Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 14:52:16 (4040)

1996-03-19 14:52:16# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[14:52]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska eftir því að hæstv. forsrh. komi í þingsalinn og einnig hæstv. utanrrh., formaður Framsfl. Þótt hæstv. fjmrh. sé í böðulshlutverkinu að þessu sinni, þurfa þeir að vera viðstaddir sem bera pólitíska ábyrgð á stefnu ríkisstjórnarinnar.

Einnig er nauðsynlegt að ríkisstjórnin geri grein fyrir stefnu sinni og geri hreint fyrir sínum dyrum vegna þess að það hafa komið fram mjög misvísandi upplýsingar og yfirlýsingar frá ráðherrum í ríkisstjórninni, annars vegar frá hæstv. fjmrh. og hins vegar hæstv. forsrh., varðandi þau frumvörp sem hafa verið til umræðu að undanförnu, þar á meðal um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Hæstv. forsrh. sagði í þingsölum ekki alls fyrir löngu að um lífeyrismálin yrði samið. Hann bætti því við að ekki stæði til og reyndar hefði aldrei staðið til að taka af mönnum áunnin réttindi. Nú segir hæstv. fjmrh. í þingræðu áðan að vel komi til greina að leggja lífeyrisfrv. fram á þessu þingi. Hæstv. forsrh. sagði ekki alls fyrir löngu að þetta yrði ekki gert og það yrði samið um þessi mál. (Gripið fram í: Og báðir segjast vera sammála.) Báðir segjast síðan vera sammála. Hæstv. fjmrh. kemur fram og segir að sér finnist vel koma til greina að fara svokallaða Vestmannaeyjaleið. Hver var Vestmannaeyjaleiðin? Hún var að loka sjóðnum í Vestmannaeyjum, Lífeyrissjóði bæjarstarfsmanna, skella hurðinni á starfsfólkið bótalaust. Er hæstv. forsrh. sammála þessari leið? Ef hæstv. forsrh. er alvara með það að ekki eigi að skerða áunnin réttindi, vil ég beina þessari spurningu til hans: Hvað með skerðingu á áunnum réttindum sem er að finna í því frv. sem hér er til umræðu, frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins? Þar eru áunnin réttindi skert. Ef það reynist vera að áunnin réttind yrðu skert yrðu þessi frumvarpsdrög að lögum, ætlar hæstv. forsrh. þá að beita sér fyrir því að þetta frv. verði sett í sama farveg og frv. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og að um þessi mál verði samið á siðaðra manna hátt? Þetta eru hlutir sem við þurfum að fá upplýsta áður en þessari umræðu er lokið.

Og það er enn annað. Við þurfum líka að fá að vita hvaða frumvörp önnur hæstv. ráðherra í ríkisstjórn eru með í rassvasanum. Hvað á eftir að dúkka upp í þessari viku? Það var hringt í fulltrúa samtaka launafólks í morgun og þeir boðaðir á fund hæstv. félmrh. með klukkutíma fyrirvara til að kynna þeim nýtt frv. til laga um samskipti á vinnumarkmaði. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Og hvað á síðan eftir að dúkka upp í einkavæðingunni og einkavinavæðingunni? Þau frumvörp sem eru til umræðu og hafa verið til umræðu að undanförnu ber öll að skoða í ákveðnu samhengi. Auðvitað vitum við öll hvað vakir fyrir ríkisstjórninni. Auðvitað vitum við öll að ríkisstjórnin ætlar að hafa biðlaunaréttinn af fólki. Hún ætlar að hafa biðlaunaréttinn af starfsmönnum svo að hún geti verið frjálsari að því að einkavinavæða. Auðvitað vitum við hvað það er sem vakir fyrir mönnum og er ekki rétt að menn tali um þessa hluti umbúðalaust? Hæstv. fjmrh. stendur hér og segir að þetta snúist fyrst og fremst um betri meðferð opinberra fjármuna. Er þetta ekki sami fjmrh. og færði einkavinunum SR-mjöl á silfurfati? Er þetta ekki sami hæstv. fjmrh. og ,,seldi`` Lyfjaverslun ríkisins? Er þetta ekki sami hæstv. fjmrh. og seldi eða gaf eða færði alla vega á silfurfati framleiðsludeild ÁTVR? Og kemur síðan hingað í pontu á Alþingi og segir að þetta snúist allt um betri meðferð opinberra fjármuna. Hvert eru menn eiginlega að fara hér í málflutningi? Mér er spurn.

