma honum í takt við það sem gerist á almennum markaði. Ný viðhorf þeirra sem eru á vettvangi í ríkisrekstrinum gera kröfu til stjórnvalda um að rekstrarumhverfið verði bætt þannig að stofnunum verði gert kleift að vinna sem mest í anda nútímalegra stjórnunaraðferða þar sem fari saman sjálfstæði og ábyrgð. Breytt starfsmannastefna ríkisins er forsenda þess að bæta megi rekstur ríkisins og ná fram aukinni hagkvæmni. Á síðustu árum hafa verið gerðar margvíslegar tilraunir með breytt fyrirkomulag í ríkisrekstri. Margar þeirra lofa góðu. Má í því sambandi nefna þjónustusamninga sem gerðir hafa verið milli nokkurra stofnana og ráðuneyta. Þar er tilgreint hvaða þjónustu ráðuneytið kaupir af stofnuninni og fyrir hvaða verð. Ef þess verður krafist að stofnunin veiti jafngóða eða betri þjónustu en einkafyrirtæki þarf starfsumhverfi stofnunarinnar að batna. Ljóst er að til þess að koma á nýskipan í ríkisrekstri, hvort sem það er í skólamálum, heilbrigðismálum eða á öðrum sviðum ríkisrekstrarins, verður að veita stofnunum og starfsfólki þeirra aukið svigrúm og sjálfræði til að ná þeim árangri sem krafist er. Slíkur árangur næst ekki nema aukið vald sé fært út í stofnanir. Að því er stefnt með frv. sem hér liggur fyrir til umræðu.

Þær breytingar sem lagt er til í þessu frv. að gerðar verði á starfsmannamálum ríkisins hafa verið til umræðu um nokkurt skeið. Árið 1993 var haldin ráðstefna á vegum fjmrn. um ríkisreksturinn. Í framhaldi af því voru skipaðir vinnuhópar til að útfæra hugmyndir um umbætur. Í tillögunum sem fylgdu í kjölfarið má finna margt af því sem unnið hefur verið að á síðustu árum. Má þar nefna þjónustusamninga stofnana og ráðuneyta, útboð og aukið sjálfstæði stofnana. Þá sagði í riti sem gefið var út í kjölfarið að skapa þurfi skilyrði til að unnt sé að skipta um stjórnendur í ríkisrekstri og afnema æviráðningu. Þá segir að draga þurfi úr miðstýringu í starfsmanna- og launamálum ríkisins. Á ráðstefnu sem haldin var um starfsmannamál ríkisins haustið 1994 nefndi ég sex atriði sem ég taldi að taka ætti mið af í þróun launa- og starfsmannamála. Þessi atriði voru:

1. Auka þarf og skerpa ábyrgð yfirmanna ríkisfyrirtækja og stofnana. Einnig þarf að leggja af æviráðningar og meta stjórnunarstörf eftir árangri.

2. Hverfa þarf frá þeirri lagalegu sérstöðu sem ríkir um málefni ríkisstarfsmanna.

3. Í stað þess að leggja megináherslu á starfsaldurshækkanir í kjarasamningum verði meira tillit tekið til ábyrgðar, frammistöðu og framleiðni.

4. Þess verði freistað að samræma lífeyrismál opinberra starfsmanna því sem gerist á almennum vinnumarkaði.

5. Stefnan í starfsmannahaldi ríkisins verði að sjá til þess að ríkið geti keppt við einkamarkaðinn um hæft starfsfólk á jafnréttisgrundvelli.

6. Umsýsla um launa- og starfsmannamál færist út í stofnanir.

Í þessari ræðu haustið 1994 kynnti ég jafnframt áform um endurskoðun á lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna en þau lög eru frá 1954, nr. 38. Á ráðstefnunni voru nokkrir forustumenn ríkisstarfsmanna og einn þeirra flutti ræðu m.a. um þær hugmyndir sem settar voru fram á ráðstefnunni. Þetta nefni ég hér vegna þess að í fjölmiðlum má skilja á nokkrum forustumönnum ríkisstarfsmanna að hugmyndir frv. hafi komið algerlega flatt upp á þá og hálfgerð leynd hafi hvílt yfir þeim fram á síðustu vikur. Það er að sjálsögðu alrangt því að þær hafa legið fyrir í hér um bil tvö ár.

