Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 15:24:06 (4044)

1996-03-19 15:24:06# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:24]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að fara út í karp hér við hv. þm. Pétur H. Blöndal um biðlaunarétt eða önnur réttindi sem verið er að reyna að hafa af fólki. En ég held þó að réttindi almennt séu háð því hver í hlut á hversu vel þau koma sér. Fyrir þann mann sem missir atvinnu sína og fær greidd biðlaun þá skipta þau að sjálfsögðu þann einstakling mjög miklu máli. Ég vil aðeins minna á þær stærðir sem við erum að tala um þegar menn ætla svona að gefa sér lausan tauminn í að hneykslast á þessum hlutum. Þá er það svo að við skulum segja talsímavörður hjá símanum, ætli hann sé ekki með 70 þús. kr. í grunnlaun og ef nú svo færi að viðkomandi fengi biðlaun, jafnvel tvöföld laun og væri með 140 þús. kr. á mánuði í heila sex mánuði þá slagar hann ekki upp í helminginn af launum hæstv. fjmrh. sem er að býsnast svona óskaplega yfir því að einhverjir starfsmenn ríkisins komi til með í fáeina mánuði að slaga, ja, ekki upp í helminginn af þeirra eigin launum. (Gripið fram í.) Þetta er dæmi um tvöfalt siðferði.