Síðan er sagt að þetta sé allt gert í samráði og samvinnu. Hvers konar afbökun er þetta á máli, hugtökum og orðum? Samráð. Þeir vissu þetta allt og hafa vitað í tvö ár, sagði hæstv. fjmrh. Hvað var það sem menn vissu í tvö ár? Að afnema átti samningsrétt hjá lögreglunni? Hafa menn vitað það í tvö ár? Að afnema átti samningsrétt hjá tollvörðum? Hafa menn vitað það í tvö ár? Hafa menn vitað í tvö ár að það átti að takmarka málfrelsi hjá stórum hópum starfsmanna ríkisins? Hafa menn vitað það í tvö ár? Hafa menn vitað í tvö ár að hér ætti að koma á nýju samningskerfi þar sem vald forstjóranna yrði stóraukið, að hér yrði launakerfi samkvæmt duttlungum forstjóranna? Hafa menn vitað það í tvö ár? Hafa menn vitað í tvö ár að kynnt yrði á Alþingi frv. svo fullt af mannfyrirlitningu að það væri ekki sæmandi fyrir Alþingi að samþykja það?

Ég vil beina fyrirspurnum til hæstv. fjmrh. Hvað er átt við með minni háttar skrifstofustörfum? Hverjir eru hinir minni háttar menn sem eiga að starfa hjá ríkinu? Það er talað um það í þessum lögum að greina á milli hárra og lágra, húsbænda og hjúa. Sum störf þarf að auglýsa og önnur ekki. Það þarf ekki að auglýsa hin minni háttar skrifstofustörf. Hver eru þau? Getum við fengið þetta upplýst?

[15:00]

Svo eru það kallaðir samningar og samráð þegar mönnum eru kynnt nær fullbúin lagafrumvörp og þeir beðnir um að lesa þau yfir í próförk vegna þess að það eigi að leggja þau fyrir þingið eftir helgina til samþykktar. Það er hins vegar rétt sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. að það hefur ýmsu verið breytt frá fyrstu próförk. Í fyrstu próförk gleymdist veikindarétturinn. Í fyrstu próförk var ekki gert ráð fyrir því að menn yrðu að upplýsa starfsmenn um það hvað þeir ættu að fá í kaup og hvaða réttindi þeir ættu að búa við fyrr en tveimur mánuðum eftir að þeir kæmu til starfa. Hvers vegna skyldi það hafa verið? Jú, vegna þess að þetta var það allra lægsta sem þeir höfðu fundið hjá Evrópusamandinu. Þetta var kjallaragólfið í Evrópu, sennilega úr fjallahéruðum Grikklands eða Suður-Portúgal. Hinn evrópski kjallari átti að verða hið íslenska loft. Þannig að það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. fjmrh. að það hefur sitthvað verið lagað. En það sem ekki hefur verið lagað og ekki hefur verið breytt er að við erum hér með frv. sem gerir ráð fyrir grundvallarbreytingum frá félagslegum samningum yfir í duttlungasamninga þar sem völd forstjóranna eru aukin á alla lund. Málskotsréttur er meira að segja takmarkaður. Það er kveðið á um hann í 49. gr. Hér segir um þá grein, með leyfi forseta:

,,Ef ekki væri öðruvísi fyrir mælt væri heimilt að kæra sérhverja ákvörðun, sem tekin er á grundvelli laganna til æðra stjórnvalds með stjórnsýslukæru skv. 26. gr. stjórnsýslulaga. Slíkt myndi hins vegar draga úr sjálfstæði því sem ætlunin er að veita einstökum forstöðumönnum ríkisstofnana samkvæmt frumvarpinu.``