Frv. það sem hér er til umræðu er samið af nefnd sem skipuð var af fjmrh. 23. ágúst 1995 til þess að endurskoða í heild stefnu ríkisins í starfsmannamálum þess. Í nefndinni eiga sæti Eiríkur Tómasson prófessor, sem er formaður, Inga Dóra Sigfúsdóttir stjórnmálafræðingur og Þórður S. Óskarsson vinnusálfræðingur. Þetta er nefnd sérfræðinga, enda taldi ég eðlilegast að leita eftir því að sú nefnd setti fram meginstefnuna og ynni síðan að þessari tillögugerð sem hér er til umræðu. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að auka skuli hagkvæmni í ríkisrekstrinum, stuðla að bættri þjónustu hins opinbera og gera starfsmannstefnu ríkisins skýrari en hún nú er. Þá var sérstaklega tekið fram að nefndin skuli gæta að jafnrétti kynjanna. Í greinargerð nefndarinnar sem samþykkt var í ríkisstjórn í nóvember í fyrra voru markmið nýrrar starfsmannastefnu tíunduð, en þau eru þessi, með leyfi forseta:

1. Vald til að taka ákvarðanir sem varða starfsmenn, aðra en æðstu stjórnendur ríkisins og stjórnendur ríkisstofnana, verði fært frá ráðherrum/ráðuneytum, þar á meðal fjármálaráðuneyti, til stjórnenda einstakra stofnana. Samhliða verði gerð kjarasamninga við opinbera starfsmenn færð í svipað horf og tíðkast á hinum almenna vinnumarkaði, t.d. með því að stofna vinnuveitendasamband ríkisins með þátttöku ráðuneyta og einstakra ríkisstofnana, sem gæti orðið í fyrirsvari fyrir ríkið við kjarasamningagerð. Slíkt verður ekki gert nema með breytingum á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en æskilegast væri að þær yrðu gerðar samhliða breytingum á hinni almennu vinnulöggjöf sem nú er unnið að.

Ég er að tíunda markmiðin sem samþykkt voru í ríkisstjórninni á grundvelli tillagna nefndarinnar um starfsmannastefnu ríkisins.

2. Stjórnendum ríkisstofnana verði gert það auðveldara en nú er að miða fjölda starfsmanna við raunverulega starfsmannaþörf stofnunar. Það verður tæpast gert nema með því að gera réttarstöðu opinberra starfsmanna sem líkasta réttarstöðu starfsmanna hjá einkafyrirtækjum. Slíkt kallar m.a. á endurskoðun á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá verði stuðlað að aukinni tilfærslu á fólki í störfum, bæði á milli einstakra stofnana ríkisins og á milli ríkisins, sveitarfélaga og einkafyrirtækja.

3. Launakerfi ríkisins verði einfaldað, t.d. á þann hátt að aðeins verði samið um tiltekin grunnlaun og lágmarksréttindi starfsmanna í kjarasamningum, jafnframt því sem afnumdar verði sumar þær uppbætur á laun er nú tíðkast, svo sem laun fyrir ,,ómælda yfirvinnu``. Í staðinn fái stjórnendur ríkisstofnana svigrúm til að ákvarða einstökum starfsmönnum laun eftir sérhæfni og menntun sem nýtist í starfi, svo og eftir ábyrgð og frammistöðu hvers og eins. Þessar ákvarðanir styðjist við almennar reglur og málefnaleg sjónarmið þannig að fyllsta jafnræðis verði gætt, t.d. milli karla og kvenna, við ákvörðun slíkra viðbótarlauna.

4. Gerðar verði auknar kröfur til menntunar og starfsreynslu ríkisstarfsmanna með því t.d. að gera markvissari kröfur til þeirra, sem ráðnir eru í störf á vegum ríkisins, og vanda betur til ráðninga í þau störf. Samhliða þarf að efla og samhæfa endurmenntun og -þjálfun ríkisstarfsmanna til að hún nýtist sem best í starfi.

5. Jafnrétti milli karla og kvenna sem starfa hjá ríkinu verði aukið með því m.a. að jafna launakjör þeirra. Nauðsynlegt er og að tryggja að breytingar þær, sem lýst er hér að framan, bitni ekki á konum fremur en körlum, t.d. með því að fæðingarorlof skerði ekki réttindi er byggja á starfsreynslu. Jafnframt verði stefnt að því að vinnutími verði sveigjanlegri en nú er og dregið verði úr óhóflegri yfirvinnu. En þetta hvort tveggja tengist þeim liðum sem ég hef fyrr nefnt í minni ræðu þar sem ég hef verið að fjalla um grunn að þeirri stefnu sem mörkuð var í starfsmannamálunum. Þá verði mörkuð sú stefna af hálfu ríkisins að ráðnir verði hæfustu einstaklingarnir til starfa, án tillits til kynferðis, sbr. lið 4 hér að framan.

6. Skilgreina þarf betur almenna stefnu ríkisins í starfsmannamálum er byggi m.a. á því að auka jafnrétti milli karla og kvenna, sbr. lið 5 hér að framan, og að gera ríkisstarfsmönnum betri grein fyrir því til hvers er ætlast af þeim, ekki síst í skiptum við það fólk sem skipti á við hlutaðeigandi stofnun Nánari útfærsla verði í höndum stjórnenda einstakra ríkisstofnana.

