Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 15:21:06 (4042)

1996-03-19 15:21:06# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:21]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. 20% þjóðarinnar eru opinberir starfsmenn. Skattborgarar borga þeim laun. Eigum við ekki að segja að þeir fái laun upp úr sjónum og af verðmætum sem þjóðin aflar og skapar. Það á líka við um starfsmenn Kaupþings t.d., Fjárfestingarfélagsins, svo vitnað sé til starfsemi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal þekkir mjög til. Hún hefur líka þurft að standa straum af óheyrilegu vaxtaokri sem hefur einkennt þetta þjóðfélag á síðustu tveimur áratugum eða hálfum öðrum áratug. Mikið af fiskinum okkar hefur farið í það og öðrum verðmætum sem við höfum aflað.

Hvernig við verðleggjum einstök réttindi, það ætla ég ekki að fara út í hér. En ég veit ekki heldur og get ekki slegið á það hvernig á að verðleggja framkomu manna, mannorð manna, viðhorf til samninga. Hins vegar erum við að kynnast mjög undarlegum framgangsmáta ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Ég veit ekki hvernig hún verðleggur sig þannig að hún geti hér rift samningum að vild. Haft af fólki réttindi hvort sem það eru biðlaunaréttur eða annar réttur sem það hefur áunnið sér.