Hinir sjálfstæðu menn, hinir sjálfstæðu einstaklingar. Hvað er það sem vakir fyrir ríkisstjórninni? Mér er spurn. Hvað skyldi vaka fyrir ríkisstjórninni með 47. gr. laganna? Þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Nú kýs starfsmaður að standa utan stéttarfélaga og skal hann þá njóta sömu launa og launakjara og samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir sambærileg störf. Sé ekki um það að ræða skal fjármálaráðherra ákveða laun og launakjör þeirra starfsmanna sem standa utan stéttarfélaga.``

Menn eiga að að fá það sem aðrir vinna fyrir. Síðan geta menn í skugga sólkonunganna, markgreifanna, hinna nýju yfirstétta, staðið utan félagslegra samtaka en notið góðs af því sem aðrir vinna fyrir. Síðan segja þeir að þeir séu að gera þetta allt til að umbuna hinum eljusömu einstaklingum. Hinum duglegu. Haldið þið að menn sjái ekki í gegn um þetta? Það eru ekki hinir eljusömu og duglegu. Það eru hinir hlýðnu og undirgefnu. Það er verið að færa völd til í þjóðfélaginu með þessu frv. En þetta skyldi ekki koma nokkrum manni á óvart. Vegna þess að hér er verið að föndra við nýjungar sem hafa verið reyndar annars staðar. Þetta eru engar nýjungar. Þeir hafa leitað logandi ljósi í öllum mistakasmiðjum heimsins. Þeir hafa fundið allt það versta sem þeir þar hafa komist yfir og ætla að reyna að þröngva upp á þessa þjóð.

Hingað kom í sérstöku boði ríkisstjórnarinnar erindreki alla leið frá Nýja-Sjálandi, Ruth Richardson. Hún flutti mikla eldmessu á Hótel Loftleiðum. Hvað skyldi hún hafa sagt? Hún sagði: Ég vil vekja athygli ykkar á þrennu. Í fyrsta lagi þurfum við á leiftursókn að halda. Farið hratt fram og ákveðið. Í öðru lagi hafið ekkert samráð. Gerið þetta án samráðs og reynið að koma með margt í einu. Þetta er allt að ganga eftir. Þeir standa sig mjög vel. Ekkert samráð og hratt og hlustið ekki á mótmæli. Að lokum þetta: Hlustið ekki á mótmæli. Og hæstv. fjmrh. kom hér áðan og talaði um forustumenn starfsmanna ríkisins. Hvers konar fyrirlitning er þetta á öðrum starfsmönnum ríkisins og öllu því fólki sem hefur verið að koma saman til funda, ræða þessi mál og sent ríkisstjórninni sitt álit? Yfir 200 fundir hafa verið haldnir þar sem þessi frv. hafa verið kynnt og það rignir yfir mótmælaskjölunum. Síðan leyfa menn sér að segja að þetta sé eitthvert andóf í einstaka forustumanni sem þar að auki fari með rangt mál.

Þessi lærimóðir ríkisstjórnarinnar, Ruth Richardson heitir hún, fyrrv. fjármálaráðherra Nýja-Sjálands sem hrökklaðist úr embætti sökum óvinsælda eftir að hún hafði rústað velferðarkerfið þar í landi og er reyndar mjög stolt af --- það stóð upp úr henni hugsjónaeldurinn á Hótel Loftleiðum, ekki vantaði það. Hún er komin núna til Bangladesh og Argentínu og er að reyna að uppfræða menn þar. Við höfum hins vegar borið okkur saman í flestum efnum við Norðurlöndin og ýmis önnur ríki innan OECD sem búa við svipaðar aðstæður og við.

Mig langar til að gera að umtalsefni hér sitthvað sem kemur fram í athugasemdum ríkisstjórnarinnar með því frv. sem hér er til umræðu. Hér segir t.d., og þetta er í sama andanum og ég vísaði til áðan að það ætti að fara vel með opinbert fé, sem að sjálfsögðu á að gera, að sjálfsögðu á að gera hvort sem um er að ræða söluna á SR-mjöli eða einkavinavæðinguna í Neyðarlínunni þar sem verið er að dæla miklum fjármunum til einkavina ríkisstjórnarinnar á sama tíma og menn ætla að haska þessu í gegnum þingið svona rétt fyrir vorið áður en laxveiðitíminn byrjar.

