Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 15:22:57 (4043)

1996-03-19 15:22:57# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:22]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ekki fékk ég svör við því hvers virði biðlaunarétturinn er og þeim mun síður hvers virði æviráðningin er. Kannski er þetta einskis virði og þá getum við afnumið þetta. Hvað varðar Kaupþing og starfsmenn þeirra þá vil ég benda hv. þm. á að það eru svona fjögur til fimm ár síðan ég seldi það ágæta fyrirtæki og það er í höndum ágætra manna núna, sparisjóðanna. Ég veit ekki betur en það veiti ágæta þjónustu jafnt opinberum starfsmönnum sem öðrum. Varðandi vaxtaokrið sem hv. þm. kom inn á og alla fiskana sem fara í það þá hafa fiskarnir aðallega farið í vaxtaokur erlendis. Og það vaxtaokur, ég vil benda á það, kostar ríkissjóð, vegna erlendra skulda ríkissjóðs, vegna skulda ríkissjóðs innan lands og erlendis og vegna halla ríkissjóðs vegna þess að það er verið að greiða ríkisstarfsmönnum há laun og góð laun sem þeir eiga rétt á, þá kostar það 50 millj. kr. á dag, þ.e. vextir sem ríkissjóður er að borga vegna skulda ríkissjóðs. Það er mjög ógnvekjandi fyrir 80% þjóðarinnar.