Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 14:45:13 (4037)

1996-03-19 14:45:13# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[14:45]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var reyndar ekki efnisleg athugasemd heldur athugasemd um önnur atriði. Það getur vel verið að hv. þm. þyki það hroki og lítilsvirðing sem kom fram í máli mínu, en það var ekki ætlunin og ég vona að hann hafi þá verið einn um að skilja orð mín þannig. Það sem ég hins vegar benti á og verður ekki umflúið, þar sem það er sannleikurinn í málinu, er að þegar frv. var afhent opinberum starfsmönnum svo hægt væri að hefja efnislegar umræður kusu þeir að setja frumvarpsdrögin, sem voru reyndar umræðudrög, fram með þeim hætti að þar væri um meiri háttar árás af hálfu ríkisstjórnarinnar og þó einkum fjmrh. að ræða. Ég held að þetta sé öllum ljóst. Hvað fundaherferðina varðar held ég að það sé líka ljóst að þar var ekki verið að halda fram málstað beggja aðila eða fá upplýsingar frá báðum hliðum. Þetta voru einhliða baráttufundir og það hlýtur að koma að því og það verða menn líka að þola, jafnvel þingmenn hv. stjórnarandstöðu, að hinn aðilinn fái að koma sínum sjónarmiðum að, hvort sem það er á hinu háa Alþingi eða með þeim aðferðum sem hafa tíðkast, þ.e. með því að gefa út blað til að koma hinni hliðinni að í málinu. Reyndar er þetta blað gefið út á vegum fjmrn., 4. árg. Ég held að allir hljóti að skilja að það er mjög lýðræðislegt. Ég vil ítreka það sem ég hef margoft sagt. Boð okkar um að ræða við opinbera starfsmenn og forustumenn þeirra um þetta frv. stendur. Frumvarpsdrögin sem lögð voru fram í upphafi hafa í raun gerbreyst og fjölmörg atriði sem nú eru í frv. eru tilkomin vegna ábendinga frá fulltrúum opinberra starfsmanna. Þannig viljum við vinna, en í samráðinu felst ekki að við séum skuldbundin til að fara í einu og öllu eftir þeim hugmyndum sem fulltrúar eða forustumenn opinberra starfsmanna hafa um það hvernig svona lög eiga að líta út. Það er Alþingis að setja lög um þessi efni, en það er hins vegar skylda okkar að hafa samráð við forustumenn launþegasamtaka opinberra starfsmanna. Ég vona að þetta skiljist og ég vona líka að enginn skilji viðhorf mín þannig að hér sé um einhvern hroka og lítilsvirðingu að ræða í garð opinberra starfsmanna.