Í athugasemdum með þessu lagafrv. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað mjög ört á undanförnum áratugum. Þannig er áætlað að þeir hafi verið um 8% af vinnuafli í landinu árið 1955 miðað við 20% á þessu ári.``

Það sem við eigum að skilja með þessari yfirlýsingu er að þetta sé svo geigvænleg fjölgun og orðið svo alvarlegt vandamál hve fjölmennir starfsmenn hins opinbera eru að það verði að snúa af þeirri braut. En það er ekki gerð nokkur einasta tilraun til að setja þessi mál í sitt rétta samhengi. Þannig er það að ef litið er á samanburðartölur úr skýrslum Þjóðhagsstofnunar á árabilinu 1980--1988 kemur í ljós að vinnuafl starfandi hjá hinu opinbera er miklu minna hlutfall hér en gerist í flestum öðrum ríkjum. Einnig er á það að líta að þegar við erum að bera saman stærðir af þessu tagi þurfum við að gæta vel að því að við séum með sambærilegar stærðir. Þannig er hér í athugasemdum ríkisstjórnarinnar við þetta frv. talað um ríkisstarfsmenn. Nær lagi væri að tala um opinbera starfsmenn ef við erum að bera þetta saman við það sem gerist með erlendum þjóðum einfaldlega vegna þess að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er ólík og mismunandi frá einu landi til annars. Sums staðar er skólinn á vegum sveitarfélaga og drjúgur hluti heilbrigðisþjónustunnar en annars staðar hjá ríkinu. Ef við skoðum samanburðartölur sem ég var að vitna til, kemur í ljós að vinnuafl hins opinbera á þeim árum sem ég vísaði í, 1980--1988, var 16,7% hér á landi, 26,3% á Norðurlöndum án Íslands, sums staðar að sjálfsögðu hærra því þetta er meðaltal, 33% í Danmörku, 29% í Svíþjóð en OECD-meðaltalið er á svipuðu róli og við, 15,2% á þessu tímabili.

En það sem skiptir ekki síst máli þegar við erum að bera saman svona stæðrir er að hyggja að þeim samfélagsbreytingum sem átt hafa sér stað frá 8% hans Friðriks Sophussonar. Hverjar skyldu þær breytingar hafa verið? Þær breytingar felast í því að konur hafa farið út á vinnumarkaðinn. Það deilir enginn um það að eftir 1960 má rekja hagvöxtinn í norðanverðri Vestur-Evrópu til atvinnuþátttöku kvenna. Þær hafa farið út á vinnumarkaðinn. Þegar farið er að skoða þessar tölur og þessi gögn, þegar farið er að bera saman þessar stærðir í alvöru þá sjáum við að atvinnuþátttaka kvenna er einna hæst í heiminum hér á landi. Það eru aðeins Svíar sem standa okkur framar að þessu leyti. Þetta hefur gerst þannig að störf sem áður voru unnin inni á heimilunum, umönnunarstörfin, uppeldis- og kennslustörfin, fræðslustörfin, eru komin út í þjóðfélagið, út í opinberar stofnanir. Þess vegna þyrfti hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson að halda örlítið erindi um það fyrir okkur hver hans heimssýn raunverulega er þegar hann horfir með svo mikilli eftirsjá í 8% frá 1955. Vill hann hverfa aftur til þess tíma? Reyndar veit maður varla þegar maður er að fjalla um þessi mál og um þetta frv. og um þessar athugasemdir, hvar á að byrja og hvar á að hætta.