Þetta var, virðulegi forseti, orðrétt samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í nóvember, en frá þeim tíma hefur verið gefin út bók um þetta síðasttalda, um hvernig vinna megi betur að jafnréttismálum á grundvelli núgildandi laga og núgildandi aðstæðna. Og í bígerð er að halda fundi og ráðstefnur með stjórnendum í ríkisrekstri til að opna augu þeirra fyrir þeim nauðsynlegu viðhorfsbreytingum sem þurfa að eiga sér stað í þessum efnum.

Eins og fram hefur komið hef ég lagt á það áherslu að við undirbúning stefnu um umbætur og nýskipan í ríkisrekstri verði sem flestir ríkisstarfsmenn virkjaðir. Ég er þess fullviss að þeir opnu fundir og ráðstefnur sem haldnar hafa verið um nýskipan í ríkisrekstri og vinnufundir, með m.a. fjölmörgum ríkisstarfsmönnum, um nýjar hugmyndir í rekstri hafa leitt til þess að mun meiri umræða hefur verið um bætta stjórnun í ríkisrekstrinum en nokkru sinni fyrr. Um leið og lögð hefur verið áhersla á að virkja ríkisstarfsmenn í hugmyndavinnu hefur einnig verið lögð áhersla á að framfylgja lagaákvæðum um samráð við samtök ríkisstarfsmanna við undirbúning þess frv. sem hér liggur frammi. Ég vil nú skýra í hverju það samráð hefur verið fólgið.

Hinn 23. ágúst sl. var nefndin um endurskoðun starfsmannastefnu ríkisins sett á laggirnar. Fyrsta verkefni nefndarinnar var að endurskoða núgildandi lög nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hinn 12. desember sl. var BSRB, BHMR og KÍ sent bréf þar sem m.a. var skýrt frá því að heildarendurskoðun á lögunum stæði fyrir dyrum og yrði henni hraðað. Jafnframt var óskað eftir hugmyndum frá samtökunum þremur að breytingum á lögunum. Svarbréf barst frá BSRB en ekki hinum samtökunum.

Hinn 6. febr. sl. var samtökunum þremur kynnt meginmarkmið og meginefni þess frv. sem nú hefur verið lagt fram. Hinn 12. febr. sl. voru samtökunum send frumdrög að frv. eftir að þau höfðu verið kynnt ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna. Þótt lítið hafi farið fyrir umfjöllun og viðræðum um efni frumvarpsdraganna var unnið að breytingum á þeim eins og ráð var fyrir gert í upphafi. Nokkrum ákvæðum var breytt til að koma til móts við athugasemdir frá samtökum ríkisstarfsmanna. Því miður, það verður að segja þá sögu eins og er, kusu forustumenn samtaka ríkisstarfsmanna fremur að fara í sína auglýsingaherferð og ræða frv. eingöngu út frá sínum sjónarmiðum en taka þátt í viðræðum við ríkið um frv. Eins og ég hef margoft lýst yfir erum við reiðubúin til þess að ræða við samtök ríkisstarfsmanna um efni frv. eftir að það hefur verið lagt fram í þinginu, en það var auðvitað gert til þess að ríkisstarfsmenn og almenningur gætu kynnt sér í hverju frv. væri fólgið en þyrftu ekki að reiða sig á meira og minna áreiðanlegar lýsingar forustumanna launþegasamtaka í opinberum rekstri. (ÖJ: Ertu að segja að þið hafið logið?) Ég bið menn um að geyma sér sárindi sín aðeins, sitja á sér. Það verður nægur tími til þess að tala á eftir. Það hefur verið beðið um tvöfaldan ræðutíma þannig að formaður BSRB fær væntanlega að flytja ræðu sína hér eins og allir aðrir hv. alþingismenn. (ÖJ: Nú þarf að gera kröfu um að fjmrh. fari með rétt mál.)

[14:15]

(Forseti (ÓE): Ekki samtöl í salnum.)

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er kveðið á um ýmis umbótamál sem ríkisstjórnin hyggst vinna að á kjörtímabilinu. Auk starfsmannamálanna eru þar nefnd lífeyrismál og breytingar á vinnulöggjöfinni. Frá upphafi kjörtímabilsins hefur verið unnið að tillögugerð í þessum efnum. Ég vil geta þess í þessu sambandi að breytingar á samskiptareglum á vinnumarkaði hafa verið til umræðu að undanförnu og síðast í ríkisstjórninni í morgun og ég á von á því að það frv. sem hefur verið nokkuð lengi í undirbúningi verði lagt fram á næstu dögum. Það byggir á nefndarstarfi sem varð til í tíð síðustu ríkisstjórnar. En að sjálfsögðu er frv. eins og það lítur nú út lagt fram á ábyrgð ríkisstjórnarinnar en ekki þeirrar nefndar sem vann að frv. þótt hugmyndirnar séu sóttar til nefndarstarfsins.

