Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 14:50:02 (4039)

1996-03-19 14:50:02# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[14:50]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei haldið því fram að það sé óeðlilegt að launþegasamtök haldi fundi, síður en svo. Mér þykir það alveg sjálfsagt. Ég hef hins vegar gert athugasemdir við það að í upphafi samráðsferils um frumvarpsdrög sem lágu fyrir og þurfti að ræða, m.a. til þess að hægt væri að taka tillit til breytingartillagna frá viðkomandi aðilum, kusu forustumenn opinberra starfsmanna að fara út á völlinn með frumdrögin, tala fyrir þeim með sínum hætti og fara í sumum tilvikum því miður ranglega með í stað þess að hefja viðræður á því stigi málsins. Það varð hins vegar til þess að við neyddumst til að skýra okkar málstað í því blaði sem gefið var út. Ég vona að hv. þm. sé ekki að amast við því að ríkið gefi út fjórblöðung til að skýra þann málstað sem við þurfum að verja í þessu efni. (Gripið fram í.) Það skiptir í sjálfu sér engu máli, en ég virði hv. þm. fyrir það að reyna að gerast fyndinn með þessum hætti, enda tókst honum það mjög vel. Hins vegar skyldi ég ekki brandarann, eða hvað 4. árgangurinn hafði með þetta að gera. En hv. þm. skildi það örugglega sjálfur. (SJS: Á ég kannski að segja hann aftur?) Hv. þm. gefst tækifæri til þess að segja brandarann aftur því hann er á mælendaskrá að því er ég best veit.

Aðalatriðið er þetta og ég ætla að endurtaka það hér enn og einu sinni að samráð stendur til boða. En samráð þýðir ekki að það eigi að fara í einu og öllu eftir viðhorfum opinberra starfsmanna. Það hlýtur að vera Alþingi sem tekur lokaákvörðun um það hvernig þessi lög eiga að líta út. Formaður BSRB veit að ég hef amast við því að aðeins önnur hliðin hafi verið kynnt. Hann hefur sagt við mig að hann telji sig hafa kynnt báðar hlðar málsins og spurt mig hvort ég treysti honum ekki fyrir því. Ég skal viðurkenna að ég treysti mér sjálfum fremur til að skýra mína hlið málsins en forustumanni BSRB, þótt sjónarmið hans séu góðra gjalda verð.