Hér segir m.a., með leyfi forseta: ,,Ríkið minnir að ýmsu leyti á fyrirtæki sem hefur orðið undir í samkeppni á frjálsum markaði.`` Hvað er átt við með þessu? Er verið að tala um sjúkrahúsin eða skólana? Hvað eru menn að tala um? Hvers konar alhæfingar eru þetta eiginlega? Haldið þið að við gerum okkur ekki öll grein fyrir því að sumar stofnanir ríkisins eru vel reknar, aðrar ekki? Að sjálfsögðu er það svo. En hvers konar alhæfingar eru þetta? Það má benda á það að árið 1993 gerði efnahags- og framfarastofnun OECD úttekt á íslenska heilbrigðiskerfinu. Meginniðurstaðan varð sú að íslenska heilbrigðiskerfið veitti þjónustu sem er töluvert yfir meðallagi að gæðum með tilkostnaði sem væri lítið umfram meðaltal annarra OECD-ríkja. Svipað framlag, betri gæði. Síðan kemur hæstv. fjmrh. fram hér með frv. og athugasemdir þar sem verið er að níða niður þessa þjónustu, alhæfa um alla opinbera þjónustu. ,,Hún er illa rekin, minnir á illa rekið fyrirtæki.`` Er þetta til þess fallið að skapa málefnalega umræðu? Mér er spurn.

[15:15]

Hæstv. fjmrh. sagði að það vekti fyrir frumvarpssmiðum að jafna kjörin, að jafna kjör starfsmanna hjá ríkinu. Ég vildi að svo væri, að það væri í rauninni verið að jafna kjörin upp á við, að laga og bæta kjörin hjá þeim sem búa við lökust kjörin og lökustu réttindin. En er það að jafna kjörin að takmarka málfrelsi manna? Er það að jafna kjörin að svipta heilar stéttir samningsrétti? Er það að jafna kjörin? Er það að jafna kjörin að svipta menn biðlaunarétti, þeim sem hafa búið við hann? Af hverju ekki að laga hann hjá hinum sem hafa ekki haft hann eða semja um annars konar fyrirkomulag? Vegna þess að þetta er áróður sem er mjög lævís. Það er verið að reyna að mála úr opinberum starfsmönnum, starfsmönnum ríkisins einhverja spillta forréttindastétt --- það er það sem verið er að reyna gera --- sem mætir á morgnanna í vinnuna til að baða sig upp úr biðlaunarétti, veikindarétti og fæðingarorlofi umfram það sem aðrir þegnar þjóðfélagsins hafa. Þetta er sú mynd sem verið er að reyna að draga upp. Staðreyndin er sú að hjá hinu opinbera búa menn við ólík launa- og réttindakerfi. Það er staðreynd. Í sumum tilvikum eru menn í nákvæmlega sama starfi, með sömu menntun, gera nákvæmlega sömu hlutina. Þeir geta valið um tvö ólík félög. Þetta á við t.d. hjá Flugmálastjórn, hjá Pósti og síma, hjá útvarpi, hjá sjónvarpi og víðar. Kjörin eru ólík, réttindin eru ólík og launakjörin eru ólík. Í sumum tilvikum er launamunurinn 15 þús. kr. á mánuði. Sá sem býr við lakari réttindi hefur hærri laun og munurinn er 15 þús. kr. Hann var það í þessum mánuði og í síðasta mánuði, líka í desember, líka í september og í fyrra og hittiðfyrra og fyrir tíu árum. Hvernig er þessi munur réttlættur? Jú, vegna þess að menn hafa annan og betri lífeyrisrétt. Menn hafa annan og betri veikindarétt og menn hafa margrómaðan biðlaunarétt. Þetta er skýringin á þessum mun. Síðan ætlar ríkisstjórnin að koma hér fram og fjmrh. og segja: Við meintum ekkert með þessu. Þetta var allt í plati. Við ætlum að þurrka þetta út á sama hátt og við þurrkum út með einföldu strokleðri samningsrétt hjá heilum starfsstéttum, lögreglu, tollvörðum, starfsmönnum fangelsa. Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Og ætla síðan að leyfa sér að koma hér fram og segja að þetta sé allt gert í anda jafnréttis.

Ég vil að lokum ítreka það að af hálfu samtaka launafólks fullyrði ég að um þessa þætti alla, um alla þessa þætti eru menn tilbúnir að semja og hafa alltaf verið, að ganga til samninga um breytingar á þessum hlutum. En valdboði af því tagi sem hér er verið að þröngva upp á okkur er algerlega hafnað. Ég á eftir að taka á því og ég á nú eftir að trúa því að alþingismenn, að þingmenn stjórnarflokkanna ætli að láta teyma sig til þessara verka. En með því verður fylgst.