Í öðru lagi er ástæða til að geta þess að drög að frv. um Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna eru til umfjöllunar í nefnd sem fulltrúar ríkisstarfsmanna eiga aðild að. Fjórir forustumenn ríkisstarfsmanna eiga aðild að nefndinni. Ég hygg að nefndin hafi haldið tíu fundi. Hugmyndin var að leggja þetta frv. fram nú og reyndar hefði átt að vera búið að því, en fyrir um það bil þremur vikum síðan var frá því horfið vegna þess að upp komu efasemdir um það til hvaða þátta svokölluð áunnin réttindi næðu. (Gripið fram í: Var það ekki bara að Davíð tók af þér völdin?) Ef vísað er til ræðu í síðustu viku, þá held ég að hv. þm. fari nokkuð dagavillt því ég er að vísa til þess sem gerðist fyrir þremur vikum. (Gripið fram í: Fer ekki ráðherrann áravillt?) Nei, nei, nei. Hv. þm. getur eins og aðrir fengið að ræða hérna síðar. En ég vil nota þetta tækifæri til þess að taka það sérstaklega fram að ég kannast ekki við að það sé nokkur hinn minnsti ágreiningur á milli mín og forsrh. í þessu máli, hvorki fyrr né nú. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÓE): Ekki samtal. Það eru allir hv. þingmenn á mælendaskrá sem eru að grípa fram í.)

Þetta vil ég taka sérstaklega fram vegna þess að í nefndinni fara fram efnislegar umræður um þessi mál og það er engin ástæða til að ætla að þar verði farið með málin á þann veg að hallað verði á áunnin réttindi opinberra starfsmanna. Það er öllum ljóst að það þarf að breyta lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Ábyrgir fjármálaráðherrar geta ekki horft upp á óbreytt ástand. Það er hins vegar spurning hvernig á að fara að og auðvitað verður þess freistað að ná sem bestu samkomulagi þar um. En jafnvel þótt samkomulag náist ekki við alla aðila, því það er líka spurning um það hvort hér geti fulltrúar opinberra starfsmanna samið fyrir hvern og einn því að í vissum skilningi er um einstaklingsbundin réttindi að ræða, þá þarf að gera breytingar hvernig sem þær verða gerðar.

Það er von mín hins vegar að það takist að hraða þessu starfi þannig að frv. geti litið dagsins ljós á þessu þingi en ég get ekki lofað því að það frv. verði afgreitt á þinginu. Ég vil hins vegar að það komi skýrt fram í þessari ræðu að þetta frv. sem mér sýnist að opinberir starfsmenn hafa fremst beint spjótum sínum að að undanförnu er í skoðun, í nefnd sem fjórir fulltrúar opinberra starfsmanna eiga aðild að. Þar fara fram mjög málefnalegar umræður um frv. og þar er nú verið að ræða til að mynda það hvort menn geti komist að sameiginlegri niðurstöðu um þær forsendur sem byggja skuli á við breytingar á lögunum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þetta segi ég hér og nú sérstaklega vegna þess að mér hefur sýnst að í fundaherferð opinberra starfsmanna beini þeir spjótum sínum að þessu frv. sem er til skoðunar. Þeir hafa fullan aðgang að öllum upplýsingum og taka þátt í vinnu málsins. (ÖJ: Líka réttindum og skyldum?)

Í þriðja lagi vil ég geta þess að forsrh. þarf að flytja bandorm, þ.e. frv. sem þarf að fylgja þessu frv. Það er á lokastigi. En það frv. er flutt vegna þess að í fjölmörgum lögum er vísað til laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Eins og margoft hefur komið fram, þá kann það að fara svo að þetta frv. breytist í meðförum þingsins. Það verður að koma í ljós í þingstarfinu eins og eðlilegt er enda hef ég ávallt boðið upp á það að viðræður geti átt sér stað við þá aðila sem að þessu máli þurfa að koma.

Loks vil ég aðeins nefna þótt ekki sé ástæða til að ræða svokallað kennarafrumvarp um yfirfærslu grunnskólans. Þar hefur að sjálfsögðu verið staðið við öll fyrirheit ríkisins. Það starf sem þar hefur átt sér stað hefur verið undir forustu menntmrn. en formenn undirnefndanna hafa komið úr fjmrn., a.m.k. í tveimur atkvæðamestu nefndunum. Þar hefur verið full samstaða. Flutningur þessa frv. sem við erum að ræða hér var öllum ljós þegar það frv. var ákveðið á sínum tíma, enda skýrt tekið fram í greinargerð með frv. að von væri á því frv. sem hér er til umræðu. Það er því rangt sem stundum hefur verið haldið fram að það hafi verið komið í bakið á einhverjum með flutningi þessa frv. sem hér er til umræðu.

Markmið frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins má segja að sé fjórþætt:

1. Að jafna réttarstöðu ríkisstarfsmanna og starfsmanna á almennum markaði.

2. Að auka sjálfstæði en um leið ábyrgð forstöðumanna ríkisstofnana.

3. Að gefa starfsfólki tækifæri til að vera umbunað eftir ábyrgð og hæfni í starfi.

4. Að færa ýmis ákvæði laganna frá 1954 eins og um vinnutíma í nútímalegra horf.

Þegar lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna voru sett árið 1954 var mikill munur á réttarstöðu flestra þeirra sem störfuðu hjá ríkinu og annarra launþega. Á meðan þeir fyrrnefndu höfðu hvorki rétt til að semja um kaup og kjör né verkfallsrétt nutu þeir síðar nefndu hvors tveggja. Af þessum sökum var eðlilegt að fyrrnefnda hópum væri tryggður betri réttur í lögum. Réttarstaða starfsmanna ríkisins hefur hins vegar gjörbreyst á þeim fjórum ártugum sem liðnir eru frá því að lögin voru sett. Ríkisstarfsmenn hafa nú flestir fengið samnings- og verkfallsrétt og eru flestir ráðnir með gagnkvæmum uppsagnarfresti.

Sú nýja starfsmannastefna sem felst í því frv. sem hér er til umræðu felst einkum í þremur meginbreytingum. Í fyrsta lagi ganga breytingarnar út á að dreifa valdi samfara aukinni ábyrgð stjórnenda í ríkisrekstri. Forstöðumenn ríkisstofnana fá aukið svigrúm til að greiða starfsmönnum til viðbótar grunnlaunum eftir hæfni og ábyrgð eins og ég hef áður getið um. Um þetta verða settar skýrar verklagsreglur og þess gætt að konur og karlar hafi sömu möguleika til að fá viðbótarlaun. Um leið og sjálfstæði forstöðumannanna er aukið er gerð meiri krafa til þeirra um árangur í starfi. Æviráðningar eru afnumdar. Forstöðumenn skulu skipaðir til fimm ára í senn með skipunarbréfi þar sem tilgreind eru verkefni stofnunar og þau markmið sem sett eru til skemmri eða lengri tíma. Þá tekur forstöðumaður ábyrgð á því að þjónusta stofnunar sé viðunandi og innan marka laga, þar á meðal marka fjárlaga.

Í öðru lagi fela breytingarnar í sér að starfsfólk er hvatt til að gera betur í starfi sínu með því að auka svigrúm til umbunar fyrir hæfni og ábyrgð í starfi. Þá er starfsfólki gert skylt að hlíta breytingum á starfi og launum. Þó er ekki hægt að breyta launakjörum þann tíma sem eftir er af skipun eða uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi.

Þá má nefna að gert er ráð fyrir að boðið verði upp á aukinn sveigjanleika í vinnutíma fyrir starfsfólk, en það getur t.d. liðkað til fyrir barnafjölskyldum. Þá er ekki sérstaklega kveðið á um að konur njóti einar fæðingarorlofs eða geti unnið hlutastarf vegna heimilisforstöðu eins og er í núgildandi lögum.

Í þriðja lagi má nefna að með þeim tillögum um breytingar sem fyrir liggja er gert ráð fyrir að allir starfsmenn ríkisins sitji við sama borð hvað réttindi og skyldur áhrærir. Nú er það svo að starfsmaður ríkisins sem er t.d. iðnaðarmaður og félagsmaður í ASÍ nýtur ekki sömu réttinda og starfsmaður sem er í BSRB. Þetta fólk vinnur hlið við hlið í þjónustu fyrir landsmenn og það samræmist illa jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Hér er því um mikilvæga réttarbót að ræða fyrir þá einstaklinga í starfi hjá ríkinu sem ekki hafa fallið undir gömlu lögin um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna.

Í frv. eru ekki skert réttindi sem samið hefur verið um í kjarasamningum. Því hefur hins vegar ranglega verið haldið fram af sumum forustumönnum ríkisstarfsmanna. Réttindi starfsmanna sem ráðnir hafa verið við gildistöku laganna breytast ekki að öðru leyti en því að réttur þeirra til biðlauna verður takmarkaður frá því sem nú er. Í frv. er gert ráð fyrir að réttindi þeirra starfsmanna sem ráðnir verða eftir gildistöku laganna breytist þannig að æviráðning er afnumin, biðlaunaréttur er afnuminn og laun verða almennt greidd eftir á.

Þótt lögin um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna séu rúmlega fertug hafa litlar breytingar verið gerðar á þeim. Starfsmannalög á Norðurlöndunum eru öll innan við 15 ára gömul hins vegar. Ég vek athygli á því og frá því er sagt í greinargerð með frv. frá hvaða tíma þau eru og hverjar hafi verið helstu efnisbreytingar á þeim. Okkar starfsmannalög eru hins vegar 42 ára gömul. Sem dæmi um hversu úrelt lögin eru orðin má nefna að gengið er út frá þeirri reglu að starfsmenn ríkisins séu ráðnir eða skipaðir ótímabundið án gagnkvæms uppsagnarfrests eða séu í raun æviráðnir. Samt sem áður er stærsti hluti ríkisstarfsmanna nú ráðinn með gagnkvæmum uppsagnarfresti á grundvelli laga frá 1974.

Þá ber víða á úreltum viðhorfum til kynjanna. Þar segir m.a. að konur geti einar nýtt sér heimild til sveigjanlegs vinnutíma að því gefnu að þær veiti heimili forstöðu og á öðrum stað segir: Ákveða skal með reglugerð hvernig fara skuli um launagreiðslur til kvenna í fjarvistum vegna barnsburðar.

Ég vil nú, virðulegi forseti, aðeins skoða nokkur bein efnisatriði frv. Ég hef þegar minnst á helstu breytingar sem verið er að gera í frv. en ríkisstarfsmenn eins og allir vita hafa nú flestir fengið samnings- og verkfallsrétt. Þrátt fyrir þetta er enn á því byggt að lögin taki einvörðungu til þeirra sem eru félasmenn í félögum innan vébanda BSRB og BHMR en nú er gert ráð fyrir breytingu í þessum efnum eins og ég hef þegar gert grein fyrir.

Frv. skiptist í fjóra hluta. Í fyrsta hlutanum er mælt fyrir um gildissvið laganna. Í öðrum hluta frv. sem tekur aðeins til embættismanna svokallaðra, en það er skilgreint hugtak í lagafrv., er skilgreint hverjir af starfsmönnununum skuli teljast embættismenn í skilningi laganna. Hugtakið ,,embættismaður`` er fyrst og fremst notað í frv. vegna þess að það kemur fyrir í 20. gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem stefnt er að því að embættismenn teljist þeir einir sem fást við æðstu stjórn ríkisins og sinna öryggisgæslu, svo sem lýst er nánar í athugasemdum með 22. gr. frv.

Í öðrum hluta er að finna reglur um það þegar embættismenn eru skipaðir eða settir í starf og þeim veitt lausn úr starfi og þar er einnig að finna fyrirmæli um sérstakar skyldur embættismanna umfram aðra ríkisstarfsmenn.

Þriðji hluti frv. tekur til annarra starfsmanna ríkisins en embættismanna. Þar er að finna reglur um ráðningu þeirra til starfa og starfslok auk þess sem kveðið er á um sérstök réttindi þeirra starfsmanna sem undir þriðja hluta falla, þ.e. samnings- og verkfallsrétt.

Í fjórða hlutanum eru ýmsar sérreglur og svo eru auk þess bráðabirgðaákvæði sem eru vitanlega mjög mikilvæg.

[14:30]

Ég ætla að hlaupa á nokkrum efnisatriðum frv. sem mig langar til að leggja áherslu á. Í 5. gr. er fjallað um vald forstöðumanna. Þar er sagt að forstöðumaður ráði alla starfsmenn og þetta er gert með það fyrir augum að auka sjálfstæði forstöðumannanna eins og markvisst er stefnt að með frv. Ákvæði þetta tengist eins og áður sagði 22. gr. frv. en þar er gengið út frá því að einungis sumir af starfsmönnum hjá stofnunum sem falla undir þá grein verði embættismenn svo sem nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum við greinina. Stefnt er að því að a.m.k. í sumum tilvikum verði ákveðið í viðkomandi lögum hverjir teljast embættismenn hjá þeim stofnunum sem taldar eru upp í 22. gr. en verði það ekki gert er það hlutaðeigandi ráðherra eða forstöðumaður stofnunar sem ákveður það í hverju tilviki.

Í 7. gr. er fjallað um auglýsingar um störf og þar segir að þau skuli auglýsa í Lögbirtingablaði, það er aðalreglan. Þessi grein er aðeins öðruvísi en er í núgildandi lögum en er sett m.a. með tilvísan til álits umboðsmanns sem liggur fyrir en þar kemur fram gagnrýni á framkvæmd þeirra laga sem nú eru í gildi.

Í 9. gr. er fjallað um þessi viðbótarlaun sem menn kannast við og hefur nokkuð verið í umræðunni. Þarna er lagt til að hægt sé að greiða umfram grunnlaunin en með þessu móti er lögð áhersla á að það sem er einn mikilvægasti hlekkurinn í nýrri starfsmannastefnu ríkisins að ríkið og stofnanir þess geti veitt almenningi, sem til þeirra leitar, bæði þjónustu svo sem fram kemur í almennum athugasemdum hér að framan. Við viljum að ríkið standi á jafnréttisgrundvelli gagnvart öðrum vinnuveitendum þannig að hægt sé að ráða til ríkisins starfsfólk sem fái sambærileg og jafngóð kjör og þeir sem starfa á einkamarkaði og til þess þarf sveigjanlegri launastefnu.

Í 12. gr. er fjallað um veikindaforföll og fæðingarorlof en nú byggist rétturinn til greiðslu launa í veikindaforföllum og fæðingarorlofi á mismunandi forsendum. Í 1. mgr. segir að sömu aðilar og fjalla um laun og önnur kjör skuli fjalla um rétt starfsmanna til launa í veikindaforföllum og í fæðingarorlofi. Þetta mál var nokkuð til umræðu fyrir nokkrum vikum síðan, en er komið í þann búning að ég hygg að allir geti verið nokkuð sáttir við.

Í 13. gr. er fjallað um rétt starfsmanna til sveigjanlegs vínnutíma. Þar er um nýja grein að ræða sem er talsverð breyting frá núgildandi lögum.

Í 21. gr. er það nýmæli að nú er heimilt að áminna starfsmann sem hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi sínu í þágu ríkisins. Hér er um að ræða nokkra breytingu frá því sem gildir þar sem heimild er útvíkkuð til þess að áminna starfsmann en ítarlega er fjallað um það í greinargerð með frv. hvað sé fullnægjandi árangur í starfi. Auðvitað er það svo að það verður að fara varlega með slíka heimild enda er tryggilega gengið frá því að viðkomandi starfsmaður hafi sinn rétt sem hann getur haldið fram til þess að ekki sé að ræða ósanngjarna og ólöglega áminningu sem síðan getur orðið grundvöllur uppsagnar.

Í 22. gr. er því lýst eins og ég hef áður sagt hverjir teljist embættismenn samkvæmt lögunum og í 23. gr. er sú meginregla sett að embættismenn skuli hér eftir ekki skipaðir ótímabundið heldur tímabundið til fimm ára í senn. Þessi atriði þarf öll auðvitað að skoða mjög vel og það kann vel að koma til álita að breyta þeirri upptalningu sem kemur fram í greinargerð og þessum lögum. Það verða menn að finna út. Það var ekki hugmyndin að takmarka rétt einhverra hópa heldur fyrst og fremst að koma hlutunum þannig fyrir að það kæmi sér best bæði fyrir viðkomandi starfshópa sem hafa ekki verkfallsrétt í dag og fyrir vinnuveitanda þeirra, ríkið. Það kann að vera ástæða til þess í vissum tilvikum að ekki sé gengið út frá fimm ára reglunni og ég nefni í því sambandi t.d. lögreglumenn. Það þarf að sjálfsögðu að fara vandlega ofan í slík atriði eins og boðið hefur verið upp á.

Ég verð að fara hratt yfir sögu en í 38. gr. er sagt að sérhverjum forstöðumanni verði sett erindisbréf þar sem skilgreind skuli helstu markmið í rekstri stofnunar og verkefni hennar en í 2. mgr. 8. gr. frv. er aðeins að finna heimild til að setja öðrum starfsmönnum erindisbréf. Með þessu móti er verið að gera ábyrgð forstöðumanna í ríkisrekstrinum skýrari en hún er í dag en það er afar mikilvægt ef auka á sjálfstæði stofnana og stjórnenda stofnana ríkisfyrirtækja.

Í 1. mgr. 41. gr. er sett fram sú meginregla að ráða skuli aðra starfsmenn en embættismenn ótímabundið en með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Í raun er þetta sú regla sem er við lýði hjá langflestum aðilum sem eru ráðnir til starfa hjá ríkinu í dag.

Í 1. mgr. 44. gr. er staðfest að ekki sé skylt að veita manni áminningu áður en honum er sagt upp störfum án tillits til þess hver ástæða fyrir uppsögn er. Síðan er mjög skýrt kveðið á um það hvern andmælarétt viðkomandi starfsmaður hefur.

Ég bendi einnig á 56. gr. og ákvæði til bráðabirgða án þess að fara mörgum orðum um það sem þar stendur. Þar er auðvitað að finna mjög mikilvæg ákvæði og ljóst er að þegar þetta frv. verður að lögum þarf að gera frekari breytingar og skoða þær með tilliti til þess sem gerast mun í öðrum frumvörpum og hvernig þeim reiðir af í þinginu. Augljóst er að ef réttarstaða opinberra starfsmanna verður svipuð og á einkamarkaði, almennum markaði, þarf að sjálfsögðu að taka tillit til þess í sambandi við lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna en opinberir starfsmenn hafa eins og flestir vita sótt mjög fast að gerðar verði breytingar á þeim lögum.

Virðulegi forseti. Ég hef farið í nokkur efnisatriði þessa frv. sem hefur verið talsvert til umræðu. Greinargerðin í frv. er mjög skýr og reyndar hefur frv. legið fyrir í um það bil hálfan mánuð þannig að öllum er ljós sá boðskapur sem þar er.

Breytingar á lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna eru að sjálfsögðu löngu tímabærar. Það eru stöðugt meiri kröfur gerðar til þjónustu ríkisins og ríkisstofnanir verða að hafa burði til að keppa við einkamarkaðinn um hæft starfsfólk. Það kerfi sem er við lýði kemur í veg fyrir að eðlilegar umbætur eigi sér stað í ríkisrekstrinum og kemur í veg fyrir aukið sjálfræði og ábyrgð stofnana og forstöðumanna þeirra. Þetta kerfi er þess vegna úr sér gengið. Stöðugt meiri kröfur eru gerðar til ríkisrekstrarins og ríkisstofnanir verða að búa við svipað starfsumhverfi og einkamarkaðurinn sem gerir þeim kleift að aðlagast breyttum háttum og keppa um hæft starfsfólk á jafnréttisgrunni. Frv. sem er til umræðu er ætlað að færa umhverfi ríkisstofnana í nútímalegra horf og bæta þjónustu ríkisins við almenning. Frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er mjög mikilvægt hagsmunamál allra Íslendinga, ekki einungis ríkisstarfsmanna eins og stundum má skilja í umræðu um fyrirhugaðar umbætur í ríkisrekstrinum heldur alls almennings. Okkur ber því að fjalla um þetta umbótamál þannig að tekið sé tillit til hagsmuna almennings sem og hagsmuna starfsmanna ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég hef í þessari ræðu minni lýst stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi umbætur í ríkisrekstri og skýrt út að sú stefna byggir á þeirri hugsun að umbætur í ríkisrekstri getið verið þáttur í því að efla og styrkja samkeppnisstöðu Íslands á meðal þjóðanna. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að ríkisreksturinn, ríkisumsvifin eru svo mikil meðal vestrænna þjóða að það skiptir verulegu máli hvernig okkur tekst til til þess að við getum haldið uppi betri lífskjörum en nágrannar okkar og það er eftir því sem við sækjumst að sjálfsögðu.

Ég hef bent á það hvernig í þessu frv. ef samþykkt verður muni rekstur ríkisins verða sveigjanlegri. Ég hef bent á það hvernig farið er í átt til jafnréttis með tvennum hætti, bæði jafnréttis karla og kvenna annars vegar en líka jafnréttis starfsmanna eftir því í hvaða félögum þeir eiga aðild, annars vegar í félögum opinberra starfsmanna og hinna sem eru starfandi hjá ríkinu sem vinnuveitenda en eiga aðild að félögum sem eru aðildarfélög ASÍ.

Ég hef lagt á það áherslu í ræðu minni hve mikilvægt það er að ríkið geti haft góða starfskrafta í þjónustu sinni og til þess þarf sveigjanleika, meira sjálfstæði stofnana og möguleika á því að umbuna fólki í launum. Þá er í frv. horfið frá æviráðningu og biðlaunum enda held ég að flestir séu sammála því að þetta eru börn síns tíma. Þetta voru réttindi sem eru eðlileg á meðan verkfallsréttur og samningsréttur giltu ekki hjá opinberum starfsmönnum en hefur í raun breyst því að æviráðning er núna hjá fámennari hópi nýráðinna starfsmanna og biðlaunarétturinn sem hefur verið til umræðu að undanförnu er auðvitað þess eðlis að það hlaut að koma að því að hann yrði endurskoðaður. Allar þessar breytingar eru samt hluti af alþjóðlegri þróun sem hefur átt sér stað eins og kemur fram í greinargerðinni, þróun sem lýsir sér m.a. í breytingum sem gerðar hafa verið á starfsmannalögum í helstu nágranna- og viðmiðunarlöndum okkar eins og á Norðurlöndum en einnig miklu víðar í hinum vestræna heimi eins og innan OECD þar sem þessar umræður hafa verið mjög fyrirferðarmiklar. Við verðum að muna eftir því, virðulegi forseti, að ríkið er ekki eingöngu til vegna starfsmanna ríkisins þótt þeir séu alls góðs maklegir heldur vegna landsmanna allra sem ríkinu er ætlað að þjóna.

Að lokinni 1. umr. málsins óska ég eftir því að frv. fái meðferð í hv. efh.- og viðskn. og verði síðan sent til 